Þrjátíu dýrlegir dagar

Í dag kl fjögur hefst veislan. Heimamenn í Þýskalandi mæta Kosta Ríka á Allianz Arena leikvanginum í München. Veislan mun standa yfir í mánuð með litlum hléum, enda þarf að spila 64 leiki áður en heimsmeistarar verða krýndir í Berlín að kvöldi 9. júlí

Í dag kl fjögur hefst veislan. Heimamenn í Þýskalandi mæta Kosta Ríka á Allianz Arena leikvanginum í München. Veislan mun standa yfir í mánuð með litlum hléum, enda þarf að spila 64 leiki áður en heimsmeistarar verða krýndir í Berlín að kvöldi 9. júlí. Þetta er í átjánda skiptið á 76 árum sem bestu landslið heims koma saman en það gerðu þau fyrst í Úrúgvæ árið 1930. Þá voru liðin 13, en eftir stríð hafa þau oftast verið 32.

Í opnunarleiknum mætir þýska stálskipulagið léttleikandi liði úr karabíska hafinu, en það eru einmitt slíkar viðureignir og von um óvænt úrslit sem eiga þátt í að skapa þá stemmningu sem ríkir á HM. Árið 1990 kom Kamerún öllum á óvart með því að sigra þáverandi heimsmeistara frá Argentínu í opnunarleik og í síðustu keppni sigruðu Senigalar gömlu nýlenduherra sína og ríkjandi heimsmeistara frá Frakklandi.

Það má segja að fáir atburðir sameini heimsbyggðina eins og HM í knattspyrnu, en reiknað er með að einn og hálfur milljarður jarðabúa muni fylgjast með keppninni í Þýskalandi. Þrátt fyrir að sumum þyki keppnir landa á milli í íþróttum ýta undir þjóðrembu þá hefur reynslan af HM sýnt að svo er ekki, heldur hefur sá andi sem þar ríkir frekar stuðlað að góðum samhug þjóða á milli.

Þær þjóðir sem ekki eiga lið í úrslitakeppninni sjálfri fylgjast spenntar með framvindu mála og einnig þjóðir eins og Íslendingar sem aldrei hafa átt lið í úrslitakeppninni. Hér á landi velja menn sér lið til þess að halda með, sumir fylgja norðurlandaþjóðum að málum, sem í þessu tilfelli væru Svíar og eldra fólkið raðar sér á yfirleitt þá ensku eða þýskaranna. En síðan eru það þeir sem styðja litlu liðin eins og Angóla, Kosta Ríka, Trínitat og Tóbakó, Íran eða Tógó. Allir geta fundið sér eitthvað við sitt hæfi.

Stemningin er í raun svo smitandi að fólk, sem annars aldrei fylgist með fótbolta, finnur sér lið til þess að styðja og fylgjast með. Í raun eru það bara einbeittu fílupokarnir sem þykjast ekki hafa gaman af þessi og skammast eins og þeir fái borgað fyrir.

En nú er kominn tími til kæla bjórinn, draga úr vinnu og njóta. Eru Brasilíumenn ósigrandi, dugir hinn sígilda þýska seiglan eða tími Afríku komin. Það kemur í ljós efir þrjátíu dýrlega daga.

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.