Af jaðrinum

Það eru ekki allir sem taka þátt í þjóðfélagsumræðunni og enn færri taka þátt í þjóðfélagsumræðunni um þjóðfélagsumræðuna. En öll búum við í umræddu þjóðfélagi og það er mikilvægt að muna eftir þeim sem sitja bara þöglir hjá.

Ég settist á veitingastað í Vesturbænum í gær og pantaði mér pizzu. Ég þurfti að bíða ansi lengi eftir pizzunni og síminn minn dó í höndunum á mér um leið og ég settist við borðið mitt. Frábært. Ég reyndi að fá eitthvað dópamín út í kerfið með því að lesa á kvittuna sem ég fékk þegar ég pantaði en það gekk ekkert sérstaklega vel. Ég sneri mér því að sjónvarpsskjánum fyrir aftan mig í örvæntingarfullri tilraun til að stytta mér biðina eftir matnum, en tónlistarmyndbönd á tungumáli sem ég skildi ekki heilluðu lítið. Svo var skjárinn fyrir aftan mig, þetta var aldrei að fara að ganga. Það eina sem mér datt þá í hug var bara að horfa á fólkið í kringum mig. Fólkið sem var annað hvort að graðka í sig mat eða að bíða eftir því að geta gert nákvæmlega það – rétt eins og ég. 

Fyrst sá ég miðaldra mann sem var klæddur eins og ungur, vafasamur dópsali í bandarískri bíómynd, það var eiginlega sprenghlægilegt. Grá hettupeysa, Adidas-originals skór og jogging-buxur frá einhverjum óskilgreindum framleiðanda. Við annað borð sat vægast sagt einkennilegur hópur. Þrír menn, tveir augljóslega frá löndum við Miðjarðarhafið og frekar unglegir og svo akfeitur, miðaldra strætóbílstjóri sem virtist íslenskur. Á borðinu við hliðina var svo unglingapar, stelpan enn í gaggó en strákurinn virtist eldri og ég vildi eiginlega helst ekki komast að frekari niðurstöðu um það. Ég leit því annað og sá konu sem var ekki alveg í jafnvægi. Hún var með augun galopin, alveg glennt, og gat ekki setið kyrr. Hún muldraði við sjálfa sig í sífellu og leit út fyrir að vera alltaf að leita að einhverju sem væri týnt. Hafirðu séð myndina Requiem for a Dream, lesandi góður, þá geturðu gert þér í hugarlund hvernig grey konan bar sig. 

Svo, án nokkurs fyrirvara, laust hugsun niður í hausinn á mér, eins og ég hafi verið sleginn í höfuðið. Hugsunin er eflaust fordómafull í augum margra og ég gengst alveg við því. En ég hugsaði: Öllu þessu fólki er algjörlega drullusama um að skotið hafi verið á bíl Dags B. Eggertssonar borgarstjóra fyrir skemmstu.

Mér er hins vegar ekki drullusama. Þvert á móti finnst mér hræðilegt að það hafi gerst. En ég er sannfærður um að þessu fólki hafi verið drullusama. Og þá meina ég ekki að því fyndist almennt ekki alvarlegt að fólk verði fyrir skotárásum, öllum hlýtur að finnast það alvarlegt. Ég á frekar við að þetta fólk hafi bara um allt annað að hugsa en að skotið hafi verið á bíl Dags B.

***

Það eru ekki allir sem taka þátt í þjóðfélagsumræðunni og enn færri taka þátt í þjóðfélagsumræðunni um þjóðfélagsumræðuna. En öll búum við í umræddu þjóðfélagi og það er mikilvægt að muna eftir þeim sem sitja bara þöglir hjá. 

Því það eru þeir sem hafa ekki tíma, forsendur eða getu til þess að láta sig það varða hvernig talað er um pólitík, hvernig talað er um frumvörp, einstaka stjórnmálamenn, stofnanir, fréttir og viðtöl. Þeir tilheyra hópnum sem svo margir, ef ekki flestir, hafa gleymt. Það sem gerist þegar þessi hópur gleymist er að það verður til hópur fólks sem enginn telur sig hafa hagsmuni af að ná til. Smám saman verður þessi hópur fólks jaðarsettari og jaðarsettari, allt þar til að enginn talar til þeirra nema stjórnmálamenn og fjölmiðlafólk sem er á jaðri hins pólitíska áss. Yfirveguð umræða nær ekki til þeirra og því grípur fólk til óyfirvegaðrar umræðu, jaðarskoðana og popúlisma. 

Margir keppast nú við að fordæma fyrrgreinda skotárás á bíl borgarstjóra og segja að nú sé mælirinn fullur. Svona megi ekki líðast í frjálsu, lýðræðislegu og siðuðu samfélagi og nú verði sko blásið í herlúðra í stríðinu gegn jaðarskoðunum og persónuárásum. Það dugir þó ekki, að mínu mati. Jaðarskoðanir, skotárásir, falsfréttir og popúlismi eru ekki sjúkdómurinn heldur einkenni hans. Sjúkdómurinn er jaðarsetningin sjálf. 

Það gengur því ekki að fordæma fólk, gjörðir og jafnvel skotárásir á vettvangi þess sem telst langt í burtu frá ógnvænlega jaðrinum af því þú munt aldrei, aldrei, ná til neinna nema þeirra sem nú þegar eru sammála þér. 

Til þess að útrýma jaðarskoðunum úr þjóðfélagsumræðu þá þarftu fyrst af öllu að passa að það sé ekki til neinn jaðar fyrir tækifærissinnaða pólitíkusa að sækja sér fylgi. Án jaðars eru engar jaðarskoðanir.

Latest posts by Oddur Þórðarson (see all)

Oddur Þórðarson skrifar

Oddur hóf að skrifa á Deigluna í maí 2020.