Júróvisjónþras – Fyrri hluti

Á meðan landsmenn keppast við að boða til júróvisjónpartýja í aðdraganda úrslitakvölds íslensku undankeppninnar er enn í gangi umræðan um lag Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar og hvort leyfa átti laginu að halda áfram í keppninni, eftir að það komst í dreifingu á Internetinu. Þetta mál er eitt af mörgum þar sem tilkoma Internetsins flækir túlkun og framfylgni reglna og laga.

Eftir áralangt hlé ákvað ríkissjónvarpið að efna á nýjan leik til undankeppni í sjónvarpi þar sem framlag Íslands til júróvisjón keppninnar 2006 yrði valið. Í stað þess að fara sömu leið og áður þegar undankeppni hefur verið haldin og standa að keppninni sjálft, ákvað Sjónvarpið að setja framkvæmd og umsjónina í hendur utanaðkomandi fyrirtækis. Útkoman hefur orðið sú að á fjórum kvöldum gefst landsmönnum kostur á að velja framlag okkar til aðalkeppninnar í rólegheitum í hópi góðra vina og vandamanna. Þetta er hið prýðilegasta framtak hjá RÚV en í aðdraganda keppninnar hefur hins vegar komið upp deilumál vegna eins laganna.

Í reglum keppninnar er tekið fram að óheimilt sé að dreifa lagi, eða setja í opinbera spilun, áður en það hefur verið spilað í undankeppninni (eða lag útnefnt sem framlag landsins). Áður en Internetið kom til sögunnar var mun erfiðara að koma lagi í það sem kalla mætti “opinbera spilun” eða “almenna dreifingu”. Ljósvakamiðlarnir voru í raun eina leiðin til þess fyrir utan formlega útgáfu á plötu/kassettu/geisladiski. Reyndar hefði einhver getað sent kassettu til vinar síns og hann svo afritað hana og sent áfram, en það hefði tæpast talist opinber spilun nema þorri almennings væri kominn með afrit af spólunni/upptökunni í hendurnar.

Í dag er hins vegar mun auðveldara að ná almennri dreifingu með því að senda “hluti” á rafrænu formi, hvort sem um er að ræða myndir, lög, texta eða annað. Um leið má segja að mun auðveldara sé að dreifa slíku efni í óþökk þeirra sem höfundarrétt hafa að efninu eins og alkunna er og hefur m.a. endurspeglast í baráttu tónlistar- og afþreyingariðnaðarins við notendur Internetsins. Þetta leiðir okkur að einni grundvallarspurningu, þ.e. hvenær setur maður lag í dreifingu og hvenær ekki? Eru, í þessu tilfelli, höfundar lagsins Til hamingju Ísland, að taka áhættu á því að verða hent út keppninni með því að senda lagið með tölvupósti á einhvern aðstandanda keppninnar í stað þess að fær honum lagið á geisladiski eða öðru upptöku formi?

Hvar endar ábyrgð keppenda og hvar hefst hún þegar kemur að dreifingu lags? I tilfelli sem þessu er ljóst að það er alltaf svigrúm til staðar fyrir höfunda að nýta sér dreifingarmátt Internetsins sér í hag, en um leið er einnig nægt svigrúm til staðar fyrir óprúttna aðila, eða þá sem vita ekki betur, að skemma fyrir höfundum með því að koma laginu í dreifingu. Það er fullljóst að þegar höfundur hefur skilað lagi af sér, hvort sem er á rafrænan hátt eða á miðli sem hægt koma á rafrænt form, þá er lítið mál að nýta sér hinar rafrænu dreifingarleiðir til þess að koma efninu sem víðast.

Nánari umfjöllun um þetta tiltekna tilfelli á morgun.

Undirritaður heyrði lagið Til hamingju Ísland fyrst í undankeppninni í sjónvarpinu, þ.e. á sama tíma og öll hin lögin.

Latest posts by Birgir Hrafn Hafsteinsson (see all)