Einkaframtakið gegn fátækt

Það hefur stundum komið upp sú umræða um fyrirtæki sem starfa við að hjálpa fólki sem hefur það mjög bágt að þau megi ekki græða á viðskiptavinum sínum. Er þetta skynsamlegt sjónarmið?

Skjólstæðingar Grameen bankans

Bangladesh er eitt fátækasta land heimsins. Þrátt fyrir að vestræn ríki hefðu dælt rúmlega 60 milljörðum bandaríkjadala inn í landið á árunum 1972 til 2002 þá hefur hvorki gengið né rekið að bæta hag landsmanna svo nokkru nemi. Ein ástæðan fyrir því er sú að það eru stórar stofnanir, alþjóðlegar og innlendar ríkisstofnanir sem eru að reyna að reikna bestu leiðina til velsældar. Slíkt virkar sjaldnast.

Á hinn bóginn hefur einkaframtakið komið landsmönnum gríðarlega vel. Grameen bankinn hefur verið starfandi í Bangladesh í svipaðan tíma og þessir gríðarlegu erlendu styrkir en hefur náð miklum árangri í að bæta líf þúsundir manna með því að veita smálán til mjög fátæks fólks.

Hver er leyndarmálið?

Lykilmunurinn á þessum litla banka og stóru alþjóðastofnunum er sú að Grameen leyfir viðskiptavinum sínum að ákveða sjálfir hvað þeir gera með peningana sem þeim er lánað. Grameen hefur mikið verið að lána konum (og hlotið gagnrýni af íhaldsömum öflum í landinu fyrir vikið) sem búa við mikla fátækt. Skjólstæðingar bankans er landlaust fólk sem gat ekki fengið lán neins staðar nema fyrir vexti í kringum 10% á viku eða jafnvel á dag!

Stóru þróunarstofnanirnar þurfa alltaf að hafa ákveðið fyrir fólkið hvað væri þeim fyrir bestu. En yfirleitt eru slíkar alþjóðastofnanir uppfullar af mjög velmenntuðu hágáfaðu fólki sem gerir áætlanir um það hvernig best sé að bæta hag annarra. Vandamálið er ekki að hér sé ekki um að ræða nógu klárt fólk heldur einfaldlega sú staðreynd að hér telja menn sig alltaf geta séð fyrir um mannlega hegðun langt fram í tímann. Slíkt er ómögulegt. Þess vegna hefur Grameen skilað mun betri árangri en flest verkefni í þróunaraðstoð.

Hver er síðan kostnaðurinn? Jú hann er hverfandi, endurgreiðsluhlutfall bankans var lengi í kringum 99% og bankinn rukkar rúmlega 20% vexti (sem þykir hátt í öllum löndum sem heita ekki Ísland) sem hefur skilað þeim hagnaði sem hefur aftur verið notaður í áframhaldandi vöxt og til þess að bæta hag enn fleiri.

Það hefur stundum verið gagnrýnt að bankinn eins og önnur einkafyrirtæki sem starfa við erfið skilyrði með fátækasta fólki jarðar græði peninga. Slík umræða er arfavitlaus. Hver á frekar skilið að græða pening, maðurinn sem hjálpar sveltandi barni eða maðurinn sem veitti hundinum hans Tom Cruise sálfræðiaðstoð (ekki það að rakkinn hafi ekki haft þörf á þessu)?

Í tilefni dagsins, alls ótengt þessu: Gleðilega Hróaskeldu!

Heimildir: Napoleons Glance eftir William Duggan og Wikipedia

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.