Hugmyndaríkir stjórnmálamenn

Stjórnmálamenn í Frakklandi og Þýskalandi telja sig vera leikna í að sjá viðskiptatækifæri. Í ár vonast þeir til þess að lyfta hulunni af nýrri leitarvél á netinu sem muni stinga silakeppina í Google og Yahoo af.

Það blæs ekki byrlega fyrir netfyrirtækinu Google um þessar mundir. Ástæðan er ekki sú að vinsældirnar hafi minnkað eða færri noti leitarvél fyrirtækisins. Ekki eru tekjur af auglýsingum að minnka heldur – og ekki hagnaðurinn. Hver er þá vandinn? Jú – Google hefur tekist að reita Jacques Chirac til reiði og hann ætlar að hefna sín. Hvernig? Jú með því að láta smíða nýja leitarvél, miklu betri. Og hann hefur fengið hundruð uppfinningamanna til liðs við sig og dælt í þá opinberum styrkjum. Og eftir nokkra mánuði rennur svo upp skapadægur Google þegar Quearo lítur dagsins ljós.

Franski forsetinn er mikill áhugamaður um að Evrópumenn eignist sína eigin leitarvél á Internetinu. Hann telur hættu stafa að yfirburðum Google og Yahoo þar sem þeir verði til þess að draga úr fjölbreytileika í menningu heimsins. Til þess að bregðast við þessu hefur Evrópusambandið varið tugum milljarða króna í þróun Quaero og standa vonir til þess að hún verði nothæf fyrir lok þessa árs.

Nýlega var fjallað um þetta metnaðarfulla verkefni í útvarpsþætti á hinni ágætu stöð BBC World. Meðal efnis voru viðtöl við franska embættismenn sem voru uppnumdir af mikilfengleik hugmyndarinnar og framkvæmdarinnar. Þeir vita það auðvitað að eina leiðin til nýsköpunar á Internetinu er að hópur stjórnmálamanna komi sér saman um góða hugmynd, setji svo embættismönnum sínum fyrir það verkefni að skrifa skýrslu, mynda svo vinnuhóp og stýrihóp sem hefst handa við lausn verkefnisins. Svo vita Frakkar manna best að engin nýsköpun getur átt sér stað nema til komi vænar fúlgur af opinberum styrkjum.

Franskur embættismaður í atvinnumálaráðuneytinu lýsti þeirri sannfæringu sinni að öfl markaðarins gæti aldrei hrundið veldi Google og Yahoo og þess vegna væri nauðsynlegt að máttur ríkisvaldsins léki lykilhluverk í atlögunni. Nú hljóta þeir að skjálfa á beinunum greyin sem stofnuðu Google. Hvernig í veröldinni er hægt að ætlast til þess að þeir keppi við sameinaðan mátt Þýskalands og Frakklands – tveggja ríkustu og háþróuðustu iðnvelda heims. Samt virðist enginn hjá Google hafa af þessu miklar áhyggjur. Skrýtið.

BBC tók líka hús á nokkrum sérfræðingum í netmálum. Þeir voru samdóma í áliti sínu. Þeir höfðu vægast sagt miklar efasemdir. Reyndar sagði einn frumkvöðullinn að líkurnar á því að Evrópumenn smíði samkeppnishæfa leitarvél hafi minnkað en ekki aukist við að Frakkland og Þýskland dæli tugmilljörðum af opinberu fé í Quearo verkefnið. Ástæðan er sú að framþróun í tölvuheiminum treystir ógjarnan á mikla fjárfestingu í upphafi. Yfirleitt eru það nokkrir áhugasamir krakkar með sæmilegan tölvubúnað, nóg af hyggjuviti, fullt af pizzum og kóki, sem breyta heiminum. En þegar stjórnmálamenn í stórveldum ákveða að gerast hugmyndafræðingar nýsköpunar er voðinn vís. Ekki einasta er líklegast að þeir muni tapa samkeppninni heldur dregur framtak á borð við Quaero úr líkum á því að vösk smáfyrirtæki nái að afla sér rekstrartekna.

Quaero þýðir „að leita“ á latínu og er því ákaflega viðeigandi nafn. Reyndar ekki svo auðvelt að stafsetja það, og svo vill líka svo illa til að einhver annar er búinn að taka frá lénið quaero.com – en getur nokkuð verið að slíkt skipti einhverju máli? Þeir hljóta að vita hvað þeir eru að gera – þeir Chirac og embættismennirnir hans. Er ekki óhætt að treysta á það?

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.