Já-kvæði

Hér hef ég setið drykklanga stund og leitað að skemmtilegu, fróðlegu og áhugaverðu efni til að fjalla um í pistli þessum – öðru en handbolta. Enginn var árangurinn. Það er kannski ekki beint gúrkutíð. Það er alveg eitthvað í fréttum – eitthvað í deiglunni eins og maður segir – en bara lítið jákvætt, skemmtilegt eða uppörvandi.

Ég var búin að lofa mér að skrifa ekki um handboltann. Hér hef ég því setið drykklanga stund og leitað að skemmtilegu, fróðlegu og áhugaverðu efni til að fjalla um í pistli þessum – öðru en handbolta. Enginn var árangurinn. Það er kannski ekki beint gúrkutíð. Það er alveg eitthvað í fréttum – eitthvað í deiglunni eins og maður segir – en bara lítið jákvætt, skemmtilegt eða uppörvandi.

Ég hefði svo sem getað valið mér að skrifa kvörtunar- og/eða fordæmingarpistil í umvöndunartón og tekið fyrir t.d. skort á verklagsreglum íslenskra friðargæsluliða, fáránleg viðbrögð margra við höfnun tveggja hæstaréttardómara á nálgunarbanni fyrr í mánuðinum, hergagnaflug íslenskra flugfélaga, Gísla Martein í námi á launum, yfirvofandi verkfall ljósmæðra, dánartíðni ESB sem er á leið fram úr fæðingartíðni, borgarmálin, kreppu og aftur kreppu og svo mætti lengi telja. Þar með hefði ég slegist í hóp allflestra pistlahöfunda, bloggara og annarra sem tjá sig um daginn og veginn á opinberum vettvangi. Það er bara orðið þreytt. Ég er að hugsa um að láta aðra um neikvæðnina í dag og einbeita mér að því sem er gott og gleðilegt. Þá er það bara handboltinn.

Handboltalandsliðið kemur heim frá Peking í dag. Þeir stóðu sig vel og það var gaman að fá að fylgjast með silfurgöngunni. Hér í Lundi söfnuðust hátt í hundrað manns saman og héldu fjölskyldu- og handboltahátíð með morgunverðarhlaðborði yfir úrslitaleiknum. Af netskrifum að dæma virðast margir Íslendingar hafa grátið gullið þennan morgun. Við fögnuðum silfurverðlaunum. Þar sem handbolti virðist þó samt sem áður vera það eina sem gleður Íslendinga í dag hvet ég ykkur til að taka á móti liðinu á Laugaveginum í dag og koma ykkur í góða skapið. Eru ekki 52 ár síðan Vilhjálmur Einarsson kom heim með silfur? Vonandi þurfum við ekki að bíða í önnur 52 ár eftir að góða skapið og jákvæðnin komi næst til Íslendinga. Núna væri líka bara fínt.

Ein spurning: Af hverju var Vala Flosa ekki keyrð á vörubíl niður Laugaveginn með bronsið sitt?

Latest posts by Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir (see all)