Rammagerðin

Jæja, mánudagur í dag. Veðrið er alltaf til umræðu, hvernig sem það er. Það er farið að dimma, haustið er komið, börnin farin í skólana, sumarfríið búið og fólk að detta aftur í rútínuna. Þangað til blessuð jólin koma. Svo er ýmislegt í fréttum.

Jæja, mánudagur í dag. Veðrið er alltaf til umræðu, hvernig sem það er. Það er farið að dimma, haustið er komið, börnin farin í skólana, sumarfríið búið og fólk að detta aftur í rútínuna. Þangað til blessuð jólin koma.

Svo er ýmislegt í fréttum. Eldgosið í Holuhrauni heldur áfram, stríð geysa í heiminum, fjölmiðlar skipta um hendur, margir bíða spenntir eftir nýjum iphone, IKEA bæklingurinn er nýkominn í hús og alltaf eru einhverjir frægir á fremsta bekk eða kátar í kampavínsboði.

Rútínan og ramminn. Samfélagið miðar að því frá byrjun að hafa allt í góðri rútínu. Það er svo gott fyrir börn að hafa rútínu, það er svo gott að komast aftur í rútínuna. Er þetta alltaf satt eða er bara þægilegra fyrir kerfið að hafa okkur í rútínunni og rammanum? Ég er með logandi samviskubit alla daga vegna allra þeirra hluta sem gera það að verkum að ég passa ekki inn í rammann. Mér finnst ekki gott að vakna snemma, mér finnst gott að vinna seint á kvöldin, mig langar ekki að vinna frá átta til fimm og eiga frítíma eftir það, mig langar ekki í mitt árlega 6 vikna sumarfrí fyrir sjálfa mig og mig langar ekki að eiga vísitölufjölskyldu í Grafarvogi. En af hverju á ég að vera með samviskubit yfir öllum þessum hlutum? Auðvitað á ég ekki að gera það og það er eitthvað sem ég er endalaust að vinna í en það er ótrúlega erfitt að breyta því sem er búið að innprenta í mann frá unga aldri.

Við erum öll mismunandi og við fúnkerum mismunandi. Það eiga allir rétt á sér. Maðurinn sem eyðir öllum sínum frítíma í tölvuleiki. Fólkið sem veit ekkert skemmtilegra en að eyða öllum sínum frítíma í kringlunni, fólkið sem vill búa í miðbænum, fólkið sem vill búa í úthverfum, fólkið sem vill komast leiðar sinnar án bíls, fólkið sem vill komast leiðar sinnar á bíl og fólkið sem vill komast í sund í Sundhöll Reykjavíkur eftir kl. 16 á LAUGARdögum.

Það er ekkert vit í að vera myndlistarmaður var sagt við einn félaga minn þegar hann var ungur að árum og fór í áhugasviðspróf. Áhugasviðsprófið benti á myndlist en það var ekki nógu praktískt. Skapandi greinar eiga oft undir högg að sækja því þar er oft fólk sem ekki passar inn í kassann. Sköpun getur auðvitað átt sér stað innan rammans en skapandi fólk er oft fólkið sem teygir rammann eða brýst út úr honum þrátt fyrir andstöðu samfélagsins. Samfélagið ætti að vera í stakk búið að ýta ekki alltaf undir rammagerðina heldur taka þeim einnig fagnandi sem hugsa út fyrir boxið.

Þessi grein er skrifuð á mínum tíma um eitt eftir miðnættið og geta því næturhrafnar bæði notið hennar strax og einnig þeir sem eru nýmættir í vinnuna á mánudagsmorgni, komnir með rjúkandi kaffibollann og eru að taka netrúntinn í morgunsárið.

Góðar stundir.

Latest posts by Erla Margrét Gunnarsdóttir (see all)