Ný lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Pistillinn fjallar um frumvarp til nýrra laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Frumvarpið er innleiðing á tilmælum FATF og tilskipun ESB um sama efni.

Viðskiptaráðherra hefur lagt fram frumvarp http://www.althingi.is/altext/132/s/0958.html til nýrra laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem munu leysa af hólmi eldri lög nr. 80/1993 um aðgerðir gegn peningaþvætti.

Hið nýja frumvarp tekur mið af alþjóðlegum skuldbindingum Íslands hvað varðar aðgerðir gegn peningaþvætti. Þegar hið nýja frumvarp verður orðið að lögum má segja að lagaumhverfið hér á landi sé með því besta sem gerist. Lagaramminn hvað varðar aðgerðir gegn þvætti á illa fengnu fé er fyrsta skrefið. Næst þarf að tryggja að lögunum sé fylgt af krafti. Eins og sjá má við einfalda leit í dómavél Hæstaréttar eru þau ekki mörg málin er varða peningaþvætti sem ekki snerta fíkniefnaviðskipti. Ólíklegt verður hins vegar að telja að ekki séu aðilar hér á landi sem þvætta peninga sem eru ávinningur annarra brota en fíkniefnabrota. Í danmörku hefur verið farin sú leið að sett var á fót sérstök deild innan efnahagsbrotadeildar lögreglunnar sem hefur rannsakar þessi brot.

Þessa daganna stendur yfir heimsókn frá FATF (http://www.fatf-gafi.org/) sem er stefnumótandi alþjóðlegur eftirlitsaðila með aðgerðum gegn peningaþvætti stofnaður á G-7 fundi í París 1989. FATF gefur út leiðbeinandi tilmæli um aðgerðir gegn peningaþvætti, tekur út regluverk og eftirfylgni ríkja með aðgerðum gegn peningaþvætti og birtir síðan skýrslur sínar um málefni einstaka ríkja.

Eins og flestum hefur orðið ljóst undanfarna mánuði er orðsporsáhætta íslensks athafnalífs er mikil og vart þarf að fjölyrða um áhrif þess ef Ísland fengi neikvæða niðurstöðu úr þessari úttekt. Það er hins vegar alrangt sem fullyrt var í fjölmiðli einum í norrænu vinaríki að hér væri allt í rjúkandi rúst – alþjóðlegir eftirlitsaðilar væru á leiðinni vegna peningaþvættis! Staðreyndin er sú að FATF skoðar flest ríki heims, þar með talið öll norðurlöndin (sjá skýrslur á heimasíðu) og var ferð þessi skipulögð fyrir löngu síðan. Eftir að FATF hafði kannað aðstæður í Noregi og Danmörku til dæmis. FATF hefur auk þess komið hingað áður.

Nokkrir gallar eru þó á frumvarpi ráðherra. Í fyrsta lagi er undarlegt hvers vegna löggjafinn kýs að skilgreina hugtakið peningaþvætti þrengra í íslenskum lögum en það er skilgreint í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2005/60/EB frá 26. október 2005. Sérstaklega með það í huga að markmið frumvarpsins er að innleiða tilskipunina í íslenskan rétt auk tilmæla FATF. Íslensk fjármálafyrirtæki starfa í mörgum ríkjum Evrópu og þurfa innleiða lagaskyldur þessar á samstæðugrunni.

Að mínu áliti er ákvæði um tilkynningu fjármálafyrirtækja um grun um að það sé notað til að þvætta peninga ekki nægilega skýrt. Um er að ræða undanþágu frá trúnaðarskylduákvæðunum í 58. – 60. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 sem eru að sjálfsögðu meginreglur í starfsemi fjármálafyrirtækja.

Hingað til hefur verið mjög þægilegt að eiga hefðbundin bankaviðskipti hér á landi. Vinnuveitendur hafa getað opnað orlofsreikninga fyrir starfsmenn sína í bönkum, ekkert mál hefur verið fyrir vini og kunningja að stofna bankabækur fyrir nýfædd börn og svo framvegis. Að því er virðist eru engar undanþágur í þessu frumvarpi sem heimili svo auðveld samskipti í framtíðinni. Er þetta enn eitt dæmið um aukin kostnað og meira vesen sem saklausir borgarar verða fyrir vegna hegðan glæpamanna. Þessar reglur eru hins vegar gjald fyrir það að vera þátttakandi á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og aðili að hinu svokallaða samfélagi þjóðanna.

Frumvarpið: http://www.althingi.is/altext/132/s/0958.html

Latest posts by Ásgeir H. Reykfjörð (see all)