Draumur um Rockville hið nýja

Alþjóðlega flugmiðstöðin í Keflavík – betur þekkt sem Rockville í heimi flugsins – er tíu ára í dag. Farið er stuttlega yfir þetta litla ævintýri sem byrjaði um mitt ár 2007 og allt fram til dagsins í dag.

(20. mars 2017) Í gær var haldið upp á tíu ára afmæli Alþjóðlegu flugmiðstöðvarinnar í Keflavík eða Keflavik International Flight Center. Hún er þó best þekkt undir gælunafninu Rockville meðal starfsmanna og flugáhugamanna um allan heim. Þetta gamalgróna nafn eldri ratsjárstöðvar á Miðnesheiði festist fljótt við flugmiðstöðina, enda nóg af grjóti nú sem áður á Miðnesheiði og stutt í rokkbæinn Keflavík.

Mikið var um dýrðir og helstu fyrirmenni fluggeirans í heiminum er saman komin til að fagna áfanganum. Forstöðumenn þróunardeilda bæði Boeing og Airbus, og skólastjóri Spartan School of Aeronautics – stærsta samstarfsaðila flugháskólans í Keflavík – eru t.a.m. staddir hér á landi í þessu tilefni.

Við tímamót sem þessi er ætíð freistandi að líta aðeins um öxl.

Saga Rockville er stutt en jafnframt samfelld sigurganga. Eins og landsmenn vita hófst hún fyrir rúmum tíu árum síðan þegar breytingar urðu á varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna og íslenska ríkið tók við rekstri varnarstöðvarinnar í Keflavík. Ríkisstjórn Íslands hafði frumkvæði að því að stofna verkefnishóp sem greina átti stöðu og möguleika svæðisins. Ekki síst í atvinnu- og efnahagslegu tilliti. Sá hópur skilaði inn áliti og það var í kjölfar þess að sett var á laggirnar hlutafélag um alþjóðlega flugmiðstöð á Miðnesheiði.

Álit verkefnishópsins byggði fyrst og fremst á þeim styrkleikum sem svæðið hafði að þessu leyti. Fullvaxinn og fyllilega viðurkenndan, en heldur vannýttan alþjóðaflugvöll, staðsettan miðja vegu milli Evrópu og Norður-Ameríku. Hámenntað vinnuafl, nægt rými til athafna og þróunar, íbúðir fyrir fleiri þúsund manns, flugstjórnstöðvar í fremstu röð, flugskýli, yfirráð yfir alþjóðlegu flugstjórnarsvæði, nálægð við heimskautaaðstæður, góða innlenda og vaxandi flugskóla, mikla og langa flughefð, alþjóðleg fyrirtæki í flugrekstri, öruggt og stöðugt þjóðfélag, hátæknisinnað þjóðfélag, há lífsgæði og ekki síst aðlaðandi skattaumhverfi spilaði mikla rullu. Fljótlega eftir að hópurinn skilaði inn álitinu ákvað íslenska ríkið að fella niður alla skatta á flugtengdan rekstur. Ákveðið var að styrkja duglega við frumkvöðlastarfsemi á þessu sviði, sem hleypti miklu blóði í ferlið.

Eins og svo oft rúllaði boltinn hægt af stað. Í byrjun fluttu til Keflavíkur allir þeir flugskólar sem starfræktir höfðu áður verið í Reykjavík sem og Landhelgisgæslan. Ævintýrið byrjaði hins vegar af alvöru þegar AFK gerði samstarfssamning við þróunardeild Airbus um aðstöðu í Keflavík fyrir tilraunir þessa annars af tveimur risum flugiðnaðarins við heimskauta- og veðurfarslega erfiðar aðstæður. Fyrstu árin var hér einungis um lítið útibú að ræða sem tók á móti vélum er prufa átti nýjustu tækni en það vatt upp á sig. Í dag er í AFK ein af þremur rannsóknarmiðstöðum Airbus. Airbus tók síðan þátt í stofnun flugháskólans í Keflavík sem varð að veruleika tveimur árum seinna. Var það gert í samstarfi við Spartan School of Aeronautics í Tulsa í Bandaríkjunum og Háskólann í Reykjavík, sem voru einnig stofnaðilar skólans.

Gamla brýnið Space Ship One mætti til Rockville og var til sýnis

Að sögn upplýsingafulltrúa starfa í dag á svæðinu um 3000 manns. Um 12 alþjóðleg fyrirtæki og stofnanir hafa hér aðsetur. Í flugháskólanum eru um 1300 nemendur, 300 kennarar og leiðbeinendur og fer ört vaxandi ár frá ári. Nýjar deildir verða til að því er virðist á hverju ári og í deiglunni er að stofna sérstaka geimflugsdeild í samstarfi við Virgin Galactic, EADS Astrium og Evrópsku Geimferðastofnunina. Að sögn upplýsingarfulltrúans eru þær hugmyndir enn á algeru frumstigi, en gætu orðið að veruleika eftir 5 – 8 ár.

Starfsemi Rockville er þó enn háð því frumskilyrði að NATO geti tekið yfir stjórn og fengið yfirráðarétt yfir svæðinu á stríðstímum. Var það hluti af samkomulagi Íslands og bandalagsins í kjölfar samstarfssamningsins frá 2007. Einnig er hluti svæðisins helgaður starfsemi NATO, en þar hafa flugsveitir NATO aðsetur og þær þjóðir sem skiptast á að sinna eftirliti með lofthelgi Íslands. Samstarfið hefur hins vegar gengið vel, ekki síst eftir að flugháskólinn bauð upp á nám í flugi herþotna í samstarfi við flugheri viðkomandi ríkja. Því hefur einnig verið fleygt að sótt sé fast í að komast í eftirlit við Íslands strendur, enda stefnir svæðið hratt í það að verða meðal stærstu þekkingarsvæða á sviði flugmála í heiminum.

Já, Rockville rocks! Borðinn við innkeyrsluna segir allt sem þarf. Til hamingju með daginn.

(fyrir þá sem enn eru í vafa, þá er þessi „frétt“ uppspuni frá upphafi til enda … enn sem komið er).

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.