Breytingar breytinganna vegna?

Vegferð okkar hefur verið byggð á ákveðnum grunngildum sem hafa varðað veginn og staðist tímans tönn.

Margt hefur breyst í íslensku samfélagi á undanförnum árum og áratugum og virðist síst hægja á þeirri þróun. Þannig hefur sjávarútvegurinn, landbúnaðurinn og raunar efnahagslífið allt tekið miklum breytingum. Samfélagið okkar hefur tekið stakkaskiptum og hagkerfið opnast og blómstrað þótt ekki hafi allt gengið áfallalaust fyrir sig. Íslenskt samfélag er líka komiðí framvarðasveit þegar kemur að mannréttinda- og jafnréttismálum. Hér hefur enda verið háð löng og ströng barátta fyrir gildum sem okkur þykja orðið sjálfsögð. Fyrir öllum þessum breytingum hafa farið einstaklingar og hópar sem hafa verið hugrakkir og framsýnir, fólk sem hefur trúað á einstaklingsframtakið og -frelsið og að auki á nána samvinnu við aðrar þjóðir. Vegferðin hefur verið byggð á ákveðnum grunngildum sem hafa varðað veginn og staðist tímans tönn. Þannig hafa þessi gildi verið drifkraftur breytinga sem hafa fært okkur jafnrétti og hagsæld og á sama tíma staðið af sér alls kyns tískubylgjur sem hafa runnið sitt skeið og lítið skilið eftir sig annað en skýrslur sem enginn les og rykfallnarumsóknir sem enginn minnist lengur á og.  

Meðal þess sem hefur tekið breytingum er stjórnarskráin okkar þótt hún sé ekki gömul. Bandaríska stjórnarskráin er þannig samin á 18. öld. Hin óskráðu stjórnskipunarlög Bretlands eiga rætur að rekja allt aftur til ársins 1215. Í þessum löndum er engin umræða um að kollvarpa stjórnarskránni. En þar líkt og hér hafa verið gerðar breytingar og viðbætur gegnum tíðina. Á stjórnarskrá okkar hafa verið gerðar veigamiklar breytingar, aðallega á mannréttindakafla hennar, undir forystu sömu afla. Stjórnarskráin er grundvöllur íslenskrar stjórnskipunar og því þarf að fara varlega í breytingar á henni. Þær þurfa að vera vel ígrundaðar og um þær þarf að ríkja víðtæk sátt. 

Það eru ekki allar breytingar til hins betra. Krafa um breytingar breytinganna vegna er oft einfaldlega til marks um lýðskrum eins og innihaldslaus rökstuðningur er til vitnis um.  

Latest posts by Diljá Mist Einarsdóttir (see all)

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Diljá hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2006.