Launaskrið á Kalkofnsvegi er gott mál

Flestir eru sammála um að þeir vilji öflugar stofnanir, en öflugar stofnanir þýða ekki endilega það sama og stórar og íþyngjandi stofnanir. Að sama skapi er aukin spurn einkafyrirtækja eftir starfsmönnum hins opinbera af hinu góða.

Útrás íslenskra fyrirtækja er þreytt lumma og um hana hafa verið skrifaðar nægilega margar greinar. Flestar þeirra eiga það sammerkt að draga fram undraverðan vöxt íslenskra fyrirtækja á síðustu árum. Um þann vöxt verður ekki deilt en hins vegar hefur minna verið rætt um nauðsynlega framþróun ýmissa stofnana hins opinbera sem hafa þurft að þróast á áþekkum hraða til að halda í við útrásarvíkingana svokölluðu. Við viljum öflugar stofnanir, en öflugar stofnanir þýða ekki endilega það sama og stórar og íþyngjandi stofnanir. Eftirlitshlutverk þessara stofnana má samt ekki vanmeta. Efst í huga eru Seðlabanki Íslands, Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið – hér eftir nefnd þrenningin til einföldunar.

Innan þessara stofnana fer fram mikilvægt starf sem varðar trúverðugleika þess kerfis sem íslensk fyrirtæki starfa innan. Grunneiningar íslensk fjármálalífs hvíla á Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu, auk þess sem Samkeppniseftirlitið teygir anga sína inn á flest svið atvinnulífsins.

Ærinn vandi þrenningarinnar
Þessar stofnanir eru einfaldlega nokkuð sér á báti. Starfsfólk þeirra er eftirsótt í fjármálageiranum sem – surprise, surprise – borgar einfaldlega langhæstu launin. Þessi tilhögun setur bændur og búalið í nokkurn vanda, þar sem fjármálastofnanir hafa ráðið mikinn fjölda starfsmanna þessara stofnana hinum megin við borðið á hærri launum.

Eftir standa forsvarsmenn þrenningarinnar með ærinn vanda. Eiga þeir að missa allt sitt hæfasta starfsfólk yfir í einkageirann eða eiga þeir að hækka laun þeirra og halda þeim í starfi? Og ef þeir hækka launin – er þá ekki eðlilegt að laun forsvarsmannana hækki að sama skapi umfram laun undirmanna til að viðhalda eðlilegu sambandi milli launa og ábyrgðar? Er slíkt ekki víðtekin venja í samfélaginu – jafnt í einkageiranum og hjá hinu opinbera? Forstjórinn fær hærra endurgjald en undirmenn, skólastjórinn fær hærri laun en kennarinn.

Afleiðing frekar en forsenda
Rifjum upp fréttir. Þegar bankaráð Seðlabankans ákvað að hækka laun seðlabankastjóranna þriggja varð uppi fótur og fit í samfélaginu. Fréttamenn lögðust hverjir um aðra þvera og lögðu sig í líma við að slíta úr samhengi skýringar bankaráðs fyrir launahækuninni. Skýring bankaráðsins var samt einföld bæði að efni og formi: Að spurn eftir starfsmönnum Seðlabankans væri einfaldlega meiri en framboðið og ef bankinn vildi halda í gott starfsfólk yrði að koma til móts við það með hærri launagreiðslum. Einfalt og trúanlegt.

Það fór hins vegar gagnrýnislaust í gegnum furðu margar ritstjórnir þegar fréttamenn gerðu sér leik úr að velta upp líkum á því að innlend fjármálafyrirtæki sæktust eftir kröftum formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands. Aðalatriðið var ekki nefnt: Sú eðlilega tilhögun að æðsti yfirmaður ríkisstofnunar ætti auðvitað að vera hæst launaði starfsmaður hennar. Hækkun launa bankastjóra Seðlabankans er því frekar afleiðing af launaskriði millistjórnenda bankans frekar en forsenda hennar. Það er einkennilegt hvernig svo mikilvæg staðreynd gleymdist í umræðunni.

Blautu tusku rökin
Það er óumdeilt að sterkur og sjálfstæður Seðlabanki verður aðeins summan af starfsfólkinu sem þar starfar. Vöxtur íslenskra fjármálafyrirtækja krefst þess að styrk hans sé viðhaldið og launahækkanir eru tryggasta leiðin til að festa gott starfsfólk í sessi. Nákvæmlega sama á við um Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið, þar þarf að ráða afburðagott fólk og þessu fólki þarf að halda í vinnu – starfsmenn sem einkafyrirtæki girnast og bjóða hærri laun.

Sama er einfaldlega ekki upp á teningnum í flestum öðrum öngum ríkisrekstrar. Hjúkrunarfólk, kennarar og umönnunarstéttir eru alveg jafn mikilvægar starfstéttir og starfsmenn þrenningarinnar. Munurinn er hins vegar einn og hann einn ræður endurgjaldi fyrir vinnu þeirra: Fáir bjóða starfsmönnum þessara stétta hærri laun fyrir vinnu sína. Samkeppnin er ekki til staðar. Með þessu er ekki verið að segja að nokkur maður sé ofalinn af lágmarkstöxtum. Þeir eru hræðilegir og ef marka má launakannanir er freistandi að ætla að oki af lægst launuðu stéttum landsins verði ekki hrundið nema með aðkomu einkageirans að fleiri sviðum hins opinbera.

Að vanda létu forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar ekki sitt eftir liggja þegar laun seðlabankastjóranna voru hækkuð. Gamla góða blauta tuskan framan í verkafólk í landinu var dregin upp úr fötunni: „Að hækka laun seðlabankastjóra um 200 þúsund á mánuði án þess að gefa viðhlítandi skýringu er til háborinnar skammar og er þessi hækkun eins og blaut vatnstuska framan í almennt verkafólk.“ – eins og einn verkalýðsforkólfinn orðaði það. Þetta er hins vegar misskilningur og launahækkun til einstakra starfstétta í stoðgeira mesta vaxtabrodds íslensks atvinnulífs þarf alls ekki að ganga jöfn yfir allt launafólk í landinu.

Flókið en einfalt
Umræða um laun í samfélaginu þarf ekki að vera svona flókin. Hún á alls ekki að snúast um mannjöfnun – að þessi maður standi hinum fremri. Svoleiðis er það auðvitað ekki, en einhverra hluta vegna reyna of margir að ýta umræðunni í þann farveg. Kannski ekki skrýtið enda virðast móttökuskilyrðin fyrir slíkum málflutningi vera ágæt í samfélaginu. Þessa umræðu verður að skoða blákalt út frá framboði vinnuafls og sér í lagi eftirspurn. Annað er að slá ryki í augu verkafólks, svo maður noti nú áþekkan frasa!

Þrenningin þarf að herða róðurinn. Það er sama hvert litið er, allir vilja styrkja þessar stofnanir og telja það nauðsynlegt til að skapa betra rekstrarskilyrði fyrirtækja í landinu. En hvernig styrkjum við eftirlitsstofnanir og Seðlabankann? Með því að kaupa stærri skrifborð? Nei, svarið er auðvitað að ráða fleira hæfaleikaríkt fólk til starfa hjá þessum stofnunum. Slíkt fólk fæst gegn hærri launum enda er samkeppnin mikil og hún er vaxandi.

Nauðsynlegt stoðvirki
Skilvirk og vel mönnuð þrenning er öllum til hagsbóta. Sem betur fer ákveður ríkið ekki hvernig fyrirtæki í samkeppni dafna á markaði. Það er hins vegar þannig að á meðan hið opinbera hefur eftirlitshlutverki að gegna verður að róa að því öllum árum að athafnir hins opinbera hamli ekki vexti fyrirtækja.

Kaldhæðni örlaganna er samt alltaf jafnskemmtileg. Í þarsíðustu Peningamálum Seðlabanka Íslands segir: „Þrátt fyrir miklar samningsbundnar launahækkanir á síðasta ári er enn nokkurt launaskrið fyrir hendi ef miðað er við hækkun launavísitölu í janúar.“

Maður getur ekki annað en brosað út í annað.

———————————–
Greinin birtist áður í vikuritinu Vísbendingu.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)