Hernaðarklám í Hollywood

Fjölmargar kvikmyndir lofsyngja hermennsku, stríðstól og stríðsátök. Með þessu er dregin upp alröng mynd af hörmulegum raunveruleika stríðs. Hinn afbakaði raunveruleiki stríðsbíómynda er studdur af bandarískum heryfirvöldum sem sjá þær sem tækifæri til að koma á framfæri áróðri. Það er dapurlegt að kvikmyndagerðarmenn gerist þátttakendur í þessum leik.

Ríkissjónvarpið endursýndi í gær heimildarmynd um samskipti Hollywood og bandaríska varnarmálaráðuneytsins. Myndin er áhugaverð fyrir þær sakir að í henni kemur fram að bandaríski herinn leggur mikla áherslu á stuðning við kvikmyndir sem sýna herinn og stríðsrekstur í jákvæðu ljósi. Sérfræðingar Bandaríkjahers í áróðursmálum neita hins vegar að aðstoða kvikmyndagerðarmenn nema þeir láti hernum í té handrit af myndinni og séu tilbúnir að semja um breytingar á því.

Stuðningur Bandaríkjahers við kvikmyndaiðnaðinn felst í ýmis konar ráðgjöf og því, sem mestu skiptir, láni á tækjabúnaði og jafnvel herdeildum til myndatöku. Í stórmyndum getur þessi stuðningur skipt umtalsverðu máli enda þarf framleiðandi ella að leggja fram stórfé til þess að verða sér út um tól og tæki. Framleiðendur stórmynda hafa því töluverðan hag af því að láta eftir kröfum hersins um breytingar á handriti. Í heimildarmyndinni var skýrt frá fjölmörgum dæmum um myndir sem bandaríski herinn hafði stutt og aðrar sem herinn hafði ekki áhuga á að styðja. Bandaríski herinn starfaði til að mynda náið með framleiðendum stórmyndanna Top Gun og Pearl Harbor en kom ekki nálægt framleiðslu á Platoon og Apocalypse Now. Enn áhugaverðari voru upplýsingar um stuðning hersins við gerð barnaefnis, svo sem eins og þáttanna um tíkina Lassie.

Sem betur fer hafa fæstir áhorfendur amerískra bíómynda hafa reynslu af þátttöku í stríði. Fyrir vikið er líklegt að amerískar bíómyndir ráði miklu um hugmyndir fólk um hermennsku og stríð og því miður er því líklegt að mjög margir hafi alið með sér miklar ranghugmyndir um stríð og afleiðingar þess. Sennilega hafa þeir sem skráðu sig til þátttöku í bandaríska herinn á síðustu árum margir talið að þeir væru að fá tækifæri til að taka þátt risastórum paint-ball leik eða tölvuleik. Að minnsta kosti hefur bandaríski herinn með augljósum hætti stutt við kvikmyndir sem ala á ranghugmyndum um stríð en sniðið framhjá þeim sem sýna raunsanna mynd. Það er heldur ekki endilega víst að margir Bandaríkjamenn fengjust í herinn ef þeir vissu sannleikann um hvað biði þeirra í raunverulegu stríði.

Þeir sem farið hafa um stríðshrjáð svæði eða talað við fólk sem tekið hefur þátt í stríði vita að dýrðarljóminn sem kvikmyndir varpa á hernað er falskur. Í allri mannkynssögunni hafa yfirvöld gert sér grein fyrir því að til þess að fá fólk til að taka þátt í stríði dugaði lítið að segja sannleikann um eðli stríðs. Fyrir vikið verða til bíómyndir sem eiga jafnmikið skylt við stríð eins og klám á við venjulega samskipti kynjanna.

Samkrull kvikmyndagerðarmanna við hermálayfirvöld er því dapurlegt – en sökudólgurinn í því er þó ekki bandaríski herinn heldur kvikmyndaframleiðendurnir sjálfir sem kjósa að leyfa hernum að breyta listsköpun sinni í áróður. Varla er hægt að álasa bandaríska hernum fyrir að nýta sér þetta veiklyndi „listamannanna“ í Hollywood.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.