Hetjuleg barátta fyrir atvinnuleysi

Frökkum finnst skemmtilegt að mótmæla og þeim finnst leiðinlegt að vera reknir úr vinnunni. Mótmæli stúdenta gegn hugmyndum ríkisstjórnarinnar um örlítinn sveigjanleika á vinnumarkaði virðast ætla að lukkast – enda ganga mótmæli í Frakklandi jafnan best þegar þau beinast að sem skynsamlegustum hugmyndum.

\“Samningur sem leyfir þrælahald\“ segir um tillögur ríkisstjórnarinnar á þessu spjaldi. Eins og sjá má á mótmælendum er málið grafalvarlegt.

Franskir háskólastúdentar eru á góðri leið með að fella franska forsætisráðherrann úr starfi. Ástæðan er sú að honum datt í hug að gera ungu fólki auðveldara að ná sér í vinnu gegn því að vinnuveitendur mættu reka þá umsvifalaust ef þeir ekki standa sig eða ef ekki er not fyrir þá. Í landi þar sem næstum fjórðungur ungs fólks er atvinnulaus og tíundi hver vinnufær maður situr auðum höndum er magnað að sjá viðtökurnar við tiltölulega rökréttum aðgerðum á borð við þær sem de Villepin forsætisráðherra stingur upp á.

Frakkar eru manna duglegastir við mótmæli og mæta margir samviskusamlega út á götur nánast vikulega til að mótmæla. Gjarnan vita fæstir mótmælendanna hverju í raun er verið að mótmæla enda er það stemmningin, frekar en málefnið, sem dregur fjöldann að. Venjulega má þó slá því sæmilega föstu að mótmælin snúist gegn alþjóðavæðingunni, kapítalismanum eða einhverjum öðrum synsamlegum framfaramálum.

Tillögur frönsku ríkisstjórnarinnar um að auka frelsi vinnuveitenda til að ráða og reka starfsfólk ná aðeins til mjög þröngs hóps vinnufærra manna; þeirra sem ekki hafa náð 26 ára aldri. Það er því nokkuð sérstakt að það skuli einmitt vera háskólafólk sem stendur í mótmælunum. Það er einmitt ómenntað fólk sem lögin koma til með að varða – ekki síst hinum atvinnulausu íbúum í verri hverfum stórborganna sem í örvæntingu sinni efndu til ofbeldisfullra mótmæla sl. haust.

Svo virðist sem franskir háskólamenn styðji heilshugar við nemendur sína í þeim glórulausu mótmælum sem nú standa yfir. Franska háskólastéttin virðist sameinuð vilja standa vörð um það kerfi, sem nú heldur tíu prósent vinnuaflsins og fjórðungi vinnufúsra ungmenna, utan launaðra starfa. Þetta er vitaskuld ástand sem allir eru sammála um að vilja breyta en svo virðist sem lausnin í hugum hins mótmælaglaða Frakka sé aðeins ein. Og hver er hún? Jú – sú sama og venjulega – að ríkisstjórnin taki sig saman í andlitinu og sjái til þess að fólk fái vinnu.

Þessar hugmyndir eru náttúrlega mjög skynsamlegar í þeim heimi sem franskir háskólastúdentar og kennarar þeirra lifa í. Og hvaða heimur er það? Jú það er heimurinn þar sem Frakkland er algjörlega óháð því sem gerist í umheiminum, draumaland vinnuveitenda sem maka krókinn af arðráni sínu á verkafólki sem á sér enga vörn – og heimurinn þar sem það er betra að fá enga vinnu heldur en að eiga á hættu að vera fyrirvaralítið sagt upp.

En fyrst og fremst er það auðvitað heimurinn þar sem menn hittast og mótmæla í hverri viku og happaglapp ræður því hvaða mál hljóta undirtektir í samfélaginu. Úrbæturnar í atvinnumálum sem franska ríkisstjórnin er að reyna að keyra í gegn voru óheppnar að þessu leyti. Því fólki finnst þeim mun meira gaman að mótmæla eftir því sem fleiri taka þátt – og þarna hittu stúdentarnir mótmælaglöðu á málefni sem hitti í mark.

Mótmælahefðin í Frakklandi á rætur sínar að rekja til vel heppnaðra uppreisna gegn ógnarstjórnum á síð-miðöldum. Mótmælendurnir í háskólum Frakklands telja sig eflaust verðuga arftaka þeirra sem þá börðust hetjulega gegn óréttlæti – jafnvel þótt þeir séu sjálfir að heyja bjánalega baráttu gegn skynsemi.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.