Í kjölfar kosninga

Í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna eiga sér nú stað meirihlutaviðræður þar sem enginn listi náði hreinum meirihluta. Með viðræðum reyna tveir eða fleiri listar að sameinast um að mynda starfhæfan meirihluta í sveitastjórn. Það gera þeir með því að fara yfir kosningaloforðin, gera málamiðlanir og loks er útbúinn málefnasamningur sem nokkurs konar bland í poka af stefnumálum hlutaðeigandi lista.

Í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna um seinustu helgi eiga sér nú stað meirihlutaviðræður í þeim sveitarfélögum landsins þar sem enginn listi náði hreinum meirihluta. Með viðræðum reyna tveir eða fleiri listar að sameinast um að mynda starfhæfan meirihluta í sveitastjórn. Það gera þeir með því að funda sín á milli, fara yfir kosningaloforðin og gera málamiðlanir. Að lokum er útbúinn málefnasamningur sem nokkurs konar bland í poka af stefnumálum hlutaðeigandi lista. Í þessum samningaviðræðum er gert ráð fyrir því að menn þurfi að gera málamiðlanir og telst eðlilegt að menn þurfi að draga í land í einhverjum málum til að koma til móts við samstarfsflokkinn eða samstarfsflokkana.

Óttinn við hreinan meirihluta

Í aðdraganda kosninga kemur ávallt holskefla af skoðanakönnunum sem er í sjálfu sér hið besta mál. Það skapar atvinnu og er gjöful uppspretta frétta og umræðna fyrir fréttastofur landsins. Að ógleymdri gleðinni sem það veitir fólki þegar spyrill hringir á meðan Eurovision eða fótboltaleikurINN er í sjónvarpinu.
En þegar niðurstöður skoðanakannana benda til þess að einn flokkur muni ná hreinum meirihluta í tilteknu sveitarfélagi er eins og tvær grímur renni á kjósendur og á það líka við frambjóðendur viðkomandi flokks. Þeir vita nefnilega af reynslunni að slíkar spár geta valdið fylgistapi. Af einhverjum ástæðum virðist fólk hræðast það að einn flokkur nái hreinum meirihluta. Þegar skoðanakannanir birtust í aðdraganda kosninganna sem gáfu til kynna hreinan meirihluta fylgdu yfirleitt varnaðarorð í kjölfarið frá oddvita þess flokks um að varlegt væri nú að taka mark á slíkum spám. Það má velta fyrir sér hvernig stendur á því að fólk virðist ekki vilja skýrt umboð í stjórnmálum. Sumir vilja meina að nauðsynlegt sé að hafa samstarfsflokka í meirihluta þar sem annar eða einn af flokkunum virki sem öryggisventill. Geri einhver flokkur sig líklegan til spillingar muni hinn eða hinir flokkarnir stoppa það af og meirihlutinn springa. En með skýru umboði fylgir jafnframt skýr ábyrgð og fólk þarf ekki að velkjast í neinum vafa hverjum er um að kenna ef illa gengur, sömuleiðis hverjum er að þakka ef vel gengur. Og þá hreinar línur hverjum skal refsa eða hampa í næstu kosningum. Enda eru kosningar okkar leið til að skipta um valdhafa án þess að skjóta þá svo vitnað sé í fleyg orð. R-listinn sálugi, sem sat í hreinum meirihluta í Reykjavík seinustu þrjú kjörtímabil, er reyndar slæmt dæmi um skýrt umboð og skýra ábyrgð.

Umboð til myndunar meirihluta

Eins og fyrr segir þá semja listar um meirihlutasamstarf með tilheyrandi málamiðlunum og eftirgjöf. Þannig virkar lýðræðið í sveitarfélögum landsins. Og þó. Listi sem hefur fengið afgerandi besta kosningu í sveitarfélagi en nær þó ekki hreinum meirihluta getur hæglega endað í minnihluta. Listi, með stefnumál sem allt að helmingur íbúa styður með atkvæði sínu, getur setið einn í minnihluta meðan hinir tveir, þrír, fjórir listarnir, sem fengu ekki slíkt umboð hver og einn með sínum stefnumálum, geta slegið saman í meirihluta. Þeir hittast og funda sín á milli, gera málamiðlanir, gefa eftir, búa til bland í poka málefnasamning og standa uppi sem sigurvegarar kosninganna með stjórn sveitarfélagsins næstu fjögur árin. Svo veltir fólk fyrir sér afhverju fáir leggi trúnað á kosningaloforð. Litlum flokkum er í lófa lagið að koma með kosningaloforð sem þau vita að munu aldrei verða að veruleika þar sem þau vita jafnframt að nauðsynlegt er að hafa einhver mál til að gefa eftir þegar samið er um bland í poka málefnasamninginn.

Ef það á að líta á kosningar sem skilaboð kjósenda til stjórnmálamanna þá hlýtur maður að ganga út frá því að flokkurinn með mesta umboðið sé í meirihlutanum. Og það hlýtur í flestum tilfellum að kalla á færri málamiðlanir, því færri flokkar sem standa að meirihlutanum. En stundum virðast stefnumálin ekki vera aðalatriðið, heldur það að reyna að fella þann flokk sem fékk þó flest atkvæði og þar með mesta lýðræðislega umboðið. Aðalatriðið er að fá að stjórna, hvort sem kjósendum líkar betur eða verr.

Latest posts by Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (see all)

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Sigga Dögg hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.