Þinn: V-Dagur

Í gær héldu blómabúðir Valentínusardaginn hátíðlegan. Elskendur og turtildúfur gæddu sér á hjartalöguðu sælgæti og margir fengu eflaust falleg kort. En einhverjir höfðu þó um annað að hugsa á Valentínusardaginn, því hann er einmitt alþjóðlegur V-Dagur eða dagur gegn ofbeldi á konum og stúlkum.

Þá er Valentínusardagurinn liðinn, með öllu því stússi sem honum fylgir. Prjálið virðist aukast með hverju ári og auglýsingar frá blómabúðum eru farnar að dynja á manni frá áramótum. Flestir tengja Valentínusardaginn við rómantík. Þetta er dagur elskenda, dagurinn til þess að játa það loksins fyrir ástinni þinni að þú hafir elskað hana allt árið í laumi. Saga dagsins er heldur ekki lítið rómantísk; heilagur Valentínus giftir fólk í tráss við bann Kládíusar keisara og hlýtur fyrir það dauðadóm. En fyrir öðrum hefur dagurinn hlotið nýja merkingu.

Árið 1998 voru V-dagssamtökin stofnuð í New York og 14. febrúar er alþjóðlegi V-Dagurinn síðan þá, dagur gegn ofbeldi á konum og stúlkum. Valentínusardagurinn er því yfirlýstur V-Dagur þar til ofbeldið hættir. Þegar allar konur heimsins lifa við öryggi, lausar við ótta og ógnir ofbeldis verður dagurinn þekktur sem Vinningsdagurinn (Victory Over Violence Day).

Upphafið að stofnun V-Dagssamtakana var hið margverðlaunaða leikrit Píkusögur (Vagina Monologues) eftir Eve Ensler. Hópur kvenna gekk til liðs við Eve og stofnaði samtökin. V-ið í V-Deginum stendur fyrir Victory, Valentine og Vagina.

Opinber stefna alþjóðlegu V-Dagssamtakanna er:

1.V-Dagurinn er hreyfing og skipulegt framtak til þess að binda endi á ofbeldi gegn konum fyrir fullt og allt

2.V-Dagurinn er sýn: Við sjáum fyrir okkur samfélag þar sem konur lifa frjálsar og öruggar

3.V-Dagurinn er krafa: Nauðgunum, sifjaspelli, barsmíðum, umskurði og kynlífsþrælkun verður að linna

4.V-Dagurinn er andi: Við lýsum yfir því að lífinu ætti fólk að lifa með því að skapa og þrífast frekar en að komast af eða ná sér eftir hræðileg grimmdarverk

5.V-Dagurinn er hvatning: Með því að efla almenna vitund manna um málefnið, mun dagurinn styrkja það sem þegar er í farvatninu og ýta undir nýtt framtak í auglýsingum, menntun og lögum

6.V-Dagurinn er vinna: Við munum starfa eins lengi og þarf. Við hættum ekki fyrr en ofbeldið hættir

7.V-Dagurinn er bráðnauðsynlegur: Við lýsum Valentínusardaginn V-Dag þangað til valdbeiting gegn konum líður undir lok, þá verður hann Vinnings-Dagur.

V-Dagssamtökin hafa vakið mikla athygli á opinberum vettvangi. Árið 2001 voru samtökin kosin ein af hundrað bestu góðgerðarsamtökum í heimi af Worth Magazine. Árið 2002 var V-Dagurinn haldinn á yfir en 800 stöðum víðs vegar um heiminn, þar á meðal á Íslandi. Samtökin héldu áfram að stækka, og árið 2005 var V-Dagsins minnst á 1116 stöðum. Samtökin skipuleggja skapandi atburði allan ársins hring til þess að safna peningum og breiða út boðskapinn og á þeim tíma sem samtökin hafa starfað hafa þau safnað yfir 30 milljónum bandaríkjadala. Samtökin vilja öðru fremur leiða athygli að og opna augu fólks fyrir því ofbeldi sem konur verða fyrir alls staðar í heiminum – nauðgunum, barsmíðum, sifjaspelli, umskurði og kynlífsþrælkun. Þau stóðu fyrir gerð heimildarmyndarinnar „Until the Violence Stops“ sem var sýnd í sjónvarpinu hér á landi og vakti mikla athygli. Samtökin hafa einnig unnið að miklum umbótum í Afríku, Miðausturlöndum og Asíu og komu m.a. að opnun fyrstu kvennaathvarfanna í Egyptalandi og Írak. Frá árinu 2004 hafa samtökin starfað í Kaíró við það að binda endi á ofbeldi gegn konum í Egyptalandi, Súdan, Marokkó, Túnis, Alsír, Jórdaníu, Sýrlandi og Líbanon. Það er því greinilegt að samtökin teygja arma sína víða.

Ég vona innilega að fólk hafi tekið sér tíma frá amstri gærdagsins við að opna ástarbréf og borða hjartalaga súkkulaði og hugsað til þeirra milljóna kvenna sem eru beittar ofbeldi í heiminum. Þau sem ekki létu hugann hvarfla til þeirra, nota vonandi tækifærið þann 1. mars þegar V-Dagsins verður minnst opinberlega á Íslandi.

Latest posts by Diljá Mist Einarsdóttir (see all)

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Diljá hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2006.