Hvað má bjóða þér?

Íslendingar hafa lengi stært sig af heilbrigðiskerfinu. Hér höfum við góða lækna, besta hjúkrunarfólkið og aðstoðarfólk sem leitun er að. Umræðan um bætta heilbrigðisþjónustu hefur lengst af snúið að tæknimálum. Einn þáttur sem oft vill gleymast í umræðum um kröfur í heilbrigðisþjónustu, en sá er skiptir ekki minnstu máli, eru réttindi og kröfur sjúklinga enda eru þessir þættir oft virtir að vettugi.

Íslendingar hafa lengi stært sig af heilbrigðiskerfinu. Hér höfum við góða lækna, besta hjúkrunarfólkið og aðstoðarfólk sem leitun sé að. Umræðan um bætta heilbrigðisþjónustu hefur lengst af snúið að tæknimálun. Hve há-tæknilegt sjúkrahúsið eigi að vera, hvaða tækjabúnað vanti, hvaða lyf séu notuð og hve há-menntað starfsfólkið sé. Enda hafa þessir þættir þurft að vera í toppstandi til þess að heilbrigðismál teljist í góðu horfi hér í landi. Einn þáttur sem oft vill gleymast í umræðum um kröfur í heilbrigðisþjónustu, en sá sem skiptir ekki minnstu máli, eru réttindi og kröfur sjúklinga enda eru þessir þættir oft virtir að vettugi.

Þegar persóna er lögð inn á spítala breytist hún oft úr manneskju í sjúkling. Manneskjan er vön því að geta valið sér hvað hún vilji borða, hvernig fötum hún klæðist og hverjum hún kýs að eyða nóttinni með. Þegar á sjúkrastofnun er komið er þetta val ekki lengur til staðar.

Sjúklingurinn er klæddur í alklæðnað úr handklæðaefni, rækilega merktur, svo allir geri sér grein fyrir að þarna fer sjúklingur.

Sjúklingurinn getur ekki valið úr fjölbreyttum matseðli sem hentar matarlyst hans þann daginn. Hann skal snæða matinn sem allir aðrir sjúklingar skulu snæða. Tryggja skal hagkvæmni og einsleitni til að spara íslenska ríkinu fjármuni. Valfrelsi þýðir aukið álag. Utan veggja sjúkrahússins getum við, manneskjurnar, ákveðið að kaupa okkur humar í hádegismat í stað þess að borða hafragraut. Innan veggja sjúkrahússins skulum við öll eins. Við skulum öll vera jöfn.

Á sjúkrahúsinu þurfa fullorðnar manneskjur, oft í fyrsta sinn síðan í barnæsku, að deila herbergi með öðrum ókunnugum sjúklingi. Rétturinn til einkalífs er ekki til staðar. Við erum verkefni heilbrigðiskerfisins sem þarf að leysa úr svo við getum breyst í manneskjur aftur. Þó sjúklingurinn í næsta rúmi hrjóti, tali upp úr svefni og fái símtöl á nóttinni, geta sjúklingar ekki gert eins og manneskjur á ferðalagi. Keypt sér einstaklingsherbergi með sturtu.

Þó svo íslenskt heilbrigðisstarfsfólk geri hvað það getur til að láta sjúklingum líða vel á þessu erfiða skeiði í lífi þeirra og viðhorfskannanir sýni að íslenskir sjúklingar séu ánægðir með þjónustuna er líkt og ákveðin tímaskekkja sé á ferð .

Þeir sem vilja, eiga að geta eytt þeim tíma sem veikindin herja á, í góðu yfirlæti. Sjúklingar eiga að upplifa sömu réttindi og búa við sama valfrelsi, innan sem utan veggja sjúkrahúsa.

Sjúklingar verða oft svangir utan matmálstíma og í dag er oft eina lausnin sælgætissjálfsalar á göngum spítalans. Hvernig væri að á sjúkrahúsum landsins gætu sjúklingar pantað sér mat allan sólarhringinn og greitt það úr eigin vasa? Að við komu sé afhentur matseðill og sjúklingar velji hvað þeir borði. Eldhús spítalans væri opið allan sólarhringinn. Áfram væri boðið upp á sjúkrahúsfæði samkvæmt föstum matseðli. Þjónustuauki væri í boði fyrir þá sem vildu. Þessu mætti auðveldlega koma á með samningi við einkaaðila. Slíkt hefur verið reynt erlendis og gefist vel.

Þrátt fyrir að valfrelsi verður tryggt mun grunnþjónusta spítalanna einnig vera tryggð fyrir þá sem á þurfa að halda. Sá sparnaður sem felst í því að þeir sem það kjósa greiði fyrir mat innan veggja spítalans má nýta til bættrar þjónustu fyrir þá sem minna hafa á milli handanna. Hagur allra batnar.

Svo má í raun ganga skrefinu lengra og spyrja spurningarinnar; Á allt að vera ókeypis? Af hverju er öll þjónusta sem boðin er á sjúkrahúsum ókeypis? Hvernig stendur á því að aðili þurfi að greiða fæðiskostnað alls staðar nema á spítölum? Ekkert mælir í raun á móti því að sjúklingar greiði fyrir þann mat sem þeir borða á spítölum. Enda er það í takt við aðra gjaldtöku á þjónustustofnunum. Þannig má auka gæði á sjúkrahúsum, hagræðing næst sem síðan gæti stuðlað að bættri þjónustu á öðrum sviðum innan veggja spítalans.

Eru sjúkrahús samtímans tímaskekkja? Er ekki verið að skerða þjónustu og gæði spítalanna með því að fjármagna alla þætti spítalaþjónustunnar úr almannasjóðum. Er ekki vænlegri kostur að ríkið fjármagni þann þátt sem snýr að því að lækna sjúklinginn en sjúklingum sé boðið upp á þjónustuauka, sem þeir greiða sjálfir á meðan spítaladvöl stendur til að auka valfrelsi og vellíðan sjúklings. Samhliða auknum kröfum sjúklinga er ljóst að á meðan ríkið fjármagnar að öllu leiti kostnað við uppihald sjúklinga mun það koma niður á lækningarþætti þjónustunnar. Auknar kröfur þýða aukinn kostnað. Einhversstaðar verður að skera niður. Leyfum ríkinu að greiða fyrir lækninguna, við skulum ráða hvernig við viljum verja þeim tíma sem lækningin tekur.

Latest posts by Helga Kristín Auðunsdóttir (see all)

Helga Kristín Auðunsdóttir skrifar

Helga Kristín hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2004.