Grunnt á fordómum

Bandaríska kvikmyndin Brokeback Mountain, sem frumsýnd var á síðasta ári, hefur vakið mikla athygli. Pistlahöfundur sá myndina í Regnboganum í vikunni og varð ekki fyrir vonbrigðum. Þetta var bíóferð sem verður lengi í minnum höfð.

Bandaríska kvikmyndin Brokeback Mountain, sem frumsýnd var á síðasta ári, hefur vakið mikla athygli. Pistlahöfundur sá myndina í Regnboganum í vikunni og varð ekki fyrir vonbrigðum.

Myndin er gerð eftir sögu E. Annie Proulx og fjallar um forboðna ást tveggja kúreka og líf þeirra. Myndin hefst árið 1963 þegar kúrekarnir tveir, þá ungir menn, taka að sér að gæta fjár á Brokeback fjallinu í Wyoming eitt sumar. Með þeim þróast innilegt ástarsamband, en vegna hræðslu við fordóma samfélagsins gegn samkynhneigðum ákveða þeir að lifa ekki saman heldur halda hvor í sína áttina. Þeir giftast báðir og eignast fjölskyldu, en halda áfram að hittast á fjallinu Brokeback, nokkrum sinnum á ári, til að eiga nokkra stolna daga með hvorum öðrum. Í myndinni fáum við fylgst með lífi þeirra beggja, tilfinningum, og þá erfiðleika sem þeir þurfa að takast á við vegna þeirra og afstöðu samfélagsins til samkynhneigðar.

Myndin hefur fengið mikil og góð viðbrögð og fékk m.a. þrenn óskarsverðlaun. Það er oft svolítið erfitt að horfa á bíómyndir með opnum og „ómenguðum“ huga eftir að þær hafa fengið svona mikla og jákvæða umfjöllun, en í þetta skipti stóð hún alveg undir væntingum, og jafnvel gott betur. Myndin er einstaklega vel leikin og myndatakan fádæma falleg. Umfjöllunarefnið er í senn áhugavert og átakanlegt og vekur mann svo sannarlega til umhugsunar um, ekki bara fordóma gegn samkynhneigðum, heldur fordóma almennt og hvernig þeir geta haft áhrif á hamingju fólks og hæfileika þeirra og getu til að fóta sig í lífinu. Þetta var bíóferð sem verður lengi í minnum höfð.

Þó að í myndinni sé lögð töluverð áhersla þann tíma sem myndin á að gerast á og þá miklu fordóma og þröngsýni sem ríkjandi var þá, á hún ekki síður erindi við nútímann. Viðbrögð sumra áhorfendanna við innilegum ástaratriðum mannanna tveggja og samtölum þeirra sem lituðust af ástinni sem þeir báru til hvors annars, gerðu mér ljóst, betur en nokkru sinni fyrr, að þrátt fyrir að mikið vatn sé runnið til sjávar síðan 1963, eigum við enn nokkuð í land. Það er líklegast grynnra á illsku og hæðni á grundvelli fordóma en við gerum okkur grein fyrir.

Það er erfitt fyrir alla að vera neitað um líf með þeim sem maður elskar. Það er líka erfitt að vera litinn hornauga í samfélaginu og verða fyrir sífelldu aðkasti vegna þess eins að lifa því lífi sem maður telur færa sér hamingju. Ég ætla hér ekki að reyna að láta sem ég viti hvernig er að lifa sem samkynhneigður einstaklingur í dag, eða tilheyra öðrum hópi sem ekki er hluti af „norminu“. Hins vegar veit ég að það sem einkenna á samskipti okkar sem búum í sama samfélagi er umburðarlyndi, kærleikur og virðing fyrir hvort öðru. Að við eigum öll rétt á sömu lífsgæðum og sömu tækifærum til að upplifa það sem lífið hefur upp á að bjóða. Samfélagið sem við búum í í dag er ekki enn í stakk búið til að veita okkur þetta og því miður virðist umræðan í dag enn lituð fordómum.

Það skiptir okkur öll jafnmiklu máli að samfélagið sem við búum í sé raunverulega fordómalaust samfélag þar sem allir búa við jafnan rétt. Það að hafa tækifæri til að lifa lífinu til fulls er forsenda þess að geta gefið til baka af því sem maður hefur þegið. Aðeins í frjálsu og fordómalausu samfélagi verður slíkt mögulegt.

Latest posts by Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir (see all)