Stórkostleg réttarbót – til hamingju með daginn!

Í dag tóku gildi lög sem lúta að réttarstöðu samkynhneigðra á alþjóðlegum baráttudegi þeirra. Þetta er stórt skref í þeirri baráttu sem staðið hefur undanfarin ár.

Samkvæmt lögum geta samkynhneigð pör nú fengið sambúð sína skráða í þjóðskrá á sama hátt og gagnkynhneigð pör. Þá njóta samkynhneigðir sömu réttinda og lúta sömu skyldum og gagnkynhneigðir hvað varðar almannatryggingar, lífeyrismál, skattamál, erfðamál og margt fleira, að því tilskildu að þessi pör skrái sig í óvígða sambúð hjá Hagstofunni. Þá verða skilyrði fyrir stofnun staðfestrar samvistar rýmkuð og meðal annars er ekki lengur krafist fastrar búsetu á Íslandi þegar íslenskir ríkisborgarar eiga í hlut.

Samkynhneigð pör í staðfestri samvist fá nú einnig rétt til þess að ættleiða börn. Það verður þó matsatriði í hverju tilviki hvort heimild verði veitt, eins og í tilfellum gagnkynhneigðra. Konum í sambúð er nú einning heimilt að njóta réttar til tæknifrjóvgunar með gjafasæði á opinberum sjúkrastofnunum líkt og gildir um konur í gagnkynhneigðu parsambandi.

Þá eru jafnframt tekin af öll tvímæli gagnvart lögum um töku fæðingar- og foreldraorlofs sem á að auðvelda báðum foreldrum að vera í samvistum við nýfætt barn sitt.

Það er ljóst að með lögunum hefur Ísland nú skipað sér í fremstu röð hvað varðar jafnrétti samkynhneigðra. Enn er þó eitt mál óleyst en það er réttur samkynhneigðra á hjónavígslu eða staðfestri samvist. Þetta stenst tæplega jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar og ætti því að ganga í gegn á næsta löggjafarþingi.

Þeir aðilar sem staðið hafa í jafnréttisbaráttu samkynhneigðra eiga heiður skilinn fyrir ötula baráttu undanfarin ár og áratugi. Það má sannarlega segja að þeir hafi átt erindi sem erfiði. Til hamingju.

Heimild:
Samtökin ’78

Latest posts by Davíð Gunnarsson (see all)