Tjernobyl

Þann 26.apríl síðastliðinn voru liðin 20 ár síðan kjarnorkuslysið hræðilega varð í kjarnorkuveri í Tjernobyl. Slysið hafði gríðarleg áhrif um allan heim og umpóluðust margar þjóðir í stefnu sinni í orkumálum í kjölfarið. Gæti niðurskrúfuð skýrsla um afleiðingar þessa haft eitthvað með vaxandi orkuþörf þjóða heims að gera?

Þann 26.apríl síðastliðinn voru liðin 20 ár síðan kjarnorkuslysið mikla varð í kjarnorkuveri í Tjernobyl. Sprenging varð í kjarnakljúfi og geysilegt magn geislavirkra úrgangsefna dreifðust í kjölfarið langar leiðir, þó helst yfir Úkraínu og Hvíta-Rússland. Afleiðingar þessa voru vægast sagt hræðilegar, en það sem skilur slys sem þetta frá öðrum slysum er að enn er ekki vitað hversu margir gætu látið lífið af völdum þess.

Slysið hafði gríðarleg áhrif um allan heim og umpóluðust margar þjóðir í stefnu sinni í orkumálum. Snögglega var annað hvort snúið frá eða sett í bið frekari uppbygging í þessum iðnaði sem hafði þá um árabil verið talinn orkuauðlind framtíðarinnar og óheyrilegum fjárhæðum verið varið til rannsókna og uppbyggingar á. Þess má geta að meðalaldur kjarnorkuvera í Evrópu í dag er um 24 ár.

Frá því slysið átti sér stað hafa reglulega borist fregnir af þeim hryllingi sem íbúar nærliggjandi svæða hafa upplifað vegna geislunarinnar. Í máli og myndum hefur verið frá því skýrt hvernig fórnarlömb hafa greinst með hvítblæði og krabbamein og börn hafi fæðst alvarlega vangefin. Svæðið í kringum slysstaðinn er enn afgirt í 30 km radíus. Á svæðum þar fyrir utan býr það fólk enn sem þar bjó áður en hefur ekki ráð á því að flytjast. Engir mega hinsvegar flytja inn á þessi svæði.

Í september síðastliðnum var gefin út skýrsla sem gerð var af fjölmörgum sérfræðingum á vegum ýmissa stofnanna Sameinuðu þjóðanna og stjórnvalda í Rússlandi, Úkraínu og Hvíta-Rússlandi. Í henni er leitast við að leggja mat á raunverulegar afleiðingar slyssins. Framsetning hennar kemur hinsvegar dálítið sérkennilega fyrir sjónir að því leyti að hún virðist lúta að því að gera minna úr afleiðingum slyssins en áður hefur verið gert.

Fram kemur að erfitt sé að meta þann fjölda fólks sem kemur til með að láta lífið af völdum slyssins. Ýmis tölfræði er þá reifuð, og áætlað að aðeins sé um 600 þúsund manns að ræða sem orðið hafi fyrir það mikilli geislun að hættan á því að fá banvænt krabbamein sé tölfræðilega marktæk. Þessu hafa utanaðkomandi sérfræðingar mótmælt harðlega og telja skýrsluhöfunda áætla heldur naumt.

Þá kemur fram að erfitt sé að meta hvaða dauðsföll megi rekja til krabbameins vegna geislunar þar sem að fjórðung dauðsfalla megi hvort sem er rekja til krabbameina. Enn fremur er vikið að því að af þeim 4000 börnum sem fengu krabbamein í skjaldkirtil í kjölfar slyssins, þá hafi 99% tilvika verið læknanleg en þó hafi 15 börn látist vegna þessa.

Kannski er ekkert skrítið að það stingi þegar þessi harmleikur og þær harmasögur fórnarlambanna sem hafa greypt sig í huga fólks í gegnum árin er snyrtilega pakkað inn í tölfræðilegar umbúðir sem virðast dempa og einangra atburðinn.

En skýrslan leiðir líka hugann að umræðunni um hina sívaxandi orkuþörf í heiminum og það hýra auga sem stjórnvöld margra þjóða eru farin að renna til nýtingar kjarnorkunnar að nýju. Þessi aukna þörf og óæskileg áhrif annarra orkugjafa, eins og t.d. gróðurhúsaáhrif hafa ýtt kjarnorku aftur upp á pallborðið.

Pistlahöfundur vill þó ekki ganga svo langt að gefa í skyn að hér sé verið að „lækna“ gögnin, en í heimi þar sem jafnvel virðist mögulegt að fara í stríð á fölskum forsendum, virðist allt mögulegt. Það er því vart hægt að verjast því að velta þessu fyrir sér.

Heimildir og ítarefni:
Skýrsla Chernobyl Forum
Chernobyl childrenNew Scientist
Geislavarnir ríkisins

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.