Köld eru kvenna ráð

sdfdÞað stendur skrifað að köld séu kvennaráð en í helgarnesti dagsins eru færð sannfærandi rök fyrir því að þessi sömu ráð séu miklum mun kaldari en nokkurn óri fyrir.

Í sturtu er gott að vera!

Það getur kostað talsverða fyrirhöfn að halda úti vefriti með nokkrum tugum skíbenta eins og ritstjórn Deiglunnar þekkir mætavel. Þannig eru eilíf vandræði að manna skriftir enda eru margir uppteknir og telja sig gjarna hafa eitthvað þarfara við tíma sinn að gera en að skrifa pistla á þetta blessaða vefrit. Til að sporna við þessari óheillaþróun hefur verið gripið til ýmissa aðgerða til að hvetja menn til að standa sína plikt í viku hverri.

Hvatakerfi eru ekki ný af nálinni og ritstjórn Deiglunnar gaf sér það sem forsendu að til auka heimtur á pistlum væri klókt að stilla upp keppni milli stúlkna og pilta innan hópsins. Reglurnar voru einfaldar: Tímalengd keppnistímabilsins var skilgreind fyrir fram og síðan var haldið utan um fjöld pistla sem hvort kyn birti á tímabilinu.

Það er óhætt að segja að undirtektir hafi verið góðar en eins og alltaf þegar mikið er í húfi sjá einhverjir ástæðu til að hafa rangt við og fara á svig við góða siðavenjur. Það er skemmst frá því að segja að strákaliðið stóð sig með mikilli prýði og fylgdi leikreglum í hvívetna og sýndu andstæðingum sínum gott fordæmi í leiknum.

Fyrir þessum siðalögmálum fór hins vegar ekki hjá kvenkyns skríbentum Deiglunnar sem beittu ýmsum klækjum og bellibrögðum til að birta fleiri pistla en karlkyns skríbentar en það verður að játast að þær stóðu uppi sem sigurvegarar.

Sem er verra.

Það er nú ekki hægt að sleppa því að minnast á enn eitt gullkornið sem birtist í á forsíðu Morgunblaðsins í dag. Þar er stutt grein sem fjallar um aðferðir sem menn geta beitt fyrir sig til að verða gáfaðri á einni viku. Besta heilræðið er án efa þetta og erfitt að gera sér í hugarlund hvað gekk eiginlega á innan veggja Morgunblaðsins þegar þessari hugmynd laust niður: Burstið tennurnar með hinni höndinni og farið í sturtu með lokuð augun!

Já, börnin góð – raunveruleikinn er stundum ótrúlegri en ýktustu sögur.

Góða helgi.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)