Endanleg uppgjöf fyrir náttúruöflunum?

Við Íslendingar virkjum beljandi jökulsár og varma úr iðrum jarðar til rafmagnsframleiðslu, berjumst við öldurnar úti á ballarhafi til að ná okkur í fisk í soðið og þeytumst með túrista upp á miðjan Vatnajökul til að afla gjaldeyris. En en að reka sómasamlegan gosbrunn á tjörninni? Það virðist okkur algerlega ofviða.

Stóri gamli gosbrunnurinn

Fyrir rétt tæpu ári síðan hófst sagan um litla nýja gosbrunninn sem hafði fengið nýtt heimili á tjörninni. Litli nýi gosbrunnurinn hafði komið í staðinn fyrir gamla stóra gosbrunninn enda átti hann að vera miklu minni, nýrri og betri. Litli nýi gosbrunnurinn var þeim kostum búinn að hægt var að fjarstýra honum með hjálp GSM síma.

Til viðbótar við hátæknina átti litli nýi gosbrunnurinn að skvetta minna vatni yfir gangandi vegfarendur í roki. Ástæðan var auðvitað sú að hann var svo lítill. En því miður voru droparnir úr litla nýja gosbrunninum líka mjög litlir, svo vindurinn greip þá og feykti út um alla borg, ekki síður en dropunum úr gamla stóra gosbrunninum. Haustið leið og beið, og á endanum þurfti að taka litla nýja gosbrunninn upp úr tjörninni, því ólíkt stóra gamla gosbrunninum var litli nýi gosbrunnurinn gerður úr plasti og þoldi því ekki frost.

Ástandið í dag

Svo leið og beið og litli nýi gosbrunnurinn var farinn að hlakka til að komast út. En þegar voraði komst hann að því að hann var ekki nógu lítill. Borgarstarfsmennirnir vildu ekki leyfa honum að komast út í sólina að skvetta tjarnarvatni yfir borgarbúa.

Í stað þess var þriðji gosbrunnurinn settur í tjörnina. Þessi gosbrunnur var enn nýrri og enn minni en sá síðasti. Stóri bróðir hans, sem var garðslanga í Hlíðahverfinu, lagði honum lífsreglurnar og varaði hann við því að láta sér detta í hug að sprauta vatni á Reykvíkinga, svo hann ákvað að láta mjög lítið fyrir sér fara. Sérstaklega passaði hann sig á því að hann skyldi aldrei bera við himininn, svo fólk héldi ekki að hann væri einhver montrass. Hann bara frussaði smábunu örfáa metra upp í loftið.

Hvað gerðist svo er engin leið að segja. Raunasögu tjarnargosbrunnanna virðist ekki lokið, því þótt minnsti og nýjasti gosbrunnurinn hafi lagt sig allan fram skvettist þó pínulítið vatn á pistlahöfund þegar hann tók meðfylgjandi mynd. Hvað framtíðin ber í skauti sér verður bara að koma í ljós.

En hvernig sem þessi litla saga endar er athyglisvert að hugsa til þess að við Íslendingar virkjum beljandi jökulsár og varma úr iðrum jarðar til rafmagnsframleiðslu, berjumst við öldurnar úti á ballarhafi til að ná okkur í fisk í soðið og þeytumst með túrista upp á miðjan Vatnajökul til að afla gjaldeyris. Sómasamlegur gosbrunnur á tjörninni okkar fallegu virðist engu að síður vera okkur algerlega ofviða.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)