Nú skulum við ná Kópavogi!

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú í röðum sínum vel valið lið ungra og kraftmikilla frambjóðenda til borgarstjórnar. Þessum frambjóðendum, og auðvitað líka hinum eldri, er mikið í mun að ungu fólki líði vel í Reykjavík. Ungir Sjálfstæðismenn hafa sett saman stefnuskrá sem lofar góðu. Þeir vilja m.a. tryggja lóðir undir stúdentagarða í Reykjavík, fjölga bílastæðum í miðbænum, auka atvinnutækifæri ungs fólks og leysa þessa leiðinlegu umferðarhnúta í borginni.

Þann 27. maí n.k. útskrifast ég úr framhaldsskóla ef allt gengur að óskum. Ég mun því fagna um eftirmiðdaginn með vinum og vandamönnum og vonandi verða fagnaðarefnin fleiri en þessi áfangi minn á menntagöngunni. Ég vonast einnig til þess að fagna heimssigri, a.m.k. Evrópusigri, Silvíu Nætur í Evróvisjón og undankeppnin fer einmitt fram í dag. Ég vonast ennfremur til að fagna því með vinum og vandamönnum að borgin komist á ný í öruggar hendur.

Það ætti að vera ungu fólki mikið kappsmál að Sjálfstæðisflokkurinn komist aftur til valda í borginni. Með því að ganga til kjörstaðar er fólk að kjósa um framtíð Reykjavíkurborgar, a.m.k. næstu fjögur árin; vonandi að henni svipi að litlu leyti til s.l. tólf ára.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú í röðum sínum vel valið lið ungra og kraftmikilla frambjóðenda til borgarstjórnar. Þessum frambjóðendum, og auðvitað líka hinum eldri, er mikið í mun að ungu fólki líði vel í Reykjavík. Ungir Sjálfstæðismenn hafa sett saman stefnuskrá sem lofar góðu. Þeir vilja m.a. tryggja lóðir undir stúdentagarða í Reykjavík, fjölga bílastæðum í miðbænum, auka atvinnutækifæri ungs fólks og leysa þessa leiðinlegu umferðarhnúta í borginni. Hvaða Reykvíkingur hefur ekki setið fastur í umferðinni í vikunni og bölvað (Degi B.) í sand og ösku?

Vill ungt fólk í Reykjavík virkilega vera áfram í sama basli og það hefur horft upp á í tólf ár? Þær skoðanakannanir sem hafa verið birtar benda nefnilega til þess. Vill ungt fólk í Reykjavík ekki fá að sjá eitthvað gert fyrir peningana sína? Skoðanakannanir benda til þess að ungt fólk vilji halda áfram að fjölga starfsmönnum Ráðhússins og helst stöðumælum líka.

Framtíðin er ekki eins langt í burtu og manni finnst hún oft vera. Í dag er það Hótel Mamma, á morgun er það árangurslaus leit að lóð í Reykjavík. Það e.t.v. heldur ekkert ýkja langt þar til við sækjum um leikskólapláss fyrir börnin okkar, pláss sem er ekki til. Það er því mikilvægt að nota atkvæðið til þess að tryggja betri borg.
Þann 27. maí útskrifast ég úr framhaldsskóla eins og fyrr segir. Sama dag kýs ég í fyrsta skiptið í borgarstjórnarkosningum. Þann dag mun ég hafa s.l. tólf ár í huga, árin sem Kópavogur, Hafnarfjörður, Seltjarnarnes og Garðabær fóru fram úr Reykjavík og Alfreð byggði ferlíkið yfir Orkuveituna – svo hátt að dregur fyrir sólu.

Að gefnu tilefni minni ég á að ég tek við blómum og heillaóskum á heimili mínu.

Latest posts by Diljá Mist Einarsdóttir (see all)

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Diljá hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2006.