Bannað að hafa rangt fyrir sér

Í síðustu viku gerðist sá einstaki atburður að breskur sagnfræðingur var dæmdur í þriggja ára fangelsi af austurrískum dómstól fyrir að halda því fram að helför gyðinga hafi ekki átt sér stað. Allt saman gott og blessað nema Irving hefur rangt fyrir sér, og í Austurríki og Þýskalandi er refsivert að hafa rangt fyrir sér um helför gyðinga.

David Irving var með of steiktar skoðanir

Í síðustu viku gerðist sá einstaki atburður að breskur sagnfræðingur var dæmdur í þriggja ára fangelsi af austurrískum dómstól fyrir að halda því fram að helför gyðinga hafi ekki átt sér stað – allavega ekki þannig eins og hún er kennd í sögubókum. David Irving hélt því fram að helförin hafi ekki verið eins umfangsmikil og viðurkennt er; gasklefar hafi ekki verið notaðir og dráp á gyðingum hafi jafnvel verið án vitundar Hitlers. Allt saman gott og blessað nema Irving hefur rangt fyrir sér, og í Austurríki og Þýskalandi er refsivert að hafa rangt fyrir sér um helför gyðinga.

Þetta mál hefur vakið mikla athygli evrópskra fjölmiðla. Enda ekki skrítið. Á sama tíma og farið er fögrum orðum um mikilvægi tjáningarfrelsisins í tengslum við birtingu fjölmiðla af skopmyndum af spámanni Íslams, er sagnfræðingur dæmdur í fangelsi fyrir að hafa ranga skoðun. Hræsni? Þeir sem fagna dómnum segja að setja verði tjáningarfrelsinu einhver mörk. Lýðræðið þoli ekki svona afbökun á viðurkenndum skoðunum og tjáningarfrelsinu fylgir mikil ábyrgð. Hvað þá með skopmyndirnar af spámanninum? Er í lagi að gera grín að múslimum en bannað að tala illa um gyðinga? Punkturinn í svona málflutningi virðist vera að best sé að banna allt óþægilegt og sópa öllu ljótu undir teppi.

Margir harma dóminn og halda því fram að þótt Irving hafi rangt fyrir sér er með öllu ótækt að dæma menn fyrir það eitt að tjá sig. Besta leiðin til að afgreiða vitleysinga er að láta þá eiga sig. Ef vitleysingar ná eyrum fólks er rétta leiðin að afgreiða vitleysuna opinberlega með rökum og staðreyndum. Það að banna tiltekna skoðun eða umræðu gerir illt verra. Opinber umræða hverfur af yfirborðinu, misskilningur og rangfærslur ná betur að skjóta rótum í hugum fólks og erfiðara verður að sýna fram á hið rétta þegar enginn er viðmælandinn. Þegar leyft er að takamarka tjáningarfrelsið í nafni sannleikans þá er verið að opna dyr fyrir ógeðfeldar aðferðir alræðissinna. Það yrði verulega truflandi ef bækur Irvings yrðu brenndar úti á torgi í Vín.

Dómurinn yfir Irving er sannanlega aðför að tjáningarfrelsinu. Reyndar er ekki við dómstóla í Austurríki að sakast heldur löggjafann þar í landi. Lögin eru vitlaus. En það er víðar í löndum Evrópu þar sem lög takmarka á óskiljanlegan hátt tjáningar- og athafnafrelsi borgaranna. Ísland er eitt þessara landa. Í almannahegningarlögum, nr. 19/1940, eru ákvæði sem kveða á um að ákveðin ummæli séu refsiverð. Helst ber að nefna 233 gr. a. sem kveður á um að refsivert er að ráðast opinberlega á aðra kynþætti, trúarbrögð ofl. með rógi, háði o.þ.h. Á þetta ákvæði hefur reynt og maður verið dæmur í Hæstarétti fyrir að halda því m.a. fram að munur væri á Afríkunegra með prik í hendi og Íslendingi. Afhverju mátti vitleysingurinn ekki halda þessu fram og gefa þannig öðrum tækifæri til að gagnrýna skoðanir hans og leiða í ljós að þær væru rangar? Nei, þess í stað voru skoðanir hans einungis fordæmdar án fullnægjandi röksemda, hann ákærður og loks dæmdur. Eftir stendur að rasismi hefur skotið rótum hér á landi en lítil umræða er um þessa alvarlegu þróun þar sem enginn tjáir sig. Eða er öllum sama? Nennir fólk ekki lengur að berjast fyrir skoðunum sínum með rökum og kýs frekar lagasetningu? Það er glæsileg lýðræðisleg niðurstaða.

Í hegningarlögunum er einnig refsivert að smána viðurkennd trúarfélög, sbr. 125. gr. Klám er bannað skv. 210. gr., áfengisauglýsingar eru bannaðar skv. 20. gr. áfengislaga. En furðulegast er þó bannið við að tala vel um reykingar í tóbaksvarnarlögum. Í 3. tl. 3. mgr. 7. gr. segir að óheimilt sé að fjalla um tóbak nema til að vara við skaðsemi þeirra! Ef heldur sem fram horfir verður brátt bannað að tala illa um forsætisráðherra og segja lélega brandara. Þessi árátta til að vernda allt og alla í nafni velsæmis og sannleikans er komin út í tómar öfgar. Það er misskilningur að hægt sé að útrýma öllu óþægilegu með boðum og bönnum. Samfélag er ekki frjálst og lýðræðislegt ef það getur ekki þolað erfið skoðanaskipti og áleitnar siðferðisspurningar. Tjáningarfrelsið er hornsteinn lýðræðisins en ekki óþægilegur fylgifiskur þess. Á Alþingi er ekki að finna þann mælikvarða sem sker úr um hvað er viðeigandi og hvað óviðeigandi, hann er að finna í umræðum manna á milli. Að svo mæltu og í nafni rangra skoðana eru lesendur hvattir til þess að reykja Camel sígarettur því þær eru hollar og bestar í heimi.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.