Keppnisíþróttir og íþróttasýningar

Í mínum huga var mun minna sem aðskildi Hlyn Stefánsson og Diego Maradona heldur en aðskildi sjálfan mig og Hlyn Stefánsson. Ég gat auðveldlega séð Hlyn Stefánsson fyrir mér spila með Napólí en áttaði mig fljótlega á því að möguleikar mínir á því að spila meistaraflokksleik með ÍBV væru mjög takmarkaðir.

Eins og margir ungir drengir þá sótti ég flestar af fyrirmyndum í æsku minni í heim íþróttanna. Þær voru ýmsar hetjur sem ég vildi líkjast. Sumar þeirra voru alþjóðlegar stjörnur; nöfn sem voru á vörum fólks um heim allan—eins og Diego Maradona og Magic Johnson. Aðrir stóðu ögn nær í tíma og rúmi en voru í alveg jafnmiklu uppáhaldi. Það voru íslenskir íþróttamenn á borð við Ásgeir Sigurvinsson, Pétur Ormslev, Guðmund Guðmudsson, Kristján Arason og Einar Vilhjálmsson. Þótt hátindar á ferlum þessara íþróttamanna væru mismunandi háir þá virkuðu þeir allir yfirgnæfandi í mínum augum þegar ég ólst upp. Mest af öllu dýrkaði maður þó leikmenn ÍBV í handbolta og fótbolta—menn á borð við Sigurlás heitinn Þorleifsson, Hlyn Stefánsson, Jón Braga Arnarsson og hornamanninn knáa Björgvin Rúnarsson sem virtist í mínum augum vera í heimsklassa.

Í mínum huga var mun minna sem aðskildi Hlyn Stefánsson og Diego Maradona heldur en aðskildi sjálfan mig og Hlyn Stefánsson. Ég gat auðveldlega séð Hlyn Stefánsson fyrir mér spila með Napólí en áttaði mig fljótlega á því að möguleikar mínir á því að spila meistaraflokksleik með ÍBV væru mjög takmarkaðir. Það var heldur ekkert sem benti til þess að leið mín ætti eftir að liggja inn í meistaraflokk ÍBV þegar ég byrjaði fyrst að hugleiða að leggja takkaskóna á hilluna í fjórða flokki. Þá átti ég samtal við þjálfarann og sagðist vera að íhuga að hætta þar sem öllum mætti ljóst vera að þetta væri ekki að fara að skila miklum árangri hjá mér—ég yrði aldrei efni í meistaraflokksleikmann. Snorri Rútsson sá frábæri þjálfari og fyrirmynd horfði á mig stutta stund og sagði svo með yfirvegun og ískaldri sannfæringu að ég hefði bara ekki hugmynd um það hvort ég ætti eftir að spila í meistaraflokki.

Aldrei voru mælt við mig jafn hvetjandi orð á íþróttaferlinum. Ég gat ekki varist því að brosa og um hríð fylltist ég umtalsverðum eldmóði. Auðvitað vissi ég að þjálfarinn valdi orð sín til þess að hvetja mig; hann var ekki svo veruleikafirrtur í raun að halda að ég væri efni í almennilegan knattspyrnumann. Það sem skorti í líkamlegum burðum undirstrikaði ég svo með því að hafa einkar lélega boltameðferð og spyrnutækni. Það eina sem ég hafði í raun fram að færa var að ég var óvenjulega sprettharður og gat því stundum elt upp menn sem sóluðum mig upp úr skónum áður en þeir komust í skotfæri. En ég ákvað að taka þessu vel.

Miklu seinna áttaði ég mig auðvitað á því að þjálfarinn hafði algjörlega rétt fyrir sér. Ég gat engan veginn vitað það 12 eða 13 ára gamall hvort ég væri efni í meistaraflokksleikmann í knattspyrnu. Ef ég hefði haldið áfram að æfa, og æft meira og betur en aðrir, þá er ekki óhugsandi að ég hefði getað hangið inni í leikmannahópi í meistaraflokki. Það hefði kostað mikla vinnu, en það sem ég fattaði ekki á þeim tíma var að árangur allra alvöru íþróttamanna; sama hversu auðveldlega þeir létu allt líta út, var afrakstur mikils erfiðis. Þetta gilti ekki bara um Sigmar Þröst Óskarsson, sem var frægur fyrir vinnuhörku og aga, heldur líka um Platini, van Basten og meira að segja náttúruundrið Diego Maradona, sem beitti sig hörðu þegar á þurfti að halda. Eins og virðist gilda um flesta heimklassa íþróttamenn var hann í raun ekki drifinn áfram af því sem kalla má sigurvilja; heldur miklu frekar yfirþyrmandi ótta við ósigur og niðurlægingu.

Ástríðan í knattspyrnunnin er drifin áfram af óttanum við að tapa og missa sæti sitt ekki síður en voninni um að vinna sigur. Hugmyndin um ofurdeild Evrópu, upp á ameríska vísu, hefður ekki passað vel við hugarfar míns gamla þjálfara. Íþróttir hafa nefnilega þann sess í hugum okkar að þar geti allt gerst því allir keppi á jafnréttisgrunni. Ellefu menn mæta ellefu mönnum á fótboltavellinum. Lið og leikmenn bæta sig, stríðsgæfan rís og hnígur. Stórveldi verða til. Leikmenn sem geta lítið í fjórða flokki geta tekið framförum og orðið góðir á nokkrum árum.

Í alvöru íþróttum er aldrei að vita hvað gerist. Þar kaupir enginn sig framfyrir annan í röðinni. Þegar fjármálamenn ákveða að reisa girðingar gegn heiðarlegri samkeppni, eins tilhneigingin er víða, þá er varla lengur hægt að tala um keppnisíþróttir, heldur miklu frekar nokkurs konar vel uppsetta íþróttasýningu.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.