Markaður fyrir bóluefni

Nú eru liðin rúmlega 20 ár síðan alnæmisverunnar varð fyrst vart. Milljónir deyja ár hvert og efnahagur fjölmargra landa hefur verið lagður í rúst. Þrátt fyrir allan þennan kostnað bólar ekkert á bóluefni gegn veirunni.

Nú eru liðin rúmlega 20 ár síðan alnæmisverunnar varð fyrst vart. Milljónir deyja ár hvert og efnahagur fjölmargra landa hefur verið lagður í rúst. Þrátt fyrir allan þennan kostnað bólar ekkert á bóluefni gegn veirunni. Sama gildir um betri lyf gegn mörgum öðrum sjúkdómum sem aðallega herja á fátækari hluta heimsins, s.s. malaríu og berkla.

Grundvallar vandinn liggur í því að vestræn lyfjafyrirtæki hafa ekki næga hvata til að hefja rannsóknir á slíkum lyfjum. Öll lyfjaframleiðsla er mjög áhættusöm og þarfnast þess að fjársterkur markaður sé tryggður fyrir þau lyf sem komast alla leið. Fyrirtækin vita að mögulegur markaður ekki mjög fjársterkur og að pólitískur þrýstingur yrði mikill ef slíkt lyf hefði verið þróað en væri ekki dreift til þeirra sem það þyrftu og það gæti enn frekar þrýst verðinu niður.

Ýmsir hafa leitað leiða til að leysa þetta vandamál. Nýlega hefur rannsóknarhópur sýnt fram á fýsileika þessa að leysa þetta vandamál með svokölluðum framvirkum markaðsskuldbindingum (e. Advanced Market Commitments). Markmiðið er bæði að búa til sterka hvatningu fyrir lyfjafyrirtæki til rannsókna á þessum vanrannsökuðu sjúkdómum og tryggja hagkvæma og fljótvirka dreifingu þegar slík lyf væru full þróuð.

Hugmyndin er að alþjóðasamfélagið geri bindandi samning sem skuldbindi það til að kaupa ákveðið magn af bóluefni á tilsettu verði frá þeim aðila sem þróar lyfið. Í tilfelli bóluefnis við alnæmi hefur verið lagt til að keyptir verði 200 milljón skammtar á 15 dollara hvern. Eftir þessa upphaflegu greiðslu er gert ráð fyrir að bóluefnið sé selt á mjög viðráðanlegu verði. Þessi upphæð, þ.e. meira en 3 milljarðar bandaríkjadala, myndu búa til markað sem væri svipaður og fyrir mörg lyf sem nú eru í framleiðslu fyrir “vestræna velmegunarsjúkdóma”.

Gert er ráð fyrir að þessi samningur fæli ekki í sér greiðslur nema eitthvað fyrirtæki fullþrói bóluefni. Ef bóluefnið hins vegar væri þróað þá þyrfti að reiða fram þessa 3 milljarða, en það eru minna en 5% af árlegum útgjöldum alþjóðasamfélagsins til þróunarmála. Samkvæmt mati rannsakendanna er búist við því að þetta verkefni verði mjög hagkvæmt með kostnað upp á 15 til 30 dollara fyrir hvert ár í lengri lífslíkur fyrir einn einstakling (sambærilegar tölur sem þykja hagkvæmar á vesturlöndum eru 50 til 100 þúsund dollarar).

Í desember síðastliðinn samþykkti hópur 7 helstu iðnríkja heims að styðja við þessar hugmyndir. Vonandi stendur hópurinn við þær yfirlýsingar og ræðst í verkefnið af fullum hug. Slíkt myndi, samkvæmt rannsakendunum, gefa tækifæri á aðgerðum sem gætu bjargað fleiri lífum en nánast allar aðrar hugsanlegar leiðir til bættrar heilbrigðisþjónustu.

Latest posts by Snæbjörn Gunnsteinsson (see all)