Krossfari deyr

Borgarkrossfarinn Jane Jacobs dó þann 25. apríl síðastliðinn, 89 ára að aldri. „The Death and Life of Great American Cities“ frá árinu 1961 breytti hugsun heillar þjóðar.

Jane Jacobs er nafn sem fáir Íslendingar þekkja, en þessi goðsögn í bandarísku þjóðlífi dó á þriðjudaginn síðastliðinn. Jane Jacobs varð fyrst þekkt fyrir það sem í dag er viðurkennt sem eitt mesta tímamótaverk 20. aldarinnar á sviði skipulags og borgarþróunar. „The Death and Life of Great American Cities“ gagnrýndi margar ef ekki allar hliðar þeirrar hugsunar er var ríkjandi í þeim geira upp úr miðri síðustu öld.

Upphafið má rekja til þess tíma Þegar fyrirhugað var að rífa megnið af Greenwich Village, Soho og fleiri hverfum í heimaborg hennar New York til að unnt væri að leggja nýja hraðbraut milli Manhattan Bridge og Holland-ganganna. Jacobs fór að spyrja fyrir hverja framfarir væru í raun og veru og skipulagði öflugt andóf gegn áformunum. Hún hratt síðan af stað öflugri grasrótarhreyfingu sem náði á endanum að forða hverfunum frá þessari eyðileggingu og endaði á því að breyta hugarfari heillar þjóðar og rúmlega það.

Jane Jacobs var aldrei sérmenntuð eða þjálfuð sérstaklega í skipulagi eða arkitektúr. Hún hafði enga háskólagráðu. Þess í stað bjó hún yfir geysilegu innsæi og var fluggáfuð. Þessir eiginleikar gögnuðust henni vel þegar hún skrifaði bókina. Í henni kemur fram sú meginskoðun hennar að borgin sé meira en einfaldir plúsar og mínusar, heldur væri hún lifandi fyrirbæri, full af samskiptum milli ólíkra einstaklinga, kunnugra sem ókunnugra. Samskipti sem síðan sköpuð samlegð í ótal mörgum birtingarformum. Samlegð sem annars gæti aldrei orðið. Þetta væru höfuðeinkenni og styrkleikar stórkostlegra borga og væri meginforsenda fyrir velgengni þeirra.

Hún taldi að hugsun þess tíma réðist beinlínis gegn þessum grunnþætti stórborga Bandaríkjanna og birtist í eyðileggjandi áformum vítt og breytt um landið. Hún aflaði sér nægilegra mikillar vitneskju til að móta öflug gagnrök gegn þeirri fúnksjónalísku hugsun er réðu lögum og lofum í skipulagsgeiranum á þessum tíma. Útkoman var þetta tímamótaverk sem kom út árið 1961.

Skilaboð Jane Jacobs voru oft túlkuð sem hörð félagshyggja og algengt að hún væri stimpluð langt til vinstri. Það var misskilningur og í raun alrangt. Jacobs var fylgjandi markaðshyggju, benti á eyðileggingarmátt úreltra reglugerða, studdi einkavæðingu ýmissa grunnþátta og hafði óbeit á niðurgreiðslupólitík og inngripi yfirvalda, stórum sem smáum. Né heldur var hún sérstaklega til hægri. Í raun velti hún ekki fyrir sér hugmyndafræði. Hún hafði í raun aldrei tíma fyrir slíkt.

Það hefði verið gaman að fá að heyra þau ráð sem Jane Jacobs hefði gefið framkvæmdaglöðum Íslendingum sem sem sjá framfarir fyrst þegar hakinn og skóflan eru komin á loft. Í hverju felast raunveruleg verðmæti? Í hverju felst lykillinn að góðri borg? Hvernig sköpum við samskiptin? Hver er uppskrift að samlegð? Hvernig verður borg að stórkostlegri borg?

Því miður verður Jane Jacobs ekki til svara upp úr þessu. En svaranna má finna við lestur þessarar merku bókar og eru sem flestir – sem áhuga hafa á að leita þeirra – hvattir til að lesa hana.

Umfjöllun Toronto Star um Jane Jacobs

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.