Úr fjötrum hafta yfir í frjálsa viðskiptahætti

Íslensk verslun var í fjötrum hafta áratugum saman á síðustu öld. Ríkið kom á fót tveimur stofnunum, Verslunarráði og Nýbyggingarráði, sem hnepptu íslenskan þjóðarbúskap í viðjar áætlunargerðar að fyrirmynd kommúnista.

Fjármálamarkaður á Íslandi fyrri part síðustu aldar einkenndist af pólitískum hugsjónum frekar en hugmyndum um það hvernig ætti að starfrækja skilvirkt bankakerfi í landinu. Auðhyggja og kommúnimsi áttust við og stjórnmálamenn hikuðu ekki við að stunda ítrustu inngrip í viðskiptalífið eftir því sem við átti. Um miðja öldina var lykilorðið höft. Höft voru lögð á gjaldeyri, en almenningur mátti ekki versla með gjaldeyri af fúsum og frjálsum vilja. Innflutningi var settar strangar skorður og verðlagseftirlit var starfrækt af hinu opinbera þar sem teknar voru ákvarðanir um það hvað vörur ættu að kosta í stað þess að láta framboð og eftirspurn ráða ferð. Þegar höft voru lögð niður sátu bankarnir eftir í slæmri samkeppnisstöðu við hið opinbera. Það breyttist smám saman og lagaumhverfi og einokun ríkisins var aflétt á ráðandi þáttum. Hagkerfi Íslands opnaðist smám saman og alþjóðleg verslun jókst.

Mikil verðbólga geysaði á 8. áratugnum og að lokum var gengið fellt. Eins og fjármálamarkaður nútímans sýnir glögglega, þá átti þetta eftir að breytast. Í dag er verðbólga lítil og stöðug. Gata einstaklingsframtaks hefur verið greidd og hindranir færðar úr vegi fyrir alþjóðlegri útrás. Í kjölfarið er íslandi leiðandi í útflutningi á bankaþjónustu og samheitalyfjaframleiðslu sem fáir áttu von á áður fyrr.

Íslenskt viðskiptalíf í fjötrum hafta

Á árunum 1931 til 1960 var verslun á Íslandi í fjötrum. Bannað var að flytja inn nokkuð án leyfis frá yfirvöldum. Innflutningsleyfin gengu kaupum og sölum manna á milli, enda vandkvæðum háð að fá að flytja bíl til landsins. Gekk það svo langt að dæmi voru um að hærra verð var greitt fyrir leyfið en sjálfur bíllinn kostaði.

Eftir að fyrsta ríkisstjórn lýðveldisins komst til valda hófu yfirvöld að ráðstafa gjaldeyristekjum þjóðarinnar í seinni heimstyrjöldinni, um 580 milljónum. Stefnan var að nota féð til að endurnýja framleiðslutæki þjóðarinnar og selja þau til einstaklinga. Ríkið ákvað ráðstöfunina. Í kjölfarið voru settar á fót sérstakar stofnanir, Verslunarráð og Nýbyggingarráð sem hnepptu íslenskan þjóðarbúskap í viðjar áætlunargerðar að fyrirmynd kommúnista. Verslunarráð hafði það hlutverk að ráða yfir allri verslun og viðskiptum í landinu. Nýbyggingaráði var ætlað að búa til heildaráætlun um nýsköpun íslensks þjóðarbúskapar þar sem áætlað var hve mikið af vinnutækjum þjóðin þyrfti til sjávar og sveita. Nýbyggingarráð stýrði þar með innflutningnum á tækjum og staðsetningu þeirra í samræmi við hugmyndir þess hvar ætti að byggja á hverjum tíma.

Afleiðingarnar voru þær, eins og áður hefur sýnt sig, að ríkið var ekki í stakk búið að taka ákvarðanir fyrir almenning um það hvar væri best og hagkvæmast að byggja. Í stað þess að auðvelda fólki að leiða saman hesta sína á hefðbundnum markaði þar sem framboð og eftirspurn næði saman, þá skapaði afskipti ríkisins glundroða.

Afleiðingarnar komu fram í miklum skorti á nýbyggingum í Reykjavík en á þessum tíma áttu sér stað miklir fólksflutningar „á mölina“. Ríkið var ekki í stakk búið til að bregðast við skyndilegri aukinni eftirspurn eftir húsnæði á höfuðborgarsvæðinu enda beytti ríkið sér gegn þróuninni til að vernda sveitir landsins.

Glundroðinn einkenndist einnig af því að starfssvið stofnanna tveggja rakst oft á og því gengu klókir menn milli stofnanna; oft var hægt að fá leyfi fyrir hlut hjá Nýbyggingaráði sem Verslunarráð var búið að neita.

Síðar var gengið lengra og ákváðu ráðgjafar ríkisstjórnar að almenningur þyrfti að minnka neyslu á þeim vörum sem kostaði erlendan gjaldeyri. Þar með var komið á verulegum innflutningshöftum og hætt var að flytja inn vörur sem þóttu þarfalitlar. Að sjálfsögðu ákváðu yfirvöld það sjálf hvað þeim þótti vera til óþurftar.

Á áratuginum 1960-1970 urðu þáttaskil í íslenskri verslun. Hömlur á utanríkisviðskipti voru lagðar niður. Útgáfa spariskírteina hófst og þar með var markað upphaf verðtryggingar fjárskuldbindinga. Unnið var að því að afnema það flókna kerfi sem byggt hafði verið upp og lögðust jafnvel þeir sem sköpuðu gamla kerfið á árarnar við að leggja það niður. Þó voru enn mikil opinber afskipti. Gengið og vextir voru ákvarðaðir af Seðlabanka og svo virðist sem að menn væru enn á þeirri skoðun að ekki ætti að koma hér á skilvirku bankakerfi. Í þessu umhverfi urðu bankarnir undir í samkeppni við ríkissjóðinn, sem var með mikla samkeppnisyfirburði.

Bankarnir ákváðu lánsupphæðirnar og það var erfitt að fá lán. Við lánsumsókn þurfti að tilgreina í hvað lánið átti að fara og ekki þótti við hæfi að taka lán fyrir kaupum á bifreiðum á litlum stöðum eins og Vestmannaeyjum.

Frjálsir viðskiptahættir taka við

Sá fjármálamarkaður sem við blasir á Íslandi í dag á fátt sameiginlegt með haftabúskapnum sem ríkti fram yfir miðja síðustu öld. Verðbólga 8. og 9. áratugarins þekkist ekki í dag og hefur um langt skeið verið stöðug. Þegar vísitala neysluverðs er skoðuð undanfarin ár þá sést að allt annað er uppi á teningnum, þróun vísitölunnar er nokkuð stöðug og hækkanir ekki miklar á milli ára. Nú ríkir mun meira frelsi í viðskiptum en áður og nú býr þjóðin við opið hagkerfi með miklum viðskiptum við útlönd. Í dag er enginn banki í ríkiseigu og bein pólitísk afskipti heyrir sögunni til. Nú býður kerfið ekki upp á strangari aðgerðir af hálfu stjórnmálamanna en þær að taka út innistæðu sína úr banka, mislíki þeim við stefnu hans.

Þrátt fyrir stutta sögu þá hefur íslenskur fjármálamarkaður þróast hratt frá afskiptum hins opinbera með ofuráherslu á sparnað yfir í frjálsan öflugan markað sem skilar af sér í bættum lífsskilyrðum til lands og þjóðar.

Heimildir:

Jakob F. Ásgeirsson: Þjóð í hafti. Almenna bókafélagið. Reykjavík. 1988

Sigurður Snævarr. (1993). Haglýsing Íslands. Reykjavík: Heimskringla.

Heimasíða Hagstofu Íslands: www.hagstofa.is