Að græða á umhverfinu

Nú þegar kreppir að eru mikil sóknartækifæri í umhverfismálum fyrir Íslendinga. Stjórnvöld hafa vaknað til lífsins og horfa í auknum mæli til verðmætasköpunar á grundvelli nýsköpunar.

Umhverfisvandamál voru orðin fyrirferðarmikil undir lok Sovétríkjanna. Sósíalistar eða kommúnistar voru enda engir umhverfisverndarsinnar, enda hefði slíkt ekki samrýmst efnahagsmarkmiðum ríkisins. Síðan vinstrið tók að setja þessi mál á oddinn hefur stefna þeirra einkennst af þvingunum, boðum og bönnum, þekktu stefi í málflutningi vinstri manna. 

Íslendingar eru að mörgu leyti í fremstu röð þegar kemur að umhverfismálum, m.a. vegna hlutfalls endurnýjanlegra orku. Þar hefur Ísland mikla sérstöðu. Framlag Íslands til umhverfis- og loftslagsmála er mikils virði vegna þeirrar sérþekkingar sem við búum yfir. Það hefur sýnt sig og sannað. Íslenskir sérfræðingar tóku þátt í uppbyggingu hitaveitu í Kína sem lækkar útblástur koltvísýrings álíka mikið og sem nemur árlegum útblæstri frá Íslandi í heild sinni. Íslenskir sérfræðingar hafa sömuleiðis látið mikið að sér kveða í jarðhitamálum í Austur-Afríku. 

Auk loftslagsmála og endurnýjanlegrar orku, leggur Ísland áherslu á málefni hafsins í núverandi formennsku okkar í Norðurskautsráðinu. Við höfum náð miklum árangri í sjálfbærri nýtingu á auðlindum hafsins og virði þekkingarmiðlunar okkar á því sviði er óumdeilt. Það eru mikil tækifæri fólgin í bláa lífhagkerfinu. 

Nú þegar kreppir að eru mikil sóknartækifæri í umhverfismálum fyrir Íslendinga. Stjórnvöld hafa vaknað til lífsins og horfa í auknum mæli til verðmætasköpunar á grundvelli nýsköpunar. En það er fleira sem þarf að koma til. 

Loftslagsbreytingar af mannavöldum er vandamál sem verður að takast á við og þekking og framlag Íslands skiptir máli. Hugmyndafræði vinstrimanna hefur ekki skilað tilætluðum árangri enda er aðkoma atvinnulífsins lykilþáttur í að takst á við vandann. Hann verður einfaldlega ekki leystur nema með því að nýta krafta og kosti einkaframtaksins. Það má líka vera hagnaðarvon fólgin í því að taka afstöðu með umhverfinu. 

Latest posts by Diljá Mist Einarsdóttir (see all)

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Diljá hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2006.