Á hvítasunnu 2006

Á hvítasunnu er stofnunar kirkjunnar minnst. Í hvítasunnupistli fjallar Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson um þann boðskap frásagnarinnar um hvítasunnu að kirkjan skuli vera öllum opin og að fyrir henni séu allir jafnir. „Kirkjan á að vera mannréttindafélag vegna þess að það er mikilvægast að hver og einn hafi rétt til þess að vera sá sem hann er,“ segir í hugvekju dagsins.

Kirkjan á erindi við samtímann. Og kirkjan þarf að gera það erindi aðgengilegt og áhugavert. Á tímum hraða og tölvulausna er mikilvægt fyrir þá sem vilja prédika að hafa í huga orð grínistans, Georgs Burns (1896 –1996),þegar hann sagði: “Leyndardómur góðrar prédikunar felst í því að láta hana byrja skemmtilega og vera síðan með gott niðurlag og hafa stutt þar á milli.”
Hvítasunnan er hátíð kirkjunnar. Þá er þess minnst að heilagur andi kom yfir postulana þar sem þeir voru staddir í Jerúsalem. Og kirkjan var stofnuð hér á jörðu með braki og brestum. Við lesum um þennan atburð í postulasögunni. Þar segir: Varð þá skyndilega gnýr af himni eins og aðdynjanda sterkviðris og fyllti allt húsið, þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvern og einn þeirra. Þeir fylltust allir heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.
Guð hafði áður gert vart við sig í mannheimum. Hann hafði birst Móses forðum á fjallinu og eins þegar ummyndun Jesú átti sér stað og vinir hans urðu vitni að undri og stórmerkjum. En í þessum tilvikum voru aðeins fá vitni. Það voru aðeins innvígðir og innmúraðir kallaðir til vitnisburðar. En á hvítasunnudag bar annað við.
Það var mikill mannfjöldi staddur í Jerúsalem og það var stór hópur sem varð vitni að því þegar heilögum anda var úthellt yfir lærisveinana. Allt þetta góða fólk varð vitni að nýrri dögun í mannkynssögunni. Það var á staðnum þegar kirkjan varð til.
Það voru ekki bara vinir Jesú, lærisveinarnir, þar sem þeir biðu saman, órólegir og kvíðafullir, á afviknum stað. Það voru ekki bara fáir útvaldir og heilagir eða þeir snjöllustu og tryggustu sem fengu að vera vitni að undrinu á hvítasunnunni. Á táknrænan hátt var öllum boðin þátttaka. Þar voru staddir ungir og gamlir, konur og karlar, heiðursfólk og annað vafasamara. Þar voru landsmenn og nýbúar og gestir alls staðar að. Þar var engin munur á. Allir voru saman og allir fengu að vera með og bera því vitni sem þarna gerðist. Venjulegar hindranir í samskiptum fólks voru að engu gerðar. Meira að segja gátu allir skilið hvern annan því að hver og einn heyrði talað á sinni eigin tungu.
Kirkjan, sem byrjaði í Jerúsalem, fór síðan í sveitirnar og yfir landamæri til borga og bæja við Miðjarðarhafið. Það er allt merkileg saga og ekki þrautalaus.
Í stað þess að efast um sannleiksgildi þessarar frásögu eða trúa henni gagnrýnislaust þá er uppbyggilegra að velta því fyrir sér hvaða merkingu hún hafi. Hvað er verið að segja með þessari sögu og á hún eitthvert erindi við okkur sem nú erum á dögum.
Atburðir hvítasunnunnar undirstrika að trúin er allra en ekki fárra. Það eru ekki fáir innvígðir sem njóta náðar Guðs heldur lýðurinn allur.
Kirkjan á að vera samfélag fólks sem vill leggja lífinu lið og lætur sig varða um heill og hamingju náungans og kirkjan á að berjast fyrir réttlæti og friði. Hún á að brjóta niður þær hindranir sem mismunandi menning, tungumál eða þjóðerni eru í samskiptum fólks. Kirkjan á að vera mannréttindafélag vegna þess að það er mikilvægast að hver og einn hafi rétt til þess að vera sá sem hann er. Kristur vill að við lifum lífinu til fulls og kirkjan á að vera sá vettvangur þar sem allir eru þátttakendur og engin óverðugur. Og það tungumál sem allir skilja er kærleikurinn. Sá kærleikur sem gerir ekki mannamun en breiðir yfir allt, umber allt, vonar allt og fellur aldrei úr gildi.
Þessir hvítasunnudagar eru þannig tilefni fyrir okkur til að líta í eigin barm. Við getum spurt okkur að því hvort við reynum að laða það góða fram í lífinu. Okkar eigin lífi og í lífi annarra. Þessi hátíð á að vekja með okkur endurnýjaða von og þrótt til að taka þátt í lífinu líkt og gerðist endur fyrir löngu þegar lærisveinarnir, sem höfðu verið inn í sig og til hlés, stóðu upp fullir eldmóðs og héldu á stað út í heiminn til að boða fagnaðarerindið um Jesú frá Nazaret.
Gleðilega hátíð.

Latest posts by Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson (see all)