Hrikalega slappur Háskóli?

Í ræðu við seinustu útskrift Háskólans minntist rektor á það markmið skólans að komast í hóp hundrað bestu háskóla í heiminum. Það er auðvitað ágætismarkmið, en ég held að fáir geri sér hins vegar grein fyrir því hve langt Háskóli Íslands er frá því að vera meðal þeirra bestu og hvað þarf að gera til að hann komist þangað.

Í ræðu við seinustu útskrift Háskólans minntist rektor á það markmið skólans að komast í hóp hundrað bestu háskóla í heiminum. Það er auðvitað ágætismarkmið, en ég held að fáir geri sér hins vegar grein fyrir því hve langt Háskóli Íslands er frá því að vera meðal þeirra bestu og hvað þarf að gera til að hann komist þangað.

Í þeim fréttum þar sem fjallað hefur verið um þetta mál hefur iðulega komið fram að öll Norðurlöndin, nema Ísland, eru með skóla í efstu hundrað sætunum. Þetta veldur mönnum vitanlega vonbrigðum. En ástandið er í raun mun verra en frá var sagt. Það kom nefnilega ekki nægilega vel fram í þessari umræðu að Háskólinn í Shanghai, sem framkvæmdi umrædda rannsókn, birti einnig lista yfir 500 bestu skóla í heiminum árið 2005. Háskóli Íslands komst heldur ekki inn á þann lista! Það væri því að mörgu leyti heppilegra að Háskólinn gerði það að skammtímamarkmiði sínu að komast í topp 500 listann, segjum innan 2. ára, áður en lengra er haldið. Til þess að ná þessu markmiði er auðvitað rétt að skoða fyrst eftir hvaða skilyrðum háskólarnir eru metnir.

Háskólinn í Shanghai notaði eftirfarandi skilyrði til að meta gæði háskóla heimsins:

1. Fjöldi fyrrverandi nemenda skólans sem hlotið hefur Nóbelsverðlaun eða Fields-orðuna (virtustu verðlaun í stærðfræði). Að mér vitandi hefur engum nema við HÍ enn hlotnast sá heiður.

2. Fjöldi kennara við skólann sem hlotið hafa áðurnefnd verðlaun. Engum starfsmanni Háskóla Íslands hefur enn hlotnast sá heiður.

3. Fjöldi vísindamanna við skólann sem mikið er vitnað í. (Byggt á http://www.isihighlycited.com. ) Enginn fræðimaður við Háskóla Íslands hefur þennan status.

4. Fjöldi greina eftir fræðimenn við skólann sem birst hafa í Science eða Nature á seinustu fimm árum. Samkvæmt athugun pistlahöfundar hafa 4 greinar, þar sem fræðimenn HÍ voru viðriðnir birst í tímaritunum á umræddum tíma. Sambærileg tala fyrir Harvard-háskólann, sem státar þar af bestum árangri er 999.

5. Fjöldi greina árið 2005, samkvæmt þremur gagnagrunnum (Science Citation Index-expanded, Social Science Citation Index, og Arts & Humanities Citation Index). Þetta er reyndar vegið hug- og félagsvísindunum í hag til að bæta upp fyrir að ekki eru veitt nóbelsverðlaun á þeim sviðum. Fljótleg athugun sýndi að 258 greinar þar sem starfsmenn HÍ komu að, var að finna í gagnagrunnunum þremur. Harvard skorar hvorki meira né minna 10.009 greinar.

6. Stærðarhagvæmni. Vegnu meðaltali ofangreindra þátta er deilt með fjölda fræðimanna sem starfa við skólann og sú útkoma er borin saman við hagkvæmasta skólann. Með mjög bjartsýnum nálgunum, reiknast Háskóli Íslands mér vera með stuðul 12,3 af 100 mögulegum sem þýðir að hann er átta sinnum lakari en besti skólinn á þessu sviði, Caltech.

Þegar allir þessir sex þættir eru teknir með í reikninginn verður niðurstaðan fyrir Háskóla Íslands vegna meðaltalið 1,8.

York-Háskólinn, sem er í 500. sæti á umræddum lista með vegna meðaltalið 9,0. Það þýðir að Háskólinn þyrfti að bæta sig fimmfalt bara til að ná inn á topp 500 listann, svo við tölum nú ekki um topp 100!

Á hátíðisstundum setja menn oft fram fullyrðingar á borð við þær að „Háskóli Íslands sé alþjóðlegur háskóli sem standist fullkomlega samanburð við aðra skóla erlendis.“ Ofannefndar tölur sýna hins vegar að Háskóli Íslands stenst engan veginn samanburð við erlenda háskóla. Fræðimenn skólans þyrftu að birta 7 til 8 sinnum fleiri greinar ár hvert ef hann ætti að ná Sænska landbúnaðarháskólanum að gæðum. Og ef skimað er yfir nöfn fastráðinna kennara er ljóst að skólinn er langt því að vera einhver „alþjóðleg stofnun“, því langflestir sem þar starfa eru Íslendingar.

Ég vona svo innilega að umræðan um bættan háskóla muni ekki bara snúast um frasa á borð við „fjársvelti skólans“ eða „virðingarleysi ráðamanna gagnvart honum“. Til að bæta sig þarf Háskólinn, fyrst og fremst, að reyna laða til sín framúrskarandi fræðimenn og afburðanemendur, meðal annars frá útlöndum. Það verður ekki gert öðruvísi en að taka launa- og styrkjakerfi skólans til gagngerrar endurskoðunar. En það er efni í annan pistil.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.