Ítalía í vondum málum?

Ítalir hafa kosið vinstribandalag Romano Prodi fram yfir hægribandalag Silvio Berlusconi til þess að leiða ríkisstjórn sína næstu fimm árin. Báðir voru kostirnir afleitir og munurinn ekki nema 0,1% eftir að úrslitin lágu fyrir. Efnahagsleg framtíð landsins virðist ekki björt.

Nýafstaðnar kosningar á Ítalíu skiluðu 0,1% mun milli hægribandalags Silvio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu og vinstribandalags Romano Prodi. Berlusconi er eini forsætisráðherra landsins sem hefur haldið út heilt kjörtímabil frá síðari heimsstyrjöld en bæði hann og Prodi eru sagðir afleitir leiðtogar fyrir Ítalíu.

The Economist fer ekki í grafgötur með álit sitt á Silvio Berlusconi. Í síðasta hefti blaðsins fyrir kosningarnar sögðu þeir á forsíðu sinni: “Time for Italy to Sack Berlusconi.” Inni í blaðinu mátti sjá leiðara þar sem forsætisráðherranum var fundið allt til foráttu og rækilega farið yfir hve spilltur ferill hans hafði verið.

Leiðarahöfundar The Economist telja Berlusconi algerlega vanhæfann til þess að leiða Ítalíu og byggja álit sitt á tveimur meginástæðum. Annars vegar voru það þeir hagsmunaárekstrar sem lágu í því að hann ætti sjónvarpsstöðina Mediaset, eina af þremur einkasjónvarpstöðvum á Ítalíu. Hins vegar var það hið mikla öngþveiti sem skapaðist í kringum hann vegna lögreglurannsóknar gegn honum og samstarfsmönnum hans.

Ætluð afbrot Berlusconi voru fjölmörg, allt frá peningaþvætti og viðskiptum við mafíuna til falsaðra reikningsskila og mútun dómara. Niðurstaða The Economist var sú að enginn athafnamaður með slíkan bakgrunn gæti verið hæfur til þess að leiða eitt af ríkustu lýðveldum heimsins.

Að mati leiðarahöfunda gaf valdaferill Berlusconi nýjar og enn betri ástæður fyrir því að hann ætti ekki að eiga afturkvæmt í stjórnmálin, allra síst sem leiðtogi þjóðarinnar.

Það þarf ekki að koma á óvart að skattsvik og spilling á Ítalíu hafa aukist til muna síðustu fimm árin. Það sem meira er að í dag ræður Berlusconi beint eða óbeint yfir um 90% allra ljósvakamiðla á Ítalíu. Þetta eru aðstæður sem ekkert lýðræðisríki ætti að sætta sig við.

Árið 2001 voru þessar staðreyndir kjósendum á Ítalíu ljósar. Samt sem áður ákváðu þeir að styðja Berlusconi en þó af allt annarri og merkilegri ástæðu. Þeir vonuðust til þess að hann myndi beita þeirri viðskiptaþekkingu sem gerði hann ríkan til þess að gera umbætur í þeirra veika hagkerfi og gera þegnana þar með ríkari á sama hátt.

Hvað þetta varðar verður að segjast eins og er að ríkisstjórn Berlusconi mistókst gjörsamlega. Hagkerfi Ítalíu vex nú hægast af stóru Evrópuríkjunum. Laun fara hækkandi á sama tíma og framleiðni stendur í stað. Þegar gengisfelling er ekki lengur kostur þar sem Ítalía er aðili að myntbandalagi Evrópu þá tapa ítölsk fyrirtæki samkeppnisstöðu sinni sífellt hraðar.

En þar sem ríkisstjórn Berlusconis brást Ítalíu raunverulega var að koma ekki af stað umbótum í hagkerfinu. Niðurstaða þessarar fimm ára valdatíðar Berlusconis er sú að hann er ekki og verður aldrei sá stórtæki umbótasinni sem Ítalía þarf nauðsynlega á að halda.

Nú stendur Ítalía frammi fyrir breyttum aðstæðum og draga má í efa að andstæðingur Berlusconi, Romano Prodi verði nokkru betri. Hann áttar sig vissulega betur en Berlusconi á nauðsyn þess að gera breytingar á Ítalíu. Til marks um það þá neitaði Berlusconi því í sífellu á meðan á kostningabaráttunni stóð að Ítalía þyrfti að gera einhverjar breytingar á hagkerfinu. Jafnframt gerði Prodi heiðarlega tilraun til þess að hefja umbætur þegar hann var forsætisráðherra frá 1996 – 98 og hann kom landinu einnig inn í myntbandalagið, sem þó gætu hafa verið mistök í ljósi núverandi aðstæðna.

Það er ljóst að ekki var um auðugan garð að gresja í þessum kosningum. Báðir voru kostirnir komnir yfir síðasta söludag, úr sér gengnir pólitíkusar með annan fótinn í gröfinni. Hvorugur hafði gert góða hluti í sinni valdatíð og að mínu mati er ekki að sjá fram á miklar breytingar á Ítalíu á næstu misserum.

Það sem þjóðin þarf er nýtt og ferskt blóð. Nýjan leiðtoga, óhræddan við að gera efnahagslegar umbætur, óspilltan með langan líftíma fyrir höndum á ítalska þinginu. Framundan er fimm ára kjörtímabil en eins og fyrr segir er Berlusconi sá eini sem hefur haldið út þessi fimm ár frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Ef Prodi spýtir ekki í lófana og fer að gera verulegar umbætur má sannarlega segja að Ítalía sé í vondum málum.

Heimild: The Economist. Apríl 2006.

Kristín María Birgisdóttir
Latest posts by Kristín María Birgisdóttir (see all)

Kristín María Birgisdóttir skrifar

Kristín María hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.