Rock hallelujah!

Þá hafa Íslendingar fengið svar við spurningunni. Svarsins hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu í nokkurn tíma. Á Evrópa eftir að fíla okkar einstöku Silvíu Nótt? Svarið er ótvírætt og afdráttarlaust. Evrópa var ekki að ná frábærleika Silvíu Nætur. Evrópa var ekki að ná gríninu. En Japanir fíla Silvíu Nótt, af hverju ekki Evrópa, af hverju ekki?

Þá hafa Íslendingar fengið svar við spurningunni. Svarsins hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu í nokkurn tíma. Á Evrópa eftir að fíla okkar einstöku Silvíu Nótt? Svarið er ótvírætt og afdráttarlaust. Evrópa var ekki að ná frábærleika Silvíu Nætur. Evrópa var ekki að ná gríninu. En Japanir fíla Silvíu Nótt, af hverju ekki Evrópa, af hverju ekki?

Silvía mætti til leiks í Aþenu með stæl. Um leið beindist athygli fjölmiðla að stórstjörnunni og Íslendingar héldu að dæmið væri að ganga upp. Stuttu eftir komuna til Aþenu fór ,,Silvíuhópurinn“ sem skipaður var mörgum af okkar fremstu listamönnum að draga hvert atriðið af öðru upp úr hattinum. Lífvörður Silvíu bar enskan blaðamann út af blaðamannafundi, öskrandi og æpandi, en þessi uppákoma vakti að sjálfsögðu verðskuldaða athygli. Ekki þarf að útskýra fyrir Íslendingum að blaðamaðurinn var íslensk leikkona. Leiksigur! Allt var þaulskipulagt, úthugsað og æft. Þetta var listrænn gjörningur af bestu gerð, ádeila og spegill á keppnina.

Svo kom púið. Silvía Nótt fékk varla tækifæri til að flytja sitt frábærlega útfærða atriði þar sem Grikkir og aðrir gestir keppninnar púuðu af lífs og sálar kröftum á Silvíu okkar svo að hún heyrði varla í tónlistinni þegar atriðið byrjaði. Íslendingar nær og fjær fengu kökk í hálsinn og tár á hvarm. Hvernig var hægt að koma svona fram við keppanda í Evróvisjón, Ólympíuleikum popptónlistarinnar? Slík framkoma er Grikkjum til skammar.

Með fullri virðingu fyrir keppninni sjálfri að sjáflsögðu var lagt af stað til að hrista upp í því fyrirbæri sem Evróvisjón er. Yfirleitt er það jú þannig að þegar menn sjá sjálfa sig í spéspegli eru menn fyrst undrandi og hugsa ,,er þetta ég?“ og eru kannsi solldið hikandi. En eftir að menn átta sig á því að þetta eru raunverulega þeir eru viðbrögðin oftast sú að menn slá á létta strengi, hlæja og sjá hvað þeir geta litið fáránlega út. Evróvisjónþjóðirnar voru greinilega ekki tilbúnar til að sjá sjálfar sig í spéspegli.

Íslendingar eiga ekki að vera sorgmæddir. Þvert á móti eigum við að fagna því að vera komin skrefinu lengra í Evróvisjónmenningu en flestar aðrar Evrópuþjóðir, sem af fullri alvöru sendu klæðalitla keppendur í búningum sem litu margir hverjir út fyrir að vera misheppnaðir öskudagsbúningar ungra stúlkna sem reyndu að líkjast Silvíu Nótt. Þessir voru alveg að meina þetta. Fúlasta alvara. Er það ekki bara rétt hjá Silvíu að þetta eru bara lúðar!!?

Höfnun Evrópuþjóða á Silvíu Nótt er ekki það eina athugaverða við undankeppni Evróvisjón. Armenía komst áfram for kræing átlád (afsakið orðbragðið)! Niðurstaða undankeppninnar öskrar á uppreisn vestur-Evrópuþjóða gegn ofurafli bandalags þjóða í austri sem ár eftir ár tryggja öllum eystrasaltsþjóðunum og fyrrverandi ríkjum Júgóslavíu sæti fyrir lög sín í úrslitakeppninni og skilja okkur hin eftir með brostnar væntingar og sært þjóðarstolt. Fyrir utan það hvað úrslitakeppnin verður leiðinleg með öllum þessum hræðilegu lögum! Breytinga er þörf, því ella er tilgangur þátttöku í keppninni horfinn. Auðvitað á vinnuskólalögmálið um að þetta sé ekki spurning um að vinna heldur aðeins að vera með að gilda um þátttöku þjóða í keppni sem þessari, en maður verður samt að geta haft það á tilfinningunni að maður eigi einhvern séns og að allir séu komnir saman á jafnréttisgrundvelli.

Þrátt fyrir allt ætlar pistlahöfundur að horfa á úrslitakeppnina sem fram fer í kvöld. Skemmtannagildi keppninnar verður væntanlega takmarkað (nema að Páll Magnússon útvarpsstjóri hafi tekið ábendingu Páls Óskars um að láta Silvíu kynna keppnina) en ljósið í myrkrinu er hið stórbrotna framlag Finna, Hard Rock hallelujah, sem er sungið af hinum mögnuðu Lordi. Allir að kjósa Finnaland!!! En samt áfram Ísland!!!

Latest posts by Sigrún Helga Jóhannsdóttir (see all)