Um mál sem varða þjóðaröryggi

Undanfarið hefur nokkuð verið rætt um stofnun Þjóðaröryggisdeildar Ríkislögreglustjóra, sér í lagi um valdheimildir og umsvif deildarinnar, og sýnist þá sitt hverjum. Pistlahöfundur hefur þónokkrar áhyggjur af málinu, og þá sérstaklega af því hvað þessi nýja deild á að heita.

Eitt sinn skáti, ávallt skáti

Undanfarið hefur nokkuð verið rætt um stofnun Þjóðaröryggisdeildar Ríkislögreglustjóra, sér í lagi um valdheimildir og umsvif deildarinnar, og sýnist þá sitt hverjum. Sjálfur hef ég þónokkrar áhyggjur af málinu, og þá sérstaklega af því hvað þessi nýja deild á að heita.

Ýmsir hafa lagt upp með bandaríska módelið, sem sagt þriggja stafa skammstafanir (CIA, FBI, NSA, NCS, DHS, DOD … FYI) og kosið að ræða um ÞÖD (ÞjóðarÖryggisDeild). Það um margt ágætt, en ég veit samt ekki alveg með þetta Ö. „ÞÖD“ er bara eitthvað svo þullalegt. ÞDR (ÞjóðaröryggisDeild Ríkislögreglustjóra) hljómar betur, en bindur deildina kannski um of við embætti Ríkislögreglustjóra, sérstaklega ef meiningin er að stækka hana og styrkja. ÞDL (ÞjóðaröryggisDeild Lögreglunnar), býður upp á aðeins meira svigrúm, en samt …

SIÖ (Svið Innlendra Öryggismála) hefur þann ótvíræða kost að ef hlutverk deildarinnar yrði útvíkkað og henni breytt í stofnun (sem hlýtur að vera markmið allra sannra þjóðaröryggisuxa, og við skulum ekki gleyma að „you’re either with us or against us“), þá er alger óþarfi að breyta skammstöfuninni, þar sem hún stendur þá einfaldlega fyrir Stofnun Innlendra Öryggismála. Að auki losnum við þá við að skammstafa „innan úr orðum“, sem er alltaf lýti.

En svo er auðvitað hægt að kúvenda og horfa þá til evrópska módelsins, sem gengur út á að splæsa saman völdum hlutum af nafninu í nýyrði sem hægt er að bera fram í heild sinni, í stað þess að þurfa að hljóða hvern staf (INTERPOL, STASI, GESTAPO, UNIFEM, SÄPO, …). Ef við leggjum út af fullu nafni deildarinnar eins og það birtist á fréttavef RÚV, „Þjóðaröryggisdeild UNDIR embætti Ríkislögreglustjóra“, þá hlýtur að vera morgunljóst hvaða nafn verður fyrir valinu. ÞUNDIR er þægilegt í framburði og á alþjóðavettvangi gætu fulltrúar deildarinnar notað enskun á orðinu, og kynnt sig sem „an agent of Thunder“. Með tilliti til þess að eitt af markmiðum deildarinnar er að gera Íslendinga gjaldgenga meðal annarra njósnastofnana ætti þetta að vera mikill kostur, enda hljóta menn að hugsa sig um tvisvar áður en þeir fara eitthvað að rugla í „an agent of Thunder“.

Eins væri auðvitað hægt að leggja út af öðrum nöfnun, og óþarfi að binda sig við orðið „þjóðaröryggi“, þótt vissulega hljómi það dáldið grand. Sænska njósnaþjónustan heitir til dæmis SÄPO, sem stendur fyrir SÄkerhetsPOlisen. Ef við fylgdum þessu módeli gæti stofnunin heitið ÖRLÖG, sem stæði augljóslega fyrir ÖRyggisLÖGreglan. Orðatiltækið „á valdi örlaganna“ fengi þar með nýja og bráðskemmtilega merkingu.

Að gamni slepptu þá verður að viðurkennast að tilteknir hlutar málsins virðast ekki algerlega út úr kortinu. Það sem hlýtur hins vegar að setja hik á menn er aðdragandi málsins og hvernig þetta virðist – séð utan frá að minnsta kosti – vera ansi persónubundið. Maður hefur á tilfinningunni að ef tilteknir menn sætu í utanríkisráðuneytinu værum við að stofna her, en af því að þessir sömu menn sitja í dómsmálaráðuneytinu þá séum við að stofna leyniþjónustu.

Það er þess vegna spurning hvort rétt stefna í málinu sé ekki sú að stofna deild innan embættis Ríkislögreglustjóra sem hefur það eina markmið að eiga samstarf við erlendar leyniþjónustur, en að taka samhliða því ákvörðunum að slá öllum hugmyndum um óhefðbundnar hleranir og annað eftirlit með Íslendingum á frest í nokkur ár, og að minnsta kosti fram yfir kosningar, svo að slíkar hugmyndir njóti þess að minnsta kosti að þær séu grandskoðaðar af tveimur mismunandi ráðherrum og ríkisstjórnum, áður en framkvæmd Íslendinga í þessum viðkvæmu málum er gjörbreytt.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)