Frami án hjálpardekkja

Undanfarnar vikur hefur mikið verið rætt um hlut kvenna í stjórnum fyrirtækja og lagasetningu því tengdu. Greinarhöfundur er löngu orðinn þreyttur á umræðu og orðræðu vinstrisinnaðra feminista um jafnréttisbaráttuna, sem að mati höfundar hefur einkennst af neikvæðni síðastliðin misseri og háværri kröfu um jákvæða mismunun konum í vil. Það var því gleðiefni að sjá forsíðu tímartisins Frjálsrar verslunar (FV) nú um helgina þar sem yfirskrift blaðsins var „80 áhrifamestu í atvinnulífinu“ og er þá vísað til áhrifakvenna í atvinnulífinu.

Undanfarnar vikur hefur mikið verið rætt um hlut kvenna í stjórnum fyrirtækja og lagasetningu því tengdu. Greinarhöfundur er löngu orðinn þreyttur á umræðu og orðræðu vinstrisinnaðra feminista um jafnréttisbaráttuna, sem að mati höfundar hefur einkennst af neikvæðni síðastliðin misseri og háværri kröfu um jákvæða mismunun konum í vil. Það var því gleðiefni að sjá forsíðu tímartisins Frjálsrar verslunar (FV) nú um helgina þar sem yfirskrift blaðsins var „80 áhrifamestu í atvinnulífinu“ og er þá vísað til áhrifakvenna í atvinnulífinu.

Ég vil geta litið á mig sem feminista þ.e. í þeim skilningi að ég vil jafnrétti fyrir konur jafnt sem karla. Í ár fannst mér hins vegar erfitt að ganga um í bleikum bol á kvennadaginn, því sá skilningur á feministum sem mér finnst vera almennur í þjóðfélaginu er ekki eitthvað sem ég get samsamað mér við, nema að hluta til.

Er ekki kominn tími til að horfa til þess sem vel hefur tekist?
Mín skoðun er sú að það megi komast nokkuð langt á jákvæðninni – fólk þreytist frekar á að hlusta á neikvæðni. Af hverju tökum við ekki umfjöllun Frjálsrar verslunar til fyrirmyndar og horfum til þeirra kvenna sem náð hafa árangri í viðskiptalífinu? Í stað þess að horfa ávallt til þess sem ekki er til staðar og þess árangurs sem ekki hefur náðst. Þessar kraftmiklu konur hafa sannað að múrar á milli kynjanna eru ekki lengur til staðar í viðskiptalífinu. Þó að fullkomið jafnrétti á þessum vettvangi sé ekki í höfn þá erum við að þokast í áttina. Vegurinn hefur verið ruddur og nú er bara að þramma í gegn.

Í úttekt Frjálsrar verslunar sem framkvæmd var nú þriðja árið í röð kemur fram að áhrifakonum í atvinnulífinu hefur fjölgað úr 70 í 80 milli ára. Jafnframt hefur konum sem eru forstjórar í stærstu fyrirtækjum landsins fjölgað úr 22 í 25. Hins vegar hefur hlutfall kvenna í stjórnum 206 stærstu fyrirtækjanna af 300 stærstu listanum fækkað milli ára eða úr 13,8% í 10,8%. Einnig var gerð úttekt hlutfalli kvenna í framkvæmdastjórastöðum en það reyndist vera 16%. (Frjáls verslun 5.tbl. 2006)

Þrátt fyrir að þessar tölur séu ekki háar og mörgum finnist þær endurspegla ósanngjarna meðferð sem konur þurfa að þola í viðskiptalífinu þá er ekki öll von úti enn. Það er sægur af hæfileikaríkum konum sem eru tilbúnar til þess að taka að sér ábyrgðarstöður í atvinnulífinu og er úttekt FV skýrt dæmi um það. Þessar konur eru hvatning og fordæmi fyrir okkur hinar og sanna að við þurfum ekki að eiga starfsframa okkar undir lögum kominn. Konur eru fullfærar um að koma sér sjálfar á framfæri. Það er okkar að styðja hver aðra til afreka og þá eru okkur eru allir vegir færir.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.