Ný stefna Háskóla Íslands varðandi mat á rannsóknum

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, kynnti nýverið stefnu Háskólans til næstu fimm ára. Kristín hafði áður lýst því yfir að Háskólinn ætti að stefna að því að verða á meðal hundrað bestu háskóla heims. Til þess að það markmið geti orðið að veruleika er ljóst að hrista þarf verulega upp í starfi Háskólans. Það er því áhugavert að skoða nákvæmlega hvaða breytingar stjórn skólans ætlar sér að gera til þess að ná þessu markmiði.

Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands, kynnti nýverið stefnu Háskólans til næstu fimm ára. Kristín hafði áður lýst því yfir að Háskólinn ætti að stefna að því að verða á meðal hundrað bestu háskóla heims. Til þess að það markmið geti orðið að veruleika er ljóst að hrista þarf verulega upp í starfi Háskólans. Það er því áhugavert að skoða nákvæmlega hvaða breytingar stjórn skólans ætlar sér að gera til þess að ná þessu markmiði.

Þegar stórar og flóknar stofnanir setja sér háleit markmið vilja þau oft verða ekkert nema orðin tóm. Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóðabankinn setja sér til dæmis annað slagið það markmið að helminga fátækt í heiminum fyrir þetta eða hitt árið. Slíkum markmiðum fylgja því miður sjaldnast áþreifanlegar aðgerðastefnur sem hafa raunverulega möguleika á því að gera það að verkum að markmiðin náist. (Annað ágætt dæmi er: Eiturlyfjalaust Ísland fyrir árið 2000.)

Það var því hætt við því að stefnumörkun Háskóla Íslands yrði ekki annað en langur listi af hinu og þessu sem stefnt væri að því að bæta á næstu fimm árum án þess að tiltekið væri hvernig það ætti að gera. Sem betur fer varð sú ekki raunin. Þvert á móti er stefnan sem Kristín kynnti full af nokkuð nákvæmlega útlistuðum aðgerðum til þess að bæta starf skólans.

Eitt af því sem Háskóli Íslands ætlar sér að bæta til muna er rannsóknarvirkni og gæði rannsókna. Til þess að ná þessu markmiði ætlar Háskólinn að endurskoða matskerfi rannsókna þannig að birtingar í virtum alþjóðlegum ritrýndum vísindatímaritum fái aukið vægi. Auk þess mun hið nýja matskerfi umbuna sérstaklega fyrir birtingar í fremstu tímaritum heims á hverju sviði, svo sem Nature og Science.

Þetta er gríðarlega mikilvægt skref í rétta átt fyrir Háskólann. Hingað til hefur matskerfi Háskólans fyrir rannsóknir verið með endemum. Öll alþjóðleg ritrýnd tímarit hafa haft sama vægi. Þannig hefur grein í American Economic Review verið metin til jafn margra rannsóknarstiga og grein í Scandinavian Economic Review. Það sem meira er hafa birtingar í ritrýndum íslenskum tímaritum veitt nánast jafn mörg stig og birtingar í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum. Þannig hafa tvær greinar í Læknablaðinu veitt fleiri stig en ein grein í Nature. Það segir sig sjálft að slíkt kerfi veitir ekki góða hvata til hágæðarannsókna.

Í flestum þokkalega góðum háskólum í Bandaríkjunum eru rannsóknir metnar með allt öðrum hætti. Það er alls ekki óalgengt að stig séu eingöngu veitt fyrir greinar í 5 til 10 virtustu tímaritum í hverri grein. Sú krafa er þá gerð að lektorar og dósentar hafi birt ákveðinn fjölda greina í þessum topp tímaritum til þess að þeir fái framgang. Slíkt kerfi væri ef til vill of stórt skref fyrir Háskóla Íslands í fyrstu. En það er ljóst að gera þarf mjög róttækar breytingar á matkerfinu til þess að það veiti kennurum háskólans rétta hvata til þess að vinna að rannsóknum í hæsta gæðaflokki.

Þegar vinna við hið nýja matskerfi heldur áfram vona ég svo sannarlega að stjórnendur Háskólans veigri sér ekki við að gera róttækar breytingar. Ég vona til dæmis að það þurfi alveg reiðinar býsn af greinum í Læknablaðinu og Fjármálatíðindum til þess að vega upp eina grein í Nature eða American Economic Review. Kannski væri líka ekki úr vegi að gera þær kröfur til dósenta að þeir þurfi að hafa birt a.m.k. eina grein í einu af 10 bestu tímaritum síns fags til þess að þeir fái framgang í prófessorstöðu.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.