Hugmynd fyrir Háskóla Íslands


Undanfarin ár hefur á hverju ári verið gerð alþjóðleg rannsókn á frumkvöðlastarfsemi í um 40 löndum og ber rannsóknin heitið Global Enterpreneurship Monitor (GEM). Þar kemur fram að sláandi lágt hlutfall íslenskra frumkvöðla er með háskólamenntun. Í ljósi nýrrar stefnu Háskóla Íslands um að komast í hóp þeirra bestu er ljóst að aðgerða er þörf í þessum málaflokki.

“Skólinn verður driffjöður framþróunar í íslensku atvinnu- og þjóðlífi”

Setningin hér að ofan er tekin úr nýrri og margumtalaðri stefnu Háskóla Íslands og er að mörgu leiti lýsandi fyrir þann uppgang sem vonandi mun eiga sér stað í skólanum á næstu árum. Háskóli Íslands hefur alltaf verið lang fremstur meðal annarra íslenskra Háskóla hvað varðar rannsóknir og fræðilega kennslu. Háskólinn hefur aftur á móti verið nokkur eftirbátur annarra háskóla s.s. Háskólans í Reykjavík þegar kemur að tengslum við atvinnulífið og stuðning við sprotafyrirtæki nemenda.

Mjög fáir íslenskir frumkvöðlar með háskólamenntun

Undanfarin ár hefur á hverju ári verið gerð alþjóðleg rannsókn á frumkvöðlastarfsemi í um 40 löndum og ber rannsóknin heitið Global Enterpreneurship Monitor (GEM). Háskólinn í Reykjavík sá um framkvæmd rannsóknarinnar á Íslandi og má sjá niðurstöðurnar hér í skýrslu sem kom út fyrir stuttu. Í heildina litið kom Ísland vel út í rannsókninni en þó eru atriði sem koma verulega á óvart. Merkilegasta staðreyndin er sú að sláandi lítið hlutfall frumkvöðla á Íslandi er með Háskólamenntun í samanburði við önnur hátekjulönd. Flestir frumkvöðlar á Íslandi eru með framhaldsskólamenntun – eða enga menntun!

Einungis tæplega 25% íslenskra frumkvöðla eru með háskólamenntun, ríflega 45% með framhaldsskólamenntun og um 30% án framhaldsskólaprófs! Meðaltal annarra hátekjulanda í rannsókninni sýnir að hátt í 60% frumkvöðla þar er með háskólamenntun.

Í GEM skýrslunni er hins vegar hvorki skoðað samhengi á milli bakgrunns frumkvöðla og hversu vel fyrirtækjunum vegnar eða hversu stórt hlutfall fyrirtækja lenda í gjaldþroti fyrstu árin. Nú er það staðreynd að á Íslandi eru um tveir þriðju hlutar sprotafyrirtækja hætt starfsemi á innan við sex árum. Hvort sem aukið menntunarstig frumkvöðla mun bæta þennan árangur fyrirtækja hér á landi læt ég ósagt en það væri engu að síður fróðlegt að skoða mjög vel.

Stofnun nýsköpunar- og frumkvöðlaseturs í Háskóla Íslands

Ef Háskóli Íslands ætlar að komast í hóp bestu háskóla í heiminum þarf skólinn að taka sig verulega á og stefna til forystu í þessum málum. Setja þarf á fót Nýsköpunar- og frumkvöðlasetur Háskóla Íslands. Margir af bestu skólum heimsins starfrækja slíkar nýsköpunarmiðstöðvar en þar gefst stúdentum kostur á aðstöðu og ráðgjöf hvað varðar stofnun fyrirtækja – allt frá hugmyndavinnu til fjárfestingaráðgjafar. Sérþjálfaðir starfsmenn vinna þar markvisst að því að efla og styrkja nýsköpun og sprotafyrirtæki.

Þess má geta að þarna hefur Háskólinn í Reykjavík tekið forystuna eins og er en svipuð miðstöð verður sett á laggirnar við HR um næstu áramót og er það frábært skref hjá HR. Meginmunurinn á þeirri nýsköpunarmiðstöð sem HR ætlar að setja á stofn og þeirri nýsköpunarmiðstöð sem undirritaður vill sjá við Háskóla Íslands er að HR hyggst leigja út aðstöðu og þjónustu til einstaklinga og fyrirtækja í nýsköpun og rannsóknum (skv. upplýsingum á heimasíðu skólans). Háskóli Íslands og fyrirtækin í landinu ættu að fjárfesta í framtíðinni með því að styrkja slíka frumkvöðlastarfssemi frá grunni.

Háskóli Íslands getur fjárfest í framtíðinni

Skjóta má fram þeirri hugmynd að í staðinn fyrir að veita nemendum ráðgjöf og aðstöðu til að stofna fyrirtæki fengi Háskólinn greitt í örlitlum hlut ef vel gengur. Marel er gott dæmi um fyrirtæki sem er sprottið upp úr viðjum Háskólans. Ef Háskólinn hefði frá upphafi átt 1% hlut í Marel væri sá hlutur orðinn 168 milljóna króna virði í dag. Áður en slíkar hugmyndir kæmu til framkvæmda þyrfti að þó að skoða málið vandlega út frá þjóðfélagslegum og lagalegum sjónarhornum.

Hvað sem öllum góðum hugmyndum og núverandi stöðu líður þarf að mati undirritaðs að stórefla tengsl Háskóla Íslands við íslenskt atvinnulíf og að sama skapi þarf að efla nýsköpun stúdenta að verulegu leyti. Í stúdentum býr gríðarlegur kraftur, hugmyndaauðgi og sköpunargáfa. Þennan kraft þarf þjóðfélagið að virkja til framtíðar með því að styðja vel við unga frumkvöðla á öllum sviðum.

Skýrsla Global Enerpreneurship Monitor

Latest posts by Andri Heiðar Kristinsson (see all)