Við, þau og loftslagsbreytingar

Ég kom nýlega frá Bangladesh, þar sem ég hef búið síðustu 8 mánuði. Að koma aftur heim — þar sem Land Cruiserar keyra á tandurhreinum götum og bjórinn kostar meira en vikulaun margra í Bangladesh…

Ég kom nýlega frá Bangladesh, þar sem ég hef búið síðustu 8 mánuði. Að koma aftur heim — þar sem Land Cruiserar keyra á tandurhreinum götum og bjórinn kostar meira en vikulaun margra í Bangladesh — er eins og að koma á aðra plánetu. Hvernig ætli þróunin verði þar á næstu áratugum? Og hvað með loftslagsbreytingar?

Landið er meðal allra fátækustu ríkja heims. Með 150 milljón manns á landsvæði á stærð við tæplega eitt og hálft Ísland er það líka það þéttbýlasta (fyrir utan nokkur smáríki) með 1100 manns á hvern ferkílómeter (miðað við þrjá Íslendinga). Síðasta áratuginn hefur hagvöxtur verið mjög heilbrigð 5% á ári. Það er þó margt sem gæti slegið á þær framfarir.

Í fyrsta lagi er stjórmálaástandið mjög óljóst. Ég skrifaði hér á Deigluna um daginn um yfirvofandi kosningar í janúar; þær hafa enn ekki verið haldnar og við völd er neyðarstjórn leidd af fyrrverandi seðlabankastjóra landsins með samþykki hersins. Flestir telja ólíklegt að kosningar verði haldnar fyrr en í lok næsta árs. Almenningur í landinu er tiltölulega sáttur við stjórnina, enda er hún á margan hátt mikil framför frá fyrri stjórnum, en það er óvíst hve lengi það heldur án lýðræðislegs umboðs.

Í öðru lagi virðist lítið lát vera á fólksfjölgun, en því er spáð að fólksfjöldinn í landinu aukist um 100 milljónir á næstu 50 árum. Þetta gæti þýtt að yfir 1800 íbúar verði fyrir hvern ferkílómeter enda ekki er gert ráð fyrir að landsvæði landsins stækki og í rauninni er gert ráð fyrir að það minnki, en það tengist mögulegum umhverfisbreytingum.

Bangladesh er meðal þeirra landa sem gert er ráð fyrir að verði fyrir hvað mestum neikvæðum áhrifum af umhverfisbreytingum vegna hækkandi hitastigs jarðar. Samkvæmt Stern skýrslunni er mögulegt að 20% af landinu fari undir vatn ef sjávarmál hækkar um 1 meter, sem er ekki ólíklegt samkvæmt spám um hækkandi hitastig. Alþjóðabankinn metur að slíkt gæti minnkað hrísgrjónaframleiðslu um 30%. Auk þess er gert ráð fyrir að bráðnun jökla í Himalaya fjöllum valdi fyrst miklum flóðum og síðan þurrkum, sem gæti minnkað matvælaframleiðslu enn frekar. Ef þetta verður raunin er óljóst hvort þéttleiki byggðar fari yfir 2000 íbúa á ferkílómeter, hvort niðurstaðan verði hungursneið eða hvort tugir milljóna flóttamanna flæði yfir nálæg ríki.

Indland er nú þegar að byggja vegg á landamærum ríkjanna sem sagður er nálgast Kínamúrinn í stærð.

Samkvæmt Stern skýrslunni um áhrif loftslagsbreytinga og nýjum skýrslum IPCC (International Panel on Climate Change) er ljóst að hækkun hitastigs jarðar er og mun verða af manna völdum, og felur mögulega í sér miklar og kosnaðarsamar breytingar sem nauðsynlegt er að bregðast við. Á Íslandi er auðvelt að leiða hjá sér hættuna við hækkandi hitastig. Fæstir hefðu eithvað á móti örlítið heitari dögum á Íslandi, auk þess sem Stern skýrslan gerir ráð fyrir ýmiss konar ábata af takmörkuðum hækkunum (1 – 3 gráður) fyrir norðlæg ríki svo sem aukin framleiðsla í landbúnaði, hraðari uppbygging skóglendis og aukinn ferðamannaiðnaður.

Skilaboð kjósenda í kosningunum í síðasta mánuði voru kannski helst tvenn: Áframhaldandi efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokksins og aukin áhersla á umhverfisvernd. Umræðan hérlendis hefur helst snúist um virkjanaframkvæmdir, enda mikilvægt að við varðveitum sem best okkar eigin náttúruauðlindir. En það er einnig mikilvægt að við séum í fararbroddi fyrir alþjóðlega náttúruvernd, bæði með umhverfisvænni stefnumótun og sem ábyrgir neytendur.

Það hljómar dramatískt að segja að við á vesturlöndum séum að menga í burt landsvæði af tugum eða hundruðum milljóna bænda í þróunarlöndunum. En staðreyndirnar, eins og þær koma fram í Stern og IPCC skýrslunum, sýna að það er kominn tími á svolitla dramatík.

Latest posts by Snæbjörn Gunnsteinsson (see all)