Bandaríkin og lýðræðisþróun í Mið-Austurlöndum

Bakslag hefur orðið í lýðræðisþróun Mið-Austurlanda með uppgangi pólitískra hreyfinga íslamista að undanförnu. Eins og réttilega er viðurkennt í nýútkominni þjóðaröryggisáætlun (e. national security strategy 2006) Bandaríkjastjórnar, eru kosningar einar og sér ekki nægilegar ef stefna Bush um útbreiðslu lýðræðis í Mið-Austurlöndum á að ganga eftir.

Í kjölfar hryðjuverkaárásanna 11. september 2001 tók utanríkisstefna Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum grundvallarbreytingum. Margra áratuga utanríkisstefna Bandaríkjanna (og annarra Vesturvelda) í Mið-Austurlöndum sem byggði á því að eiga í nánum samskiptum við einræðisstjórnir þessa heimshluta, svo lengi sem þær voru reiðubúnar að selja olíu á viðráðanlegu verði, vera strategískir bandamenn Bandaríkjanna og ógna ekki valdajafnvægi svæðisins, þurfti að taka breytingum. Í stað þess að tryggja mikilvæga hagsmuni Bandaríkjanna á svæðinu með því að viðhalda óbreyttu ástandi og pólitískum stöðugleika, ákvað Bush stjórnin því að róttækar lýðræðisumbætur í Mið-Austurlöndum væru nauðsynlegar til að tryggja öryggi Bandaríkjanna. Og þessi stefna, þ.e. að Bandaríkin eigi að breiða út lýðræði í Mið-Austurlöndum, er því ekki einvörðungu spurning um hugsjón, heldur um leið stefna til að vinna bug á hryðjuverkaógninni til lengri tíma litið og tryggja öryggi Bandaríkjanna.

Þessi viðleitni Bush stjórnarinnar að lýðræðisvæða Mið-Austurlönd, hefur heldur ekki aðeins verið sú hefðbundna leið þar sem reynt er að þrýsta á efnahagslegar- og pólitískar umbætur í viðkomandi löndum; að beita hervaldi getur sömuleiðis verið réttlætanlegt í þessum tilgangi eins og gert var með innrásinni í Írak. Og þegar búið var að koma Saddam Hussein frá völdum í Írak, átti stöðugt og lýðræðislegt Írak að hrynda af stað umbótum í öðrum ríkjum Mið-Austurlanda í átt til lýðræðis – að minnsta kosti samkvæmt hugmyndafræðinni.

Fyrir rétt rúmu ári síðan virtist svokölluð lýðræðisbylting Bush stjórnarinnar í Mið-Austurlöndum vera farin að skila einhverjum árangri; þingkosningar voru haldnar í Írak sem almennt þóttu vel heppnaðar, ósviknar forsetakosningar fóru fram í Palestínu, tugþúsundir líbanskra ungmenna mótmæltu á götum Beirút og kröfðust lýðræðisumbóta og brotthvarfs Sýrlendinga, auk þess sem einvaldur Egyptalands til 24 ára, Hosni Mubarak, tilkynnti að hann myndi leyfa mótframboð gegn sér síðar á árinu, þó gegn ákveðnum skilyrðum. Og jafnvel stjórnvöld í Sádi-Arabíu tilkynntu að þau myndu leyfa einstaklingsframboð til sveitastjórnarkosninga. Fyrir Bandaríkjastjórn á þessum tíma var augljóst hvað var að eiga sér stað víða í Mið-Austurlöndum; þrotlaus barátta Bandaríkjanna fyrir lýðræðisumbótum á svæðinu var farin að skila áþreifanlegum árangri. Sumir gengu meira að segja svo langt að líkja áhrifunum af þingkosningunum í Írak við falli Berlínarmúrsins í október árið 1989.

Í um margt mjög merkilegri ræðu sem Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hélt sl. sumar í Ameríska háskólanum í Kairó, undirstrikaði hún þar hversu mikla áherslu núverandi Bandaríkjastjórn legði á útbreiðslu lýðræðis í utanríkisstefnu sinni. Rice sagði m.a. að í „sextíu ár hafa Bandaríkin sóst eftir stöðugleika á kostnað lýðræðis í Mið-Austurlöndum – og við höfum fengið hvorugt. Núna förum við aðra leið. Við veitum öllu fólki stuðning sem sækist eftir lýðræði.“

Um þessar mundir virðist aftur á móti vera komið verulegt bakslag í lýðræðisþróun Mið-Austurlanda. Í stað þess að stjórnmálasamtök pólitískra íslamista séu á undanhaldi í Mið-Austurlöndum, hafa þau þvert á móti verið að styrkjast. Nýlegar þingkosningar í Írak virðast hafa leitt til valda íhaldssama og öfgafulla trúarlega flokka sem hafa yfir að ráða sínum eigin herum; hryðjuverkasamtökin Hizbullah í Líbanon hafa verið að eflast; bræðralag Múslima í Egyptalandi, sem er eitt af elstu bókstafstrúarsamtökunum í Arabaheiminum, hefur styrkst; Íranar kusu harðlínumanninn Mahmoud Ahmadinejad sem forseta á meðan Hashemi Rafsanjani, sem talaði mest fyrir bættum samskiptum við Vesturlönd af öllum frambjóðendunum, lenti í síðasta sæti. Og það sem gerði síðan útslagið voru þingkosningar í Palestínu síðasta janúar þar sem hin herskáu Hamas samtök unnu ótvíræðan sigur og fengu hreinan meirihluta á þingi.

Í ljósi þessarar þróunar er áhugavert að skoða hvernig umræðan hefur breyst í Bandaríkjunum á meðal sérfræðinga um alþjóðastjórnmál. Nú þegar hafa birst margar greinar og bækur frá fræðimönnum sem hvetja Bandaríkjastjórn að snúa aftur til raunsærrar (e. realism) utanríkisstefnu í Mið-Austurlöndum (langflestir raunsæismenn voru t.d. á móti innrásinni í Írak – fyrir utan Henry Kissinger). Innrásin í Írak, sem var skelfilega misráðin og er ein helsta orsök þess að Íransstjórn hefur ákveðið að koma sér upp kjarnorkuvopnum, ásamt uppgangi pólitískra íslamista á svæðinu, sýnir hversu barnaleg stefna Bush stjórnarinnar er, segja raunsæismennirnir.

Stephen M. Walt, stjórnmálafræðiprófessor við Harvard og þekktur raunsæismaður, segir í greininni „In the national interest: A new grand strategy for american foreign policy“ sem birtist á síðasta ári í Boston Review, að Bandaríkin eigi að hverfa aftur til þeirrar utanríkisstefnu sem þau fylgdu á tímum kalda stríðsins í Mið-Austurlöndum: „Bandaríkin fylgdu árangursríkri stefnu allt frá árinu 1945 og fram til tíunda áratugarins – og hún er enn í dag rétta stefnan.“ Og fyrrverandi öryggisráðgjafi Bandaríkjanna í ríkisstjórn Bush eldri, Brent Scowcroft, á að hafa sagt við Condoleezzu Rice að stuðningur Bandaríkjanna við einræðisstjórnir í Mið-Austurlöndum í meira en fimmtíu ár, hafi um leið tryggt Bandaríkjunum fimmtíu ára frið. Þau hafa ekki hitt hvort annað síðan hann lét þessi ummæli falla.

Vald Bandaríkjanna til að gerbreyta stjórnarháttum í átt til lýðræðis á svæðinu er mun takmarkaðra heldur en Bush stjórnin gerði sér í upphafi grein fyrir. Umskipti frá einræðisstjórnarháttum í átt til lýðræðis hafa aldrei í sögunni verið auðveld og Mið-Austurlönd munu þar ekki vera nein undantekning. Og þrátt fyrir að rótgróin lýðræðisríki fari mjög ólíklega í stríð við önnur lýðræðisríki, þá eru ung og óþroskuð lýðræðisríki oft mjög herská, eins og Edward Mansfield og Jack Snyder halda fram í nýrri bók, Electing to Fight: Why Emerging Democracies Go to War.

Bandaríkin ættu að huga betur að þeim ráðleggingum sem Fareed Zakaria gefur í hinni frábæru bók The future of freedom: Illiberal democracy at home and abroad. Í stuttu máli þá bendir Zakaria þar á að lýðræði og frjálslynd stjórnskipan sé ekki hið sama; lýðræði er sú leið sem farin er við myndun ríkisstjórna í frjálsum og sanngjörnum kosningum; frjálslynd stjórnskipan snýst aftur á móti um takmarkanir á völdum ríkisins.

Það tók Vesturlönd langan tíma að sameina þetta tvennt og koma á fót því stjórnarfari sem við þekkjum í dag. Og þessi leið, heldur Zakaria fram, á að vera sú fyrirmynd þegar verið er að reyna að koma á fót nýjum lýðræðisríkjum í heiminum, líkt og Bandaríkjastjórn er að gera um þessar mundir í Mið-Austurlöndum. Snögg umskipti í þeim löndum sem hafa hingað til búið við einræðisstjórnarfar í átt til lýðræðislegs stjórnarfars geti verið varasöm. Í stað þess að einblína á að halda kosningar sem fyrst í slíkum löndum, eigi fremur að leggja áherslu á undirstöður réttarríkisins og markaðshagkerfisins. Og það þurfa að vera til staðar stofnanir sem tryggja réttindi og frelsi einstaklinganna áður en kosningar eru haldnar, svo að niðurstaðan verði stöðugt lýðræðisríki.

Síðustu mánuðir í Mið-Austurlöndum hafa varpað ljósi á einmitt þetta; útbreiðsla lýðræðis og útbreiðsla frelsis eru tvö aðskilin verkefni. Og hið síðara – þ.e. pólitískt, efnahagslegt og félagslegt frelsi – er jafnvel mikilvægara ef Bandaríkin vilja að útkoman í lýðræðislegum kosningum verði ekki á sömu leið og þau hafa orðið vitni að á síðustu mánuðum.