Samfylking2003*(-1) = Samfylking2007

Ef marka má viðtal við formann Samfylkingarinnar í Morgunblaðinu um helgina standa líkur til þess að stefnuskrá flokksins frá 2003 verði margfölduð með mínus einum fyrir næstu kosningar. Hugmyndir sem flokkurinn barðist gegn verði á stefnuskránni 2007 en mál sem helst var barist fyrir verði geymdar í frystikistunni.

„Ég er í sjálfu sér ekki að tala um að fyrirtæki borgi fyrir kvótann…Ef fyrirtækin geta svo dregið úr útblástursmenguninni, þá ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu a ðþau geti búið sér til einhver verðmæti úr þeim kvóta sem losnar.\“

Nýjustu skoðanakannir staðfesta að niðurstaða í síðustu sveitarstjórnarkosningum gaf góða mynd af þeim stuðningi sem Samfylkingin hefur í landinu – hvort sem er til þings eða bæjarstjórna. Suðningurinn fer hratt minnkandi og ljóst að draumurinn um að flokkurinn yrði „annar póll“ í íslenskum stjórnmálum er langt frá því að rætast. Forystumenn Samfylkarinnar hafa hingað til gripið til þeirrar skýringar þegar illa gengur að Samfylkingin sé mjög ungur flokkur og ómótaður og þess vegna sé aldrei að marka neitt nema góðar fréttir. Svona lífsviðhorf er örugglega mjög þægilegt – en sennilegra er að Samfylkingin sé smám saman að taka út refsingu fyrir að leggja meiri áherslu á það að forðast óvinsældir heldur en að öðlast vinsældir.

Stefna flokksins er öllum helstu málum er flestum hulin ráðgáta en í staðinn fyrir að afla fylgis vegna stefnumála hafa forystumenn flokksins lagt sig í framkróka við að fá kjósendur til að trúa því að Samfylkingin sé nútímaleg, lýðræðisleg og málefnaleg. En smám saman hafa kjósendur hætt að fyrirgefa bernskubrekin – enda vita þeir að nútímaleg, lýðræðisleg og málefnaleg er ekki lýsing á stjórnmálastefnu. En það er einmitt þetta sem Samfylkingin hefur borið á borð fyrir Íslendinga á síðustu misserum – að Samfylkingin sé nútímalegur, lýðræðislegur og málefnalegur. Og meiningin er líklega að kjósendur gagnálykti sem svo að hinir flokkarnir séu fornaldarlegir, ólýðræðislegir og byggi mál sitt á eintómum sleggjudómum og rökleysu.

Nokkrar af ástæðunum fyrir stöðu Samfylkingarinnar komu fram í viðtali við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í Morgunblaðinu um helgina. Í viðtalinu fékk formaðurinn tækifæri til að svara nokkrum penum og kurteisislegum spurningum blaðamanns – svo sem eins og hvort ríkisstjórnin hafi „leitað í smiðju Samfylkingarinnar með viðbrögðum sínum“ við þenslu í hagkerfinu. En það mun einmitt vera raunin – að minnsta kosti ef mark er takandi á formanni Samfylkingarinnar.

Þá lýsti Ingibjörg Sólrún þeirri skoðun sinni að ríkisstjórnina skorti framtíðarsýn, að stærsta verkefni „ríkisstjórnar jafnaðarsinna“ væri uppbygging á hjúkrunarþjónustu auk þes sem hún þorði ekki að segja til um hversu langan tíma það tæki að „snúa þeirri þróun við“ sem átt hafi sér stað á síðustu árum í velferðarmálum. En samkvæmt Ingibjörgu hafa helstu þættir í velferðarkerfinu verið „molaðir niður af núverandi ríkisstjórn“. Þá lýsti hún því að taka þyrfti tillit til mengunarkvóta við ákvarðanir um frekari stóriðju. Þegar blaðamaður spyr hvort hún telji að fyrirtæki eigi að borga fyrir mengunarkvóta neitar Ingibjörg því en leggur til að fyrirtæki „keppi á jafnréttisgrundvelli um hvert þeirra fær hann.“ Þetta hlýtur öllum að finnast fyndið sem muna eftir því að einu sinni var Samfylkingin alveg brjáluð yfir „gjafakvótanum“ í sjávarútvegi.

En það voru líka fréttir í viðtalinu. Til dæmis segir formaður Samfylkingarinnar: „Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að ganga í Evrópusambandið. Ég er einnig þeirrar skoðunar að við eigum, í fyllingu tímans, að taka upp evruna. En ekki núna, við erum ekki í stakk búin til þess, og það væri varhugavert á þessum tímapunkti að gera það.“

Er Ingibjörg Sólrún að boða með þessu að í næstu kosningum verði ekki lögð áherslu á að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu? Eða á þessi fyrirvari eingöngu við um aðild Íslands að myntsamstarfinu? Hvor orðskýringin sem er ætti að teljast nokkur tíðindi, að minnsta kosti meiri tíðindi en þau sem slegið er upp á baksíðu – að það sé sameiginlegt verkefni á Íslandi að brjótast út úr átakahefð. (Getur verið að þessi fréttapunktur hafi verið valinn vegna samhljóms við nýlegar áherslur Morgunblaðsins í ritstjórnargreinum frekar en sjálfstæðs fréttagildis?)

Ef Ingibjörg er að undirbúa það að setja Evrópusambandsaðild á ís í næstu kosningum hljóta það að teljast mjög merkileg tíðindi. Ef Ingibjörg er hins vegar að boða að hún vilji að Ísland gangi í Evrópusambandið en taki ekki upp evrunna hlýtur það að valda mörgum vonbrigðum. Því þeir eru fjölmargir sem telja aðild að evrunni langstærsta kostinn við Evrópusambandsaðild.

Ætli það sé planið núna – að Samfylkingin haldi inn í næstu kosningar með það á stefnuskránni að ganga ekki strax í Evrópusambandið og veita heimildir til nýtingar takmarkaðrar auðlindar án endurgjalds? Eða var það einhver annar flokkur?

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.