Til hvers eru orkufyrirtæki í eigu hins opinbera?

Orkuveitur a Íslandi hafa starfað í marga áratugi undir skjólvæng misviturra ríkisstarfsmanna. Í gegnum áratugina hefur samband þeirra við eigendur sína, landsmenn, slitnað hægt og rólega svo að í dag láta orkuveitur eins og landsmenn séu ekkert annað en neytendur sem eigi að sitja glaðir undir fákeppnisfyrirkomulagi þeirra

Undirritaður hefur áður lýst því hvernig hagur ríkisstarfsmanna rennur ekki saman við hag vinnuveitanda þeirra, skattgreiðendum.

Þannig er málum einmitt háttað með opinber orkufyrirtæki eins og Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur.

Í stað þess að ráðast á orkugeirann í heild sinni sem er of stórt verk fyrir jafn stuttan pistil þá skal hér gerð athugasemd við rök sem eru notuð fyrir tilvist orkufyrirtækja.

Þetta eru þau rök að hér sé um glæsileg fyrirtæki að ræða sem skili hagnaði sem styrki aftur rekstur hins opinbera myndarlega.

Til þess að átta okkur á þessum rökum, förum snöggvast yfir það hvað venjuleg fyrirtæki geta helst gert við hagnað. Þetta eru þrjú atriði:

1. Borgað niður skuldir
2. Verðlaunað eigendum (t.d. með arðgreiðslum)
3. Aukið tekjumöguleika (t.d. byggt nýja verksmiðju)

Eigendum opinberra orkufyrirtækja (þeas landsmönnum) má þannig verðlauna með því að lækka verð á orku. Einnig getur fyrirtækið bætt rekstrarskilyrði sín með því að greiða niður skuldir (og í kjölfar lækkandi vaxtagreiðslna lækkað orkuverð)

Því miður fyrir eigendur orkufyrirtækja (landsmanna) þá hafa stjórnendur slíkra fyrirtækja þá tilhneygingu að einblína á atriði númer þrjú og veita hinum atriðunum minni (enga) athygli. Þeir þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur af því að landsmenn séu óánægðir með þá. Landsmenn geta nefninlega ekki rekið þá.

Í stað þess að bæta hag landsmanna með því að veita þeim ódýrari orku þá eyða orkufyrirtæki stórfé í að styrkja stjórnmálamenn. Þetta gerist þegar til dæmis Orkuveita Reykjavíkur dælir milljarðaarðgreiðslum til R-listans sem með Houdinískum hæfileikum lætur peningana hverfa. Raunverulegir eigendur Orkuveitunnar standa eftir slippir og snauðir!

Svarið við upphaflegri spurningu pistlahöfundar: „Til hvers eru orkufyrirtæki í eigu hins opinbera“ er að ef borgarar lands trúa því að markaðinum geti ekki útvegað sér orku á sanngjörnu verði* þá er tilgangur opinberra orkufyrirtækja að útvega þessum sömu borgurum orku á lágu verði. Ekkert annað!

Ég er ekki að segja að orkufyrirtæki megi ekki eiga önnur fyrirtæki og að þau megi ekki taka áhættu með því að fjárfesta í áhættusömum verkefnum. Ég er segja að það er einfaldlega ekki hlutverk orkufyrirtækja í eigu almennings að standa í slíkum aðgerðum.

Markaðurinn á að sjá um þetta. Aðrar hugmyndir eiga réttilega heima í Sovétríkjunum sálugu.

* höfundur er ósammála því að einkafyrirtæki á Íslandi myndu ekki geta boðið orku á góðu verði. Rökin hér eru hinsvegar þau einu rökréttu fyrir tilvist opinberra fyrirtækja á orkusviði

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.