Sameiginlegir hagsmunir

Eftir rúmlega ár af heimsfaraldri er farið að reyna verulega á þolgæði landsmanna og margir finna fyrir svokallaðri faraldursþreytu. Við erum öll orðin hundleið á þessu, svo það sé orðað beint út.  Sóttvarnarlæknir og yfirvöld á Íslandi hafa hins vegar staðið sig vel í markvissum og hófsömum aðgerðum sem hefur skilað sér í sterkri ímynd Íslands á heimsvísu varðandi traust á Covid aðgerðum. Það hefur verið almenn sátt um aðgerðir hérlendis miðað við það sem við höfum séð víða erlendis en það er þó ekki skilyrðislaus hlýðni enda væri það varhugavert í lýðræðissamfélagi ef það má ekki gagnrýna. Nýjasta dæmið um reglugerð um sóttkvíarhótel sem reyndist ekki standast lög sýnir að það er rík þörf á aðhaldi og gagnrýnni hugsun varðandi sóttvarnaraðgerðir.

Við erum reglulega minnt á að við erum öll almannavarnir og flestir hafa gert sitt besta til að taka þátt en það er vaxandi áhyggjuefni að sjá málflutning þar sem reynt er að stilla upp andstæðum hliðum og etja þeim saman. Þessi umræða gengur út á að stilla upp þeim valkostum að loka landamærum og hafa “venjulegt líf” fyrir Íslendinga innan landsteinanna eða að opna landamæri þannig að erlendir ferðamenn geti ferðast til Íslands með aukinni hættu á smitum og samkomutakmörkunum. Þegar dæminu er stillt upp með svona afbökuðum hætti þá segir faraldursþreytan til sín og sumir lýsa yfir gremju í garð ferðaþjónustunnar og ótta við erlenda ferðamenn.

Þetta er varhugaverð nálgun sem er til þess fallin að sundra samstöðu þegar við erum loks farin að sjá til lands eftir því sem bólusetningum vindur fram og viðkvæmustu hópar eru að komast í var. Sóttvarnarlæknir hefur sagt að öll þriðja bylgjan og þau smit sem hafa komið upp undanfarið megi rekja til fólks með íslenskt ríkisfang. Hann benti á það snemma í faraldrinum að það væru minni líkur á að erlendir ferðamenn bæru áfram smit miðað við Íslendinga vegna þess að Íslendingar væru í mun nánari samskiptum sín á milli heldur en ferðamenn að ferðast um áfangastaðinn Ísland.

Í stað þess að vera andstæðar hliðar þá fara hagsmunirnir saman. Aflétting takmarkana á landamærum í skrefum og að taka á móti ferðamönnum, sem flestir hljóta að geta verið sammála um að er mikilvægt fyrir efnahagslegan bata þjóðarinnar, mun vitaskuld ekki ganga ef því fylgja stöðugar U-beygjur og lokanir beint í kjölfarið. Við þurfum að stíga þessu skref af skynsemi en það liggur fyrir að þau þarf að stíga og að þau verða stigin.

Það hefur alið á misskilningi að sóttvarnaryfirvöld nota hugtakið ferðamenn yfir alla sem ferðast um landamærin óháð því hvort það séu erlendir ferðamenn á leið í frí, íslenskir ríkisborgarar á leið í frí eða ferð vegna vinnu, erlendir ríkisborgarar með aðsetur á Íslandi á ferð vegna vinnu eða annað. Almenn skilgreining á ferðamanni er að það sé gestur sem dvelur a.m.k. eina nótt á landinu, en skemur en eitt ár. Það er líklegt að almenningur tengi hugtakið við erlenda ferðamenn sem heimsækja Ísland og ef það er stöðugt verið að ala á ótta við að „ferðamenn“ geti borið veiruna með sér yfir landamærin þá er hætta á að óttinn geti komið fram í andúð í garð erlendra ferðamanna. Það er mjög mikilvægt að tala af ábyrgð og nota rétt hugtök til að koma í veg fyrir misskilning.

Mikil óvissa er framundan vegna heimsfaraldursins og stöðu bólusetninga en greiningar gefa vísbendingar um að ferðaþjónusta geti farið að taka við sér mögulega seinnihluta sumars eða í haust. Það skiptir miklu máli fyrir íslenskt efnahagslíf að vel takist til og að verðmætasköpun í þessari stærstu útflutningsgrein landsins hefjist á ný. Ísland hefur á undanförnum árum verið með eitt hæsta meðmælaskor áfangastaða í heiminum sem mælir hversu líklegir ferðamenn eru til að mæla með áfangastað. Vonandi ber okkur gæfa til þess að halda áfram að taka vel á móti ferðamönnum sem kjósa að koma til Íslands.

Latest posts by Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (see all)

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Sigga Dögg hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.