Mikilvæg málefni

Tveir málaflokkar eru mikilvægir fyrir borgarstjórnarkosningarnar þann 27. maí næstkomandi. Þessir málaflokkar eru aðstæður eldri borgara og fjölskyldumálin.

Málefni eldri borgara eru í talsverðum ólestri. Hver kannast ekki við eldra fólk sem bíður eftir að komast að í þjónustuíbúðum eða eftir hjúkrunarrými? Fólk, sem býr við ákaflega erfiðar aðstæður, hefur ekki lengur getu til að búa heima hjá sér og er háð sínum nánustu um mikla aðstoð til að hlutirnir geti gengið. Af hverju sýnum við ekki eldri borgurum þann sóma að þeir geti elst með reisn, að það sé einfalt mál að fá þá viðbótarþjónustu sem fólk þarfnast þegar aldur færist yfir. Eldri borgurum, fólkið sem hefur heldur betur átt þátt í að við búum í einu hagsælasta landi heims, á ekki að líða eins og það sé baggi á þjóðfélaginu þegar það eldist. Við eigum að sjá sóma okkar í að tryggja að eldri borgarar geti elst með sóma og öll umgjörð utan um þjónustu við þá verði eins og best verður á kosið. Sjálfstæðismenn í Reykjavík ætla meðal annars að byggja 200 þjónustu- og leiguíbúðir fyrir eldri borgara. Einnig verður tryggt að eldri borgarar geti búið eins lengi á eigin heimili og þeir vilja með því að auka og samræma heimaþjónustu og heimahjúkrun.

Í málefnum fjölskyldufólks er af nógu að taka. Einna brýnast er þó að tryggja að foreldrar geti farið út á vinnumarkaðinn við 9 mánaða aldurs barns án án þess að hafa áhyggjur af vistunarúrræðum. Staðan hjá dagforeldrum er skelfileg og nánast vonlaust að koma ungbörnum inn á leikskóla. Því neyðast margir til að fresta því að koma aftur á vinnumarkaðinn fyrr en í fyrsta lagi þegar barnið er 18 mánaða og kemst inn á leikskóla. Ekki er óeðlilegt að í mörgum tilvikum séu það mæðurnar, sem hverfa svo lengi af vinnumarkaðinum, enda er launamunur kynjanna enn þá staðreynd og því arðvænlegra fyrir fjölskyldur að sá aðili sem er með hærri laun sé á vinnumarkaðinum. Hversu eftirsóttur er vinnukraftur sem hverfur frá vinnu í tæp tvö ár af vinnumarkaðinum? Þessi skekkja hlýtur að leiða til enn meira launamunar ef ekkert verður að gert. Það er fróðlegt að þannig sé staðan hjá R-listanum sem svo oft hrósar sér af því að stuðla að jafnrétti, en hér er reyndin aldeilis önnur. Til að bæta ástandið þarf að auka stuðning við dagforeldra, stofna ungbarnadeildir í leikskólum borgarinnar og ekki hvað síst að láta sama fjármagn fylgja barni óháð því hvaða rekstrarform er á leikskólum. Þetta eru einmitt lausnirnar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðað í Reykjavík. Þær „lausnir“, sem heyrst hafa frá fulltrúum R-listans í vetur, eru þær að ekki fáist fólk til umönnunarstarfa þegar góðæri ríkir í þjóðfélaginu

Það er von mín að Sjálfstæðisflokkurinn komist til valda í Reykjavík í vor og jafnframt sannfæring mín að gangi það eftir, verði gerð gangskör í mörgum mikilvægum málefnum, sem setið hafa á hakanum hjá núverandi foystu.

Latest posts by Guðrún Pálína Ólafsdóttir (see all)

Guðrún Pálína Ólafsdóttir skrifar

Guðrún Pálína hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2002.