Margir hafa velt fyrir sér ráðgátunni um Bermúda þríhyrninginn en fáir komist að því sanna. Ýmsar getgátur hafa verið á lofti, allt frá yfirnáttúrulegum fyrirbærum til eðlilegra staðreynda á borð við óveður og veikt segulsvið jarðar á þessu svæði. Hafsvæðið sem spannar Bermúda þríhyrninginn er talið vera það hættulegasta í heimi.
Bermuda þríhyrningurinn er einnig þekktur undir nafninu Djöflaþríhyrningurinn. Hann nær yfir svæði sem er næstum 1,2 milljón ferkílómertrar að stærð. Þríhyrningurinn afmarkast af Bermuda-eyjum, Puerto Rico og syðsta odda Flórída. Svæðið hefur náð vinsældum vegna fjölmiðlaumfjöllunar þar sem það hefur fengið yfirnáttúrulegan blæ og sumir vilja meina að eðlisfræðilögmál megi sín þar lítils.
Fjöldi skipa og flugvéla hafa farist á þessu svæði og telja margir undarlegar, jafnvel yfirnáttúrulegar ástæður liggja þar að baki. Aðilar sem þekkja vel til á þessu svæði, á borð við Strandgæslu Bandaríkjanna, sem þekkja þarna vel til eru þó ósammála þessu. Því til stuðnings vitna þeir í staðreyndir sem sýna fram á að fjöldi týndra skipa og flugvéla sé ekki meiri þarna en á öðrum svæðum í heiminum þar sem mikil sjó – og flugumferð er.
Það verður seint sagt menn séu sammála í ráðgátunni um Bermúda þríhyrninginn. Þetta má sérstaklega rekja til þeirra dularfullu og yfirnáttúrulegu þátta hans. Sumir segja meintar ráðgátur hafa við nánari skoðun alls ekki verið svo dularfullar, bæði vegna ónákvæmni og rangra upplýsinga um hin ýmsu mál. Þríhyrningurinn sé tilviljanakennt form sem sé hluti af leið um Atlantshafið. Leið sem teygir sig allt frá Vestur Indíum, meðfram strandlínu Bandaríkjanna alla leið að Karolínufylkjunum.
Fyrr á öldum silgdu skip sem voru á leiðinni frá Suður Ameríku til Evrópu meðfram strandlínu Bandaríkjanna og fóru þaðan í austur yfir til Evrópu. Þannig nýttu þau sér meðvindinn yfir Norður Atlantshaf. Þrátt fyrir tilkomu vélknúinna skipa er enn mun meiri skipaumferð nær strandlengju Bandaríkjanna en úti í miðju hafinu.
Þríhyrningurinn liggur á svipuðum slóðum og Golfstraumurinn. Gjarnan hefur verið allra veðra von á svæðinu og ósjaldan sem skýstrókar myndast. Samspil mikillar skipaumferðar og óútreiknanlegs veðurs þýðir að óvenju mörg skip lenda í vandræðum í þeim óveðrum sem myndast.
Samskiptaleysi milli skipa fyrr á öldum þýddi að flest þeirra fórust án þess að nokkur kæmist lífs af og hurfu þannig sporlaust. Með tilkomu þráðlausra samskipta, radars og GPS tækja eru óútskýrð hvörf að mestu liðin tíð.
Fjöldi hvarfa hafa verið skráð á svæðinu. Frægast þeirra er líklega hvarf fimm herþotna og leitarflugvélar árið 1945. Fljótt á litið gæti talist ólíklegt að þaulvanir herflugmenn myndu hverfa sporlaust á flugvélum sínum, ásamt vélinni sem send var til þess að leita að þeim. Þegar málið er skoðað nánar kemur þó ýmislegt í ljós.
Flugmenn vélanna voru allir óreyndir hermenn í þjálfun, utan einn sem þó ku ekki hafa verið alveg upp á sitt besta vegna áfengisdrykkju kvöldið áður. Sem reyndur flugmaður leiddi hann þó hópinn og varð áttaviti í vél hans til þess að flugvélarnar villtust af leið og fórust líklega yfir miðju Atlantshafinu. Hvað varðar leitarflugvélina, sem almennt er sögð hafa farist í Bermúdaþríhyrningnum, þá sprakk hún í loft upp um 23 sekúndum eftir flugtak. Ástæða þess var þekktur galla í bensíntanki þessarar tegundar flugvéla og fjölmargir á herstöðinni sem vélin tók á loft frá urðu vitni að sprengingunni.
Hvað sem öðru líður varðandi þá dulúð sem sveipar Bermúdaþríhyrninginn er óumdeilt að margir hafa farist þar – yfir 1000 manns síðustu 100 ár. Hafsvæðið er afar hættulegt, bæði til siglinga og yfirflugs, en hættan virðist stafa meira af snögglegum veðurbreytingum og almennt afar slæmu veðurfari. Þrátt fyrir að ágæt rök virðist vera fyrir því að hlutfallslega fleiri skip og flugvélar hafi farist þarna en annars staðar er ekki laust við að efinn læðist að pistlahöfundi. Hver veit nema ekkert af þessu eigi sér eðlilegar skýringar og staðreyndir séu eins furðulegar og hugsast getur – líklega munum við aldrei komast að hinu sanna um Bermúdaþríhyrninginn.
Heimildir:
http://www.history.navy.mil/faqs/faq8-1.htm
http://www.parascope.com/en/bermuda1.htm
http://bstar.net/bermudatriangle/
- Eldgos, gjörðu svo vel! - 30. apríl 2021
- Ameríkuferð Reykjanesskagans - 2. mars 2021
- Þegar landið rís - 25. janúar 2021