Beggja vegna borðsins

„Guðfinnur minn, stundum er bara erfitt að vera manneskja,“ sagði djúpvitur vinkona mín eitt sinn. Og það er alveg rétt, þetta er í senn flóknasta og erfiðasta verkefni sem við tökumst á hendur. Eins og öllum sem hafa snefil af réttlætiskennd varð mér mjög illt í mennskunni þegar ég horfði á myndbandið þar sem lögreglumennirnir í Minneapolis myrtu blökkumanninn George Floyd fyrir allra augum án þess að blikna. Að baki þessu illvirki býr löng saga kúgunar og misréttis í Bandaríkjunum, þar sem lögreglan hefur oft ekki staðið undir kjörorðum sínum að þjóna og vernda. 

Mótmælin sem fylgja í kjölfarið og sú réttmæta reiði- og hneykslunaralda sem skekur víða veröld er bæði réttlætanleg og skiljanleg. Síðustu daga hafa fordómar orðið mér á ný hugleiknir. Fordómarnir búa nefnilega innra með okkur öllum í mismunandi myndum, svona eins og óþolandi boðflenna sem skýtur upp kollinum þegar síst skyldi. Jafnvel frjálslyndasta fólk hefur einhverja fordóma og ég held það sé einfaldlega ekki hægt að fara í gegnum lífið án þess að verða fyrir einhverjum menningaráhrifum sem leiða til fordóma. Fordómar eru breyskleiki og að vera breyskur er hluti af því að vera maður. 

Fyrir nokkrum árum var ég staddur í Smáralind með foreldrum mínum og með okkur í för var bróðurdóttir mín, þá líklega 4 ára. Hún var nýkomin úr leiktæki þegar gömul vinkona mín frá Akureyri kemur aðvífandi og heilsar. Eitt andartak fór athygli okkar af barninu og það dugði til þess að hún hvarf sporlaust. Það vita þau sem hafa reynt hvers konar hugaræsingur rennur á mann þegar leitað er að smábarni í verslunarmiðstöð sem er full af ókunnugu fólki og rúllustigar og alls kyns hættur á hverju horni.  Eftir því sem leið á tímann sem barnið var týnt urðu hugsanir mínar sífellt órökréttari. Ég ákvað að kíkja út fyrir og þegar ég sá hvítan sendibíl keyra út af bílaplaninu hvarflaði mannrán að mér. Þá mundi ég eftir þremur mönnum af slavneskum uppruna sem gengu fram hjá okkur í þann mund sem telpan hvarf og já, myrk hugsunin sem byggir á óteljandi sjónvarpsþáttum og lesnum glæpasögum varð til. Þeir tóku hana!

Auðvitað kom svo í ljós að barnið hafði farið inn á Pizza Hut þar sem hún vissi af leikhorni og þar undi hún sér sæl og glöð meðan við fullorðna fólkið æddum um alla ganga vitstola af hræðslu. Það er svo freistandi að segja ekki þessa sögu en með því að gera það vil ég hreinsa mig af þessu. Fordómar eru svo nátengdir innri ótta hvers manns að það er einmitt við þær aðstæður sem þeir spretta fram. Stundum getur það verið hættulegt og þess vegna held ég að það sé mikilvægt að ávarpa tilfinninguna beint. 

Erfiðast við að ávarpa eigin fordóma er að ég hef orðið fyrir þeim sjálfur. Ekki misskilja, ég er hvorki fórnarlamb né píslarvottur. Ég lít á mig almennt sem algjöran forréttindapésa, nokkurs konar prins án konungsríkis. Ég er örugglega haldinn forréttindablindu eins og meginþorri landsmanna og öll mín svokölluðu vandamál eru lúxus í minnsta samanburði við örbirgð heimsins. En þrátt fyrir að vera hvítur bráðum miðaldra kall í vestrænu velferðarríki þá er ég samkynhneigður hvítur bráðum miðaldra kall í vestrænu velferðarríki.

Ég hef sem slíkur setið í brúðkaupum vina minna og ekki mátt lögum samkvæmt gifta mig sjálfur, ég hef hlustað á þjóðfélagsumræðu um „svona fólk“ og margsinnis heyrt og lesið opinberlega að samkynhneigðir karlar séu næsti bær við barnaníðinga, svo fátt eitt sé nefnt. Síðasta sumar var ég á Spáni þegar íslensk vel meinandi en bláókunnug kona gefur sig á tal við mig til lýsa því yfir að hún hefði ekkert á móti hommum. Þetta var álíka gagnlegt eins og ef ég hefði lagt blessun mína yfir að hún væri frá Ólafsfirði. Og maður setur undir sig hausinn því enginn vill vera fórnarlamb. Enginn vill vera minnihluti. Minnipokamaður. Svo maður bara brosir og þakkar fyrir. 

Fyrir tveimur árum kom ég fyrst í Castro-hverfið í San Fransisco þar sem samfélagsbylting samkynhneigðs fólks hófst á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar undir forystu Harvey Milk. Eiginmaður minn og ég fórum á veitingastað í hverfinu, þetta var um kvöld og staðurinn smekkfullur af fólki. Eftir dálitla stund átta ég mig á því að við hvert einasta borð sat karl á móti karli, kona á móti konu og myndarlegir þjónarnir leyfðu sér að daðra góðlátlega við okkur en ekki vinkonur okkar, eins og hér heima. Það voru sem sagt allir samkynhneigðir inni á þessum veitingastað, allt á yfirborðinu eins en samt í grundvallaratriðum gjörólíkt. Þarna inni höfðu allir sömu þjóðfélagsstöðu.

Ég táraðist og fann fyrir svakalega sterkri tilfinningu sem ég hafði aldrei upplifað áður. Að tilheyra að öllu leyti. Það var eins og ósýnilegri byrði væri í fyrsta sinn lyft af öxlum mínum. Ég held að þessi tilfinning hafi verið fullkomið og skilyrðislaust frelsi.

Þrátt fyrir að það sé gott að eiga stað með þeim sem maður tilheyrir án skilyrða þá væri einsleitt og leiðinlegt að dvelja þar til lengdar. Eins og sigling á marflötu vatni. Við verðum að lifa hvort með öðru þrátt fyrir allt sem greinir okkur að. Þótt það hafi verið dásamlegt að upplifa frelsið í Castro þá veit ég um nokkuð enn betra. Frelsi undan eigin oki og ótta. Það er frelsið sem opnar gáttina fyrir allt það besta og kraftmesta sem mennskan býr yfir. 

Já, það er rétt sem vinkona mín sagði. Það er vissulega stundum erfitt að vera manneskja en miklu oftar er það alveg stórkostlegt.

Latest posts by Guðfinnur Sigurvinsson (see all)

Guðfinnur Sigurvinsson skrifar

Guðfinnur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.