Algjört bann er brot á stjórnarskrá

Hæstiréttur hefur nýlega staðfest að Alþingi hafi gengið of langt í að banna að hafa tóbak til sýnis í ákveðnum verslunum. Bannið braut gegn tjáningar- og atvinnufrelsisákvæðum stjórnarskrárinnar. Spurningin er hvort Alþingi muni draga af þessu einhvern lærdóm eða munu þingmenn falla aftur í sömu gryfju og samþykkja frumvarp um algjört reykingarbann á opinberum stöðum.

Þegar mistök eru gerð er eina vitið að læra af þeim og reyna að koma í veg fyrir að þau endurtaki sig. Þannig er batnandi mönnum best að lifa. Það sama á við um alþingismenn. Hæstiréttur úrskurðaði um daginn að Alþingi hafi gert mistök með því að banna kaupmönnum sérverslana að hafa tóbak til sýnis í búðarhillum. Með banninu hafi Alþingi nefnilega brotið gegn stjórnarskrá lýðveldisins. Það eru leiðinda mistök. Ljóst er að breyta þarf ákvæði tóbaksvarnalaga því þau eru andstæð stjórnarskránni. En það þarf líka að læra af þessum mistökum og passa það að þau endurtaki sig ekki.

Hæstiréttur sagði að algjört bann við því að hafa tóbak til sýnis á sölustöðum væri brot á tjáningar- og atvinnufrelsisákvæðum stjórnarskrárinnar. Lesa má úr dómunum að setja megi tjáningarfrelsinu og atvinnufrelsinu takmörk en þau verða að vera málefnaleg og í þágu almannahagsmuna. Engin rök væru með því að meina sérverslunum með tóbak að sýna vöru sína, sérstaklega þar sem viðskiptavinurinn væri í þeim erindagjörðum að kaupa tóbak. Almannahagsmunarök ættu ekki við í slíkum tilfellum enda tóbak löglegur varningur. En jafnframt er ljóst af forsendum dómsins að Alþingi er heimilt að takmarka aðgengi að tóbaki því tóbak mun vera skaðleg vara. Þannig er líklega áfram heimilt að banna sýningu tóbaks í almennum verslunum, m.a. vegna þess að þar geta börn verið í löglegum erindagjörðum, og bann við auglýsingum á tóbaki stangast ekki á við tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Það breytir því ekki að sú regla er arfavitlaus en það er önnur saga.

Lærdómurinn sem draga má af niðurstöðu Hæstaréttar er í stuttu máli sá að heimilt er að takmarka aðgengi almennings að tóbaki en það má bara ekki ganga of langt. Sem betur fer veitir stjórnarskráin frelsi fólks örlitla vörn gegn forræðishyggjunni. En mun Alþingi draga af þessu einhvern lærdóm? Á þingi liggur fyrir frumvarp um að banna reykingar á öllum opinberum stöðum, þ.m.t. veitingarstöðum og öðrum ölstofum. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að þetta bann verið algjört. Engar undantekningar leyfðar, ekkert óvígt bjarg skilið eftir handa hinum vondu. Það blasir við að þetta frumvarp gengur of langt í að skerða eignarétt manna og athafnafrelsi. Það eru engin almannahagsmunarök fyrir því að banna reykingar á stöðum þar sem fólk kemur saman í þeim erindagjörðum að reykja. Rétt eins og það er ótækt að banna sölu áfengis á ölstofum þar sem fólk kemur til þess að neyta áfengis. Tóbak er, eins og áfengi, löglegur varningur. Það getur vel verið að það sé málefnalegt að takmarka reykingar á almenningsstöðum en það er ómálefnalegt að hafa bannið algjört og ná til sértækra staða á borð við öldurhús. Það hefur Hæstiréttur staðfest.

Það er vonandi að alþingismenn læri af þeim mistökum sem þeir hafa gert og breyti ekki tóbaksvarnarlögum þannig að þau stangist á við stjórnarskrá, enn og aftur.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.