Þess vegna er Laugavegurinn dauður

Margar verslanir á Íslandi, aðrar en matvöruverslanir, loka of snemma á virkum dögum og opnunartíminn um helgar er á stundum einfaldlega vandræðalegur.

Margar verslanir á Íslandi, aðrar en matvöruverslanir, loka of snemma á virkum dögum og opnunartíminn um helgar er á stundum einfaldlega vandræðalegur.

Höfundur er í fullri vinnu eins og er nokkuð algengt meðal manna nú á tímum og hefur verið um nokkurt skeið. Verslanaeigendur á Íslandi virðast hins vegar í gáleysi sínu hafa horft framhjá þessari staðreynd og ákveðið að hafa opið nokkurn veginn á sama tíma og allir hinir eru í vinnunni.

Verslanir á Laugaveginum eru sérlega slæmar hvað þetta varðar. Þær opna klukkan tíu eða ellefu á morgnana og loka svo í síðasta lagi á svipuðum tíma og kvöldfréttir Ríkisútvarpsins. Á laugardögum er opið í fjóra eða sex klukkutíma og á sunnudögum allt harðlokað – að sjálfsögðu, þannig hefur þetta verið í áratugi og engin ástæða til að breyta núna.

Þessi opnunartími er stór ástæða þess að Laugavegurinn hefur hægt og rólega verið að deyja – höfundur hefur í það minnsta ekki farið þangað til innkaupa í háa herrans tíð. Kringlan og Smáralind standa sig talsvert betur í þessum málum og hafa í það minnsta áttað sig á því að Íslendingar vilja líka kaupa sér hluti á sunnudögum.

Samt sem áður gætu verslunarmiðstöðvarnar gert enn betur og haft opið fram á kvöld öll kvöld en þó má segja þeim til hróss að einu sinni í viku er opið til 21. Ekki þarf að leita lengra en til Bandaríkjanna til þess að finna gríðarstórar verslunarmiðstöðvar í hverju einasta krummaskuði og allar loka þær kl. 21 eða síðar á hverjum degi. Skyldi engan undra því Bandaríkjamenn eru jú óskoraðir konungar einkaneyslu.

Líklega má týna fleira til en opnunartíma verslana á Laugaveginum sem ástæður fyrir því að hann hefur látið nokkuð undan í seinni tíð. Það er að sjálfsögðu bílastæðavandinn sem setur stórt strik í reikninginn og algjör vankunnátta Íslendinga í byggingu bílastæðahúsa – sannarlega efni í annan pistil.

Ekki má svo gleyma að kenna valdatíð R-listans í Reykjavík um slæmt ástand, því Laugavegurinn virtist fara í niður á við um það leyti sem R-listinn tók við á sínum tíma. Eitthvað hefur þó ástandið batnað undanfarin misseri, enda ný öfl við stjórnvölinn í Reykjavík og meiri kraftur í uppbyggingu miðborgarinnar. Laugavegssamtökin hafa auðvitað líka gert sitt, en höfundi hefur þó ekki þótt mikið til þeirra koma.

En þegar öllu er á botninn hvolft þurfa verslanir að hafa opið til þess að laða að viðskiptavini og þeir sækja að sjálfsögðu þangað sem opnunartíminn er lengstur. Laugavegurinn þarf að hafa opið fram á kvöld og í það minnsta til 18 um helgar. Verslunarmiðstöðvarnar þurfa að gera það sama nema þær þyrftu að hafa opið fram á kvöld öll kvöld.

Ekki má skilja á ofangreindu að höfundur geri lítið annað að hanga í tískuverslunum, staðreyndin er einmitt hið gagnstæða. Hitt er svo annað mál að ef opnunartíminn væri lengri myndi höfundur líklega fara oftar og hið sama mætti eflaust segja um marga aðra. Sala myndi aukast og einkaneysla þar með. Þetta þýðir aukinn hagvöxt í það minnsta til skamms tíma og þá eru auðvitað allir ánægðir.

Latest posts by Davíð Gunnarsson (see all)