Er fegurð eina tabúið?

Á sunnudögum gefst mönnum oft tóm til að hugleiða ýmsa hluti sem aðra daga komast ekki að sökum anna og/eða mikilvægari málefna. Eitt af því sem oft hefur hvarflað að pistlahöfundi, en hann ekki gefið sér tíma til að hugleiða betur, er af hverju fegurð er svona mikið tabú. Af hverju þykir það verra að keppa í fegurð en einhverju öðru og af hverju má maður ekki komast áfram í lífinu af því að maður er fallegur alveg eins og að hagnýta sér einhverja aðra meðfædda eða áunna kosti? Skoðum þetta nánar.

Á sunnudögum gefst mönnum oft tóm til að hugleiða ýmsa hluti sem aðra daga komast ekki að sökum anna og/eða mikilvægari málefna. Eitt af því sem oft hefur hvarflað að pistlahöfundi, en hann ekki gefið sér tíma til að hugleiða betur, er af hverju fegurð er svona mikið tabú. Af hverju þykir það verra að keppa í fegurð en einhverju öðru og af hverju má maður ekki komast áfram í lífinu af því að maður er fallegur alveg eins og að hagnýta sér einhverja aðra meðfædda eða áunna kosti? Skoðum þetta nánar.

Ýmsir mismunandi eiginleikar manna hafa í gegnum tíðina talist til mannkosta. Þeir klassísku eru gáfur, gæska og innri fegurð, heiðarleiki, hreysti og aðrir skyldir þættir. Einstaklingar sem skarta þessum kostum geta óátalið og án öfundar eða fordóma komist áfram í lífinu á grundvelli þeirra og hlotið í leiðinni aðdáun og jákvæðni í sinn garð. Einn er sá eiginleiki sem menn hafa hins vegar verið átaldir fyrir að hagnýta sér til framdráttar. Fegurð er eitthvað sem menn eiga ekki að komast áfram á, en ef þeir gera það er slíkt fordæmt og er alls ekki eitthvað sem menn eiga að stæra sig af.

Í keppnum ýmiskonar koma meðfæddir og áunnir kostir manna við sögu. Gáfaðir einstaklingar keppa í eðlisfræði og stærðfræði, spurningakeppnum, skák og fleiru. Þeir þurfa auðvitað að æfa sig mikið og leggja á sig mikla vinnu, en grunnurinn, þ.e. gáfurnar þurfa að vera til staðar ef árangurinn á að vera einhver. Sterkbyggðir menn keppa í kraftlyftingum, aflraunum, kúlukasti og slíku. Þeir þurfa auðvitað að æfa sig, en hin meðfædda, sterka bygging einstaklingsins þarf í upphafi að vera til staðar. Sumir menn eru betur fallnir til að æfa sund, þar sem líkamsbygging þeirra er mjög hentug og vænleg til árangurs í þeirri grein, aðrir henta betur til keppni í fimleikum og svo framvegis. Þetta er allt gott og blessað og menn og konur sem skara framúr á framangreindum sviðum hljóta oft verðskuldaða athygli og aðdáun. Svo eru sumir sem velja að keppa í fegurð. Fegurð er jú meðfæddur eiginleiki (yfirleitt að minnsta kosti), en samt þurfa menn að æfa sig í fegurð ef svo má segja, þ.e. stunda hreyfingu og hollt matarræði og temja sér fágaða framkomu. Þessar keppnir þykja þó af flestum ekki vera upp á marga fiska og eru skrifaðar á hégóma og prjál. Pistlahöfundur hefur lengi verið sammála þeirri skoðun að það sé asnalegt að keppa í fegurð og hefur oft og tíðum skemmt sér vel undir áhorfi fegurðarsamkeppna við að finna að keppendum og tala um hversu hallærislegt þetta og hitt er.

Upphaf þessara pælinga má rekja til þess atburðar þegar Ísland eignaðist sína þriðju Miss World fegurðardrottningu og gagnrýni kom fram á forsætisráðherra vegna þess að hann sendi heillaóskaskeyti til nýju drottningarinnar okkar fyrir hönd allrar þjóðarinnar. Engum hefði hins vegar dottið í hug að kvarta yfir því að forsætisráðherra sendi heillaóskaskeyti til Völu Flosa þegar hún vann bronsið á ÓL eða þegar bridslandsliðið okkar vann Bermúdaskálina.

Af hverju má ekki keppa í fegurð eins og hverju öðru? Hvað er það sem gerir fegurð svona frábrugðna? Og afhverju má manneskja sem er fædd falleg ekki komast áfram í lífinu á þeirri Guðsgjöf alveg eins og sá sem hefur fengið gáfur að gjöf getur nýtt sér það? Svör manna við þessu hafa yfirleitt snúist um staðalímyndir og óheilbrigðar fyrirmyndir. Ungar stúlkur sem horfa á fallegu fegurðardrottningarnar fá minnimáttarkennd og það hefur neikvæð áhrif á sjálfsmynd þeirra ef þeim finnst þær ekki vera eins fallegar og þátttakendur í fegurðarsamkeppnum. Þetta getur svo í mörgum tilvikum leitt til átraskanna og þunglyndis. Staðaðlímynd kvenna er jú sú að vera falleg, hugguleg og prúð og elegant í framkomu. Það getur því reynt á ef stúlka nær ekki að fylla upp í þetta mót. En hvað með karlmenn. Staðalímynd karlmanna er að vera sterkir og stórir, hraustir og traustir. Hvað með þá drengi sem eru mjóir og væskilslegir, fá þeir þá ekki minnimáttarkennd gagnvart Hjalta Úrsusi og Gilzenegger og beygða sjálfsmynd í kjölfarið? Án efa, en í það minnsta hefur pistlahöfundur aldrei heyrt talað um það sem sérstakt vandamál.

Þetta er þá allt spurning um staðalímyndir, þ.e. að þær þurfi að uppræta. Til þess þarf uppeldis- og samfélagslegt átak, sem reyndar hefur að mörgu leiti nú þegar hafist með breyttum áherslum í uppeldi í skólum og leikskólum sem miða að því að greina kosti hvers og eins og að leitast við að rækta þá. Hver og einn á að vera metinn að verðleikum, hverjir svo sem þeir eru. Hver og einn á að fá tækifæri til að blómstra á sínu hæfileikasviði og ekki á að gera greinarmun á því hvaða hæfileikar eru ,,merkilegri“ en aðrir. Þegar því marki er náð á ekki að skipta máli hvort þú sért góður í fegurð, íþróttum eða manngæsku.

Er innri fegurð betri en ytri fegurð? Já, mér finnst það, en það verður hver og einn að meta fyrir sig. Ytri fegurð er samt alveg frábær líka. Þetta eru búnar að vera ágætis sunnudagspælingar.

Latest posts by Sigrún Helga Jóhannsdóttir (see all)