Slappið af, hættan er liðin hjá

Vera má að Bandaríkjamenn hafi verið dónar við að tilkynna í fyrradag að þeir hygðust hrinda í framkvæmd ákvörðun sem þeir tóku fyrir þrettán árum og kalla herþoturnar á Keflavíkurflugvelli heim. Hins vegar ætti engum að koma á óvart að þetta hafi verið niðurstaðan og engin ástæða er til þess að gera mikið veður yfir málinu.

Vera má að Bandaríkjamenn hafi verið dónar við að tilkynna í fyrradag að þeir hygðust hrinda í framkvæmd ákvörðun sem þeir tóku fyrir þrettán árum og kalla herþoturnar á Keflavíkurflugvelli heim. Hins vegar ætti engum að koma á óvart að þetta hafi verið niðurstaðan og engin ástæða er til þess að gera mikið veður yfir málinu. Staðreyndin er nefnilega sú að það er hárrétt hjá Bandaríkjamönnum að stöðug vera herþotna á Íslandi hefur ekki minnstu raunverulega þýðingu fyrir varnir landsins.

Varnarsamningurinn frá 1951 felur í sér að Bandaríkin skuli sjá Íslendingum fyrir vörnum sem báðir aðilar sættast á. Slagurinn um veru fjögurra herþotna, nú þegar engin raunverulega hætta steðjar að landinu, getur tæpast flokkast sem málefnalegur ágreiningur um raunverulegar varnarþarfir. Í augum fólks sem ekki ólst upp í skugga deilna um herstöðina er upphlaup síðustu daga hálf fáránlegt – sennilega álíka fáránlegt eins og mörgum af kaldastríðskynslóðinni þykir húmorinn í Strákunum á Stöð 2.

Þeir sem tóku þátt í hatrömmum deilum um veru bandarísks herliðs á tímum kalda stríðsins sjá öll mál sem snúa að herstöðinni á Miðnesheiði í sérkennilegu ljósi. Stjórnmálin umhverfðust um herstöðina og NATÓ og enn eru þeir menn til sem þrá það heitast að sýna fram á að þeir hafi haft rétt fyrir sér í þeim slag. Mörgum þeirra virðist erfitt að átta sig á að sá slagur er búinn og öll þau mál fyrir löngu útkljáð. Umræða um varnarhagsmuni Íslands í dag má ekki halda áfram að litast af fornum erjum sem byggðust á forsendum sem hrundu fyrir meira en áratug síðan. Eina markmið samstarfs Íslendinga við Bandaríkjamenn nú um stundir er að tryggja að hugsanlegir árásarmenn gegn Íslandi geti reiknað með því að til þess að ná völdum á hinu vopnlausa Íslandi þyrfti fyrst að yfirstíga þá smávægilegu hindrun sem er að leggja að velli her Bandaríkjanna og annarra NATÓ þjóða.

Þegar síðast varð stór hvellur vegna málefna bandaríska hersins hér á landi var þetta skrifað í ritstjórnarpistli á Deiglunni hinn 13. júní 2003:

Það er í sjálfu sér ekkert sérstakt metnaðarmál fyrir okkur Íslendinga að hér á landi sé staðsettur her. Í raun ætti hið gagnstæða að vera áfram reglan hér á landi. Íslendingar hafa löngum verið vopnlaus þjóð enda hefur landfræðileg lega landsins hingað til dugað ágætlega til þess að gera hernaðarinnrás fremur hæpið og óarðbært fyrirtæki að ráðast í. Með aðild okkar að Nató er innrás í Ísland gerð enn óskynsamlegri enda hefur ekkert ríki hætt á það í sögu Atlantshafsbandalagsins að bjóða mesta hernaðarbandalagi heimsins byrginn með því að ráðast á eitt aðildarríkjanna.

Og enn fremur þetta um veru herþotna í landinu:

Ef ekki er hægt að tryggja slíkt þarf að gera þá kröfu til Bandaríkjanna að þeir leggi fram ítarlegar og aðgengilegar tillögur um hvernig lofthelgi Íslands verði vöktuð án fastrar viðveru orrustuflugvéla, t.d. með samstarfi við aðrar Natóþjóðir.

Íslendingar búa við þann munað að líkur á vopnaðri innrás í landið eru svo gott sem engar. Ef sú hætta skapast er óhætt að gera ráð fyrir því að vinaþjóðir okkar litu á það sem mikilvæga eiginhagsmuni að verja Ísland, enda væri Ísland þá skyndilega orðið hernaðarlega mikilvægt á ný.

Í stað þess að væla undan því að Bandaríkjamenn telji óhætt að skilja Keflavíkurflugvöll eftir án árásarþotna ættu íslenskir stjórnmálamenn á hægri vængnum að fagna. Vera Bandaríkjahers á Íslandi var mikilvægt framlag Íslands til þess að tryggja öryggi Vesturlanda gegn rauverulegri ógn Sovétríkjanna. Því hlutverki er nú lokið. Hættan er liðin hjá.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)