Grafið undan mannréttindum

Mannréttindi eru mikilvæg og fáir sem andmæla því. Mannréttindi eru hins vegar ekki réttindi um allt. Mikil ofnotkun er á orðinu og svo virðist sem það sé notað í tíma og ótíma um allt milli himins og jarðar. Það er miður og til þess fallið að grafa undan mikilvægi raunverulegra mannréttinda.

Hugtakið mannréttindi er vandmeðfarið enda ekki samstaða um hvað eigi að teljast til mannréttinda. Eru öll réttindi mannréttindi eða bara nokkur grundvallarréttindi? Venja er að telja til mannréttinda þau réttindi sem kveðið er á um í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá 1948, samningnum um borgarleg og stjórnmálaleg réttindi frá 1966 og Mannréttindasáttmála Evrópu frá 1950. Þarna eru aðalega upptalin svokölluð neikvæð réttindi, þ.e. kveðið er á um hvað ríkisvaldið eigi ekki að gera þegnum sínum. Það má ekki pynta, hefta tjáningarfrelsið, takmarka félagafrelsið og ráðast gegn friðhelgi einkalífs svo eitthvað sé nefnt. Þetta eru mikilvæg réttindi og ekki mikið um það deilt.

En nokkur deila hefur verið uppi varðandi önnur réttindi eins og efnahagsleg-, menningarleg- og félagslegréttindi. Vel getur verið að rétt sé að telja þessi réttindi sem mannréttindi ef þau eru skilgreind neikvætt, t.d. þannig að ríkisvaldið megi ekki hrindra rétt manna til að efnahagslegra framfara.

Málið vandast þegar farið er að skilgreina alls konar réttindi sem jákvæð mannréttindi. Slík réttindi fela það í sér að krafa er á ríkisvaldið að gera eitthvað fyrir borgarana. Ríkið á að tryggja að allir fái menntun við hæfi, allir njóti viðunandi heilbrigðiskerfis, allir fái bætur o.s.frv. Nú eru þetta góð og gild málefni og eftirsóknarvert að allir njóti menntunar og heilbrigðis. En varla er hægt að fjalla um velferðarkerfið sem mannréttindabaráttu, eða hvað?

Það er nefnilega nákvæmlega það sem verið er að gera. Ef ríkið tekur ekki að sér að sinna ákveðinni þjónustu þá er það mannréttindabrot. Frumvarp um ný vatnalög er fast í mannréttindaumræðu, sem og frumvarp til nýrra auðlindalaga. Ef frjáls félagasamtök fá ekki fjármagn frá ríkinu til að rannsaka mannréttindi þá er það orðið að mannréttindabroti. Þetta virðist engan enda ætla að taka.

Ómögulegt er að telja réttindi sem fela í sér fjárhagslega ívilnun af hálfu ríkisins sem náttúruleg mannréttindi allra í þessum heimi. Það hefur það í för með sér að mannréttindi fara að snúast meira um fjárhagslegt bolmagn ríkja en grundvallarviðmið. Jafnframt er hætta á því að sterkustu sérhagsmunahóparnir njóti mestu „réttinda“ á kostnað þeirra sem minna mega sín. Krafa um að ríkið geri eitthvað fyrir borgarana er ekki krafa um mannréttindi heldur einfaldlega krafa um ákveðin réttindi. Um það snúast stjórnmál. Menn hafa svo mismunandi hugmyndir um hlutverk ríkisins og inntak réttinda en fáránlegt er að blanda mannréttindum í alla umræðuna.

Það er mjög óheppilegt að orðið mannréttindi sé notað sem ódýr skiptimynd í kröfugerð sérhagsmunahópa um sérhver sérréttindi. Mannréttindi eru ákveðin og mikilvæg réttindi allra en ekki réttindi um allt.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.