Borgarstjórnarkosningar – æsispennandi… en rólegt

Í dag eru 18 dagar til sveitastjórnakosninga. Miðað við skoðanakannanir er staðan í Reykjavík æsispennandi, en þrátt fyrir spennu er alveg með ólíkindum hversu rólegt er yfir þessari kosningabaráttu. Hver hefur frumkvæðið í rólegri kosningabaráttu?

Í dag eru 18 dagar til sveitastjórnakosninga. Miðað við skoðanakannanir er staðan í Reykjavík æsispennandi. Í síðasta Þjóðarpúlsi Gallups frá 1. maí sl. fékk Sjálfstæðisflokkurinn 49% fylgi, fékk 47% mánuði fyrr, Samfylkingin fékk 32% og lækkaði um 4%, Frjálslyndi flokkurinn jók fylgi sitt úr rúmlega 2% í tæplega 5%. Fylgi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs var rúmlega 11% og Framsóknarflokkurinn fékk ríflega 3% líkt og í mánuðnum áður. Samkvæmt þessari könnun fengi Sjálfstæðisflokkurinn 8 borgarfulltrúa og hreinan meirihluta, Samfylkingin fengi 5, VG fengi 2 en aðrir flokkar kæmu ekki að manni.

Niðurstöður þessarar síðustu könnunar gefa það til kynna að baráttan í borginni sé æsispennandi. Ljóst er að bæði Frjálslyndiflokkurinn og Framsóknarflokkurinn muni leggja allt í sölurnar til þess að koma inn einum borgarfulltrúa. En aðalspennan hlýtur þó að snú að því hvort Sjálfstæðisflokknum takist að ná hreinum meirihluta í borginni. Tæpur helmingur atkvæða dugir Sjálfstæðisflokknum til þess að ná þessum meirihluta, en reynslan segir okkur að oftast megi klípa lítillega af fylgi flokksins í könnunum. Sjálfstæðisfólk þarf því að halda nokkuð vel á spöðunum til þess að tryggja sér hreinan meirihluta, en möguleikinn er mjög góður.

En þrátt fyrir spennu á mörgum vígstöðvum er alveg með ólíkindum hversu rólegt er yfir þessari kosningabaráttu. Eins og áður sagði eru ekki nema 18 dagar til kosningar og á þeim tímapunkti í kosningabaráttu eru yfirleitt flestir fjölmiðlar yfirfullir af auglýsingum og allar bréfalúgur og póstkassar að springa úr fagurgalandi glansbæklingum. Nú er allt með ró og spekt, reyndar nokkuð kærkomið.

Ætli samanlögð prófkjörsbarátta flokkanna muni ekki kosta meira en sjálf kosningabaráttan?

Þó er ekki rétt að halda því fram að ekkert sé að gerast í auglýsingamennskunni, við höfum jú auðvitað Framsóknarflokkinn. Blaðaauglýsingar, netauglýsingar, sjónvarpsauglýsingar, skilti um allan bæ og svo auðvitað Hummerinn skrensandi út um allt. Bingi er allstaðar. Frjálslyndiflokkurinn hefur auglýst furðu mikið og í nokkuð langan tíma með blaðaauglýsingum og einnig útvarpsauglýsingum. Samfylkingin hefur nokkuð auglýst í dagblöðum og VG og Sjálfstæðisflokkurinn hafa auglýst álíka lítið.

Segja sumir að Framsóknarflokkurinn hafi frumkvæði í kosningabaráttunni þar sem þeir auglýsi sig best upp og komi þannig sínum málum á framfæri. Málið er nú bara það að fólki finnst gaman að ræða arfavitlaust loforðafyllerý flokksins. Það heitir ekki að hafa frumkvæði.

Í raun má segja að Sjálfstæðisflokknum hafi tekist að ná frumkvæðinu með óvenjulegum hætti, rólegheitum og yfirvegun. Þannig hefur honum tekist að stjórna æsingi og auglýsingamennsku baráttunar. Kosningabarátta flokksins hefur reyndar verið rekin allt kjörtímabilið undir styrkri stjórn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar með tíðum vinnustaðaheimsóknum út um alla borg þar sem þúsundir borgarbúa hafa komist í nálægð við borgarfulltrúa og grasrótarfólk flokksins. Þessi hægláta aðferð virðist vera að skila árangri.

En það er ljóst að spennan á kjördag verður mikil. Eftir upplausn R-listans er mikilvægt fyrir vinstriflokkana í Reykjavík að marka sinn bás. Fyrir þá er því mikið í húfu. Einnig er ljóst að möguleikar Sjálfstæðisflokksins á því að ná hreinum meirihluta eru talsvert miklir, nokkuð sem sumir stjórnmálaspekingar sögðu, fyrir fáeinum árum, að gæti aldrei gerst aftur í Reykjavík.

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.